Vopnafjörður

Fljúgðu til Vopnafjarðar! Það er Norlandair sem starfrækir flug til Vopnafjarðar út frá Akureyri alla virka daga. Hægt er að bóka flug til/frá Reykjavík með millilendingu á Akureyrarflugvelli.

Vopnafjörður er einn af veðursælustu stöðum landsins, söguríkur, vinalegur og fagur fjörður sem gaman er að sækja heim. 

Oneway / Roundtrip
?

Fljúgðu til Vopnafjarðar

Upplifðu stórkostlega náttúru og afþreyingu við allra hæfi á Vopnafirði.

ÁHUGAVERÐIR STAÐIR OG AFÞREYING

Fjörðurinn er stór og skiptist í þrjá dali. Selárdalur er þar nyrstur, þá Vesturárdalur sem vegurinn til Vopnafjarðar liggur nú um og austast Hofsárdalur sem tengdur er við Vesturárdal með svokallaðri millidalaleið.

Íbúafjöldi í sveitarfélaginu er um 700 manns. Aðalatvinnugreinar svæðisins eru fiskveiðar og fiskverkun, iðnaður, þjónusta og landbúnaður. Fjöldi möguleika er til afþreyingar og útivistar og er svæðið þekkt sem ein besta veiðiparadís landsins. Merktar gönguleiðar eru margar, fjölbreyttar og leiða á vit náttúruperla Vopnafjarðar. Ljósastapi eða „Fíllinn“, er ein þessara perla, steindrangur í austanverðum Vopnafirði. Einn af harla fáum fílum á Íslandi. Þéttbýlið Vopnafjörður stendur á Kolbeinstanga.


Kaupvangur
Menningarsetur Vopnafjarðar, Kaupvangur, er áhugaverður staður að heim að sækja. Húsið er eitt af elstu húsum kauptúnsins og setur mikinn svip á það. Húsið var byggt árið 1882 sem verslunarhúsnæði fyrir Örum og Wulff. Um 1914 hverfa Örum og Wulff frá Vopnafirði og Kaupfélagið rak eftir það sína verslun í húsinu. Í Kaupvangi hefur upplýsingamiðstöð ferðamála aðsetur. Auk þess er þar Múlastofa, sýning um líf og list þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona sem flestum Íslendingum eru að góðu kunnir á einn eða annan hátt. Hver kannast ekki við „Ekki gráta elskan mín, þó þig vanti vítamín…“ eða hið þekkta sönglag þeirra „Einu sinni á ágústkveldi“. Vesturfaramiðstöð Austurlands er einnig í Kaupvangi. Þúsundir Íslendinga fóru frá Vopnafirði vestur um haf í leit að betri lífskjörum í kringum aldamótin 1900. Þá er þar einnig að finna handverkshúsið og Kaupvangskaffi þar sem afgreitt er úrvals kaffi, tertur og léttir réttir.


Burstafell
Í Hofsárdal, stendur gamla ættarsetrið Bustarfell, einn af best varðveittu torfbæjum Íslands. Sérstaða safnsins felst í glöggri miðlun breyttra búskapar- og lifnaðarhátta fólks allt frá því fyrir 1770 til þess er hætt var að búa í bænum árið 1966. Við hlið safnsins stendur kaffihúsið Hjáleigan þar sem njóta má þjóðlegra veitinga í fegurð og friðsæld sveitasælunnar. Rétt innan við Minjasafnið á Bustarfelli er skiltuð gönguleið upp með Þuríðará, að Álfkonusteini. Merkilegar beinaleifar fundust í Þuríðarárgili árið 1985, leifar af hjartardýri frá því fyrir ísöld og eru einu spendýraleifarnar sem fundist hafa á Íslandi frá þeim tíma.

 

Golf
Rétt innan við kauptúnið er golfvöllurinn, 9 holu völlur, sem legu sinna vegna hefur ákveðna sérstöðu - hæðótt landslag, skásneitt í tilfellum og fjölbreytt með tilkomu mikið útsýni yfir fjörðinn og Krossavíkurfjöll. Við völlinn er golfskáli, aðstöðuhús hvar hvíla má lúin bein eða gæða sér á nestisbitanum.

 

Selárdalslaug
Sundlaug sveitarfélagsins, Selárdalslaug, er að finna í Selárdal, á bökkum einnar mestu laxveiðiár Íslands. Við sundlaugina er stór sólpallur, sólstólar og heitir pottar. Leitun er að jafn fagurri staðsetningu fyrir sundlaug enda er hún rómuð fyrir umhverfi sitt. Laugin var byggð sumarið 1949 af félagsmönnum í Einherja, ungmennafélagi Vopnafjarðar. Byggðu þeir laugina að mestu í sjálfboðavinnu og var hún vígð sumarið 1950. Endurbætur hafa verið gerðar á lauginni og er hún í ágætu ástandi, ávallt hefur þess verið gætt að halda umhverfi laugarinnar snyrtilegu. Fram undir 1975 var sundkennslu þannig háttað að nemendur dvöldu 1/2 mánuð í vist í húsum laugarinnar og mun oft hafa verið glatt á hjalla á þessum sundnámskeiðum. Laugin er um 12 km frá Vopnafjarðarkaupstað.

 

Góðar gönguleiðir
Margar merktar gönguleiðir er að finna í Vopnafirði er leiða á vit íslenskrar náttúru með öllu sínu ríkidæmi. Í Kaupvangi má fá bæklinga með myndum og leiðum sem áhugavert er að skoða. Má t.d. nefna gönguleið um Fuglabjargarnes, friðland með miklu fuglalífi og þverhníptum björgum beint niður í sjó. Þverárgilið sem er falleg gönguleið þar sem litadýrð líparíts blasir við í annars blágrýtislegu umhverfi og Hofsborgartungu sem býður uppá göngu um gróðursælt og fagurt umhverfi, rétt við Hofsá. Svona mætti lengi telja.

 

Góðar fiskveiðiár
Vopnafjörður hefur um langt árabil verið þekktur fyrir laxveiðiárnar í firðinum. Áður nefnd Selá er þar fengsælust en Hofsá sem rennur um Hofsárdal fylgir henni fast eftir. Sunnudalsá og Vesturdalsá eru einnig góðar fiskveiðiár. Allir geta keypt veiðileyfi á silungasvæði Hofsár sem og í Nykurvatn í Bustarfelli. Efst uppi á Bustarfellinu er hringsjá. Útsýni þaðan er stórfenglegt í góðu veðri þar sem sjá má stóran hluta Vopnafjarðar og fjallahringinn umhverfis hann.

 

Viltu vita meira?
Nánari upplýsingar um Vopnafjörð má finna á vef Vopnafjarðarhrepps og að auki er hægt að nálgast allar helstu upplýsingar fyrir ferðamenn á vef markaðssstofu Austurlands.

 

Nánari upplýsingar um Norlandair á Vopnafirði má finna hér.