Fréttir

30.07.2020

Farþegar í innanlandsflugi verða að ganga með andlitsgrímur frá og með 31.júlí 2020

Skv. tilmælum heilbrigðisyfirvalda þurfa allir farþegar í innanlandsflugi að ganga með andlitsgrímur frá og með 31.júlí 2020.

Skv. tilmælum heilbrigðisyfirvalda þurfa allir farþegar í innanlandsflugi að ganga með andlitsgrímur frá og með 31.júlí 2020. Við setjum öryggi farþega og starfsmanna okkar í forgang og því þurfa farþegar að hafa grímurnar á sér frá því að þeir ganga um borð og þar til þeir fara frá borði. Flugáhöfnin verður líka með andlitsgrímur í gegnum allt flugið.

Ætlast er til þess að farþegar komi með eigin grímur. Andlitsgríman má vera hvort sem er heimagerð eða keypt, en hún verður að hylja nef og munn. 

Börn undir tólf ára aldri þurfa ekki að ganga með grímur. Við biðjum þá farþega okkar sem ekki geta gengið með grímu af heilsufarsástæðum, að láta áhöfnina vita þegar gengið er um borð.

Nánar má lesa um viðbrögð Air Iceland Connect við Covid-19 hér

14.03.2020

Ferðatakmarkanir til Grænlands

Grænlensk yfirvöld hafa tilkynnt um ferðatakmarkanir til Grænlands vegna COVID-19. Allir farþegar mega ferðast frá Grænlandi.

Grænlensk yfirvöld hafa tilkynnt um ferðatakmarkanir til Grænlands vegna COVID-19. Allir farþegar mega ferðast frá Grænlandi. Eftirfarandi gildir fyrir farþega sem ferðast til Grænlands:

• Grænlensk landamæri lokuðu kl.12:00 að staðartíma þann 14. mars 2020
• Landamærin verða lokuð til 13. apríl 2020
• Grænlenskir, danskir og færeyskir ríkisborgarar komast ávallt inn í landið
• Þeir sem búa eða vinna í Grænlandi munu einnig komast inn í landið, en búast má við töfum við landamæraeftirlit
• Öðrum, sem ekki hafa gilda ástæðu fyrir inngöngu, verður vísað frá

Þessar ferðatakmarkanir hafa eftirfarandi áhrif á flugáætlun Air Iceland Connect á þessu tímabili:

Síðasta flug milli Ilulissat og Reykjavíkur er áætlað þann 15.03.2020
Síðasta flug milli Kulusuk og Reykjavíkur er áætlað þann 18.03.2020
Síðasta flug milli Nuuk og Reykjavíkur er áætlað þann 17.03.2020

Öll flug eftir 13. apríl eru á áætlun fyrir utan flug milli Reykjavíkur og Ilulissat þann 14. apríl sem verður fellt niður.

Ef breytingar verða á fluginu þínu, munum við hafa samband við þig í tölvupósti eða sms skilaboðum.

19.12.2019

Stekkjarstaur í Kulusuk: Færði öllum börnum í næsta nágrannaþorpi Íslands gjafir

Miðvikudaginn 18. desember, fór sjálfur Stekkjarstaur til Kulusuk, á vegum Kalak, Hróksins og Air Iceland Connect.

Miðvikudaginn 18. desember, fór sjálfur Stekkjarstaur til Kulusuk, á vegum Kalak, Hróksins og Air Iceland Connect. Jólasveinn okkar fór að vanda klyfjaður gjöfum frá íslenskum velunnurum, jólanammi frá Góu og með spjaldtölvur frá Heiðbjörtu Ingvarsdóttur, Grænlandsfara Hróksins og stjórnarkonu í Kalak, til allra elstu nemendanna.

Stekkjarstaur var vel fagnað á flugvellinum í Kulusuk og flest börnin í bænum töldu ekki eftir sér að keifa gegnum snjóinn, þennan rúmlega hálftíma sem spássitúr úr þorpinu tekur að labba á völlinn. 

Flugfólkið frá Air Iceland Connect, þau Frímann Svavarsson og Ingibjörg Matthíasdóttir, hjálpuðu Stekkjarstaur við bráðskemmtilega athöfn á flugvellinum, þar sem gleðin og vináttan voru í fyrirrúmi.

Þetta var níunda og síðasta ferð liðsmanna Hróksins og Kalak til Grænlands á þessu ári, og hafa umsvifin aldrei verið meiri. Að auki hafa félögin sent mikið af vönduðum fatnaði, skóm og öðrum gjöfum til okkar vina og nágranna.

Árið 2020 er langt komið á teikniborðum íslenskra Grænlandsvina, og áfram verður haldið á fullri ferð að styrkja tengsl landanna og skapa ánægjustundir fyrir börn og fullorðna.

Fréttasafn

05.12.2019

Auglýst eftir umsóknum um Eyrarrósina 2020

Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir Eyrarrósina 2020 en Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefnum, utan höfuðborgarsvæðisins, sem þegar hafa fest sig í sessi. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005.

Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd, skipuð fulltrúum Air Iceland Connect, Byggðastofnunar og Listahátíðar í Reykjavík ásamt einum menningarfulltrúa á starfssvæði Byggðastofnuna. Nefndin tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina ásamt veglegum peningaverðlaunum. Hin tvö tilnefndu verkin hljóta einnig peningaverðlaun.

Verndari Eyrarrósarinnar er Eliza Reid, forsetafrú.

Umsóknarfrestur vegna Eyrarrósarinnar 2020 er til miðnættis 7. janúar 2020 og hægt er að smella hér til að sækja um.

Hér má sjá nánari upplýsingar um Eyrarrósina

27.09.2019

Farþegar Icelandair og Air Iceland Connect geta nú kolefnisjafnað flugið sitt

Icelandair Group tekur frekari skref í átt að umhverfisvænni starfsemi

Farþegar Icelandair og Air Iceland Connect geta frá og með deginum í dag kolefnisjafnað flug sitt. Í kjölfar bókunar flugmiða gefst farþegum kostur á að greiða viðbótar framlag til að jafna kolefnisfótspor sitt. Icelandair og Air Iceland Connect, í samstarfi við Klappir grænar lausnir, hafa reiknað út hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum losna við flug til allra áfangastaða félaganna. Framlagið mun renna óskert til Kolviðar sem hefur umsjón með kolefnisjöfnuninni sem felst í því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi.

„Icelandair Group hefur stigið mörg skref í umhverfisvænni átt í starfsemi sinni og við leitum sífellt frekari leiða til að draga úr losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið. Neytendur eru meðvitaðir um eigin kolefnisfótspor og það er ánægjulegt að koma til móts við farþega okkar sem vilja jafna kolefnislosun sína vegna flugferða. Þetta er mikilvægt skref og í samræmi við stefnu félagsins. Þá geta viðskiptavinir Icelandair Cargo nú þegar jafnað kolefnislosun sína sem myndast vegna flutninga með félaginu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. „Þess má geta að Icelandair er eitt fárra flugfélaga í heiminum sem hefur hlotið umhverfisvottun fyrir alla starfsemi sína. Air Iceland Connect er jafnframt með umhverfisvottun samkvæmt alþjóðlega umhverfisstaðlinum ISO 14001.“

Icelandair Group hefur gripið til ýmissa aðgerða á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum. Vélum fyrirtækisins hefur til dæmis verið breytt með ásetningu svokallaðra vængugga (e. winglets) sem draga úr loftmótstöðu og spara þannig eldsneyti. Einnig hefur félagið innleitt verklag og ýmsar aðferðir til að lágmarka eldsneytisnotkun, svo sem við aðflug og lendingu og með innleiðingu eldsneytisvöktunar til að draga úr losun. Þar að auki nýta flugmenn sérstaka flugtækni með það að markmiði að minnka hávaðamengun og eldsneytisnotkun en flugmenn draga til að mynda úr flughraða og þar með eldsneytisnotkun ef útlit er fyrir að viðkomandi flugvél lendi fyrir áætlun.

Um Kolvið
Kolviður er kolefnisjóður sem var stofnaður af Skógræktafélagi Íslands og Landvernd. Markmið sjóðsins er að auka bindingu kolefnis í jarðvegi með þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Kolviður býður fyrirtækjum og einstaklingum að gerast kolefnishlutlaus. Sjóðurinn fjármagnar aðgerðir til bindingar kolefnis með landgræðslu, skógrækt og öðrum leiðum sem draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Kolviður vinnur jafnframt að því að vernda jarðveg, gróður og vatnsauðlindir.

13.02.2019

List í ljósi á Seyðisfirði handhafi Eyrarrósarinnar 2019

Frú Eliza Reid forsetafrú veitti List í ljósi frá Seyðisfirði Eyrarrósina 2019 við hátíðlega viðhöfn í Garði nú síðdegis. Viðurkenningin er veitt árlega fyrir afburða menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Frá upphafi hafa Air Iceland Connect, Listahátíð í Reykjavík og Byggðastofnun staðið saman að verðlaununum en þau voru nú veitt í fimmtánda sinn.

Sú hefð hefur skapast á undanförnum árum að verðlaunaafhendingin fari fram í sveitarfélagi verðlaunahafa síðasta árs. Að þessu sinni fór afhendingin fram í Garði, Suðurnesjabæ, en myndlistartvíæringurinn Ferskir vindar frá Garði hreppti Eyrarrósina 2018. 

Frú Eliza Reid verndari Eyrarrósarinnar flutti ávarp og afhenti viðurkenninguna. Verðlaunin sem List í ljósi hlýtur er fjárstyrkur; tvær milljónir króna, auk verðlaunagrips sem hannaður er af Friðriki Steini Friðrikssyni vöruhönnuði. 

Að auki hlutu leiklistar- og listahátíðin Act Alone á Suðureyri og stuttmyndahátíðin Northern Wave / Norðanáttin í Snæfellsbæ formlega tilnefningu til Eyrarrósarinnar og 500 þúsund krónu verðlaunafé hvort. 

Úr umsögn valnefndar um List í ljósi, Eyrarrósarhafann 2019:

„Hátíðinni, sem fer nú fram í fjórða sinn, hefur vaxið ásmegin ár frá ári og laðar nú að sér breiðan hóp listafólks og gesta til þátttöku í metnaðarfullri og fjölbreyttri dagskrá.“
...
„Sérstök ljósalistahátíð er nýnæmi í íslensku menningarlandslagi og er List í ljósi þegar farin að hafa áhrif langt út fyrir Seyðisfjörð, til að mynda með áhugaverðu samstarfi við Vetrarhátíð í Reykjavík. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá listaverkefni á landsbyggðinni taka leiðandi hlutverk á landsvísu á sínu sviði. “

Þær Celia Harrison og Sesselja Jónasardóttir stofnendur og stjórnendur List í ljósi veittu viðurkenningunni viðtöku. 

Eyrarrósin 2019


07.01.2019

Aukin söfnun Vildarpunkta Icelandair ef bókað er flug hjá Air Iceland Connect

Frá og með mánudeginum 7. janúar munu félagar í Icelandair Saga Club safna mun fleiri Vildarpunktum við bókun á flugi hjá Air Iceland Connect en áður. Að auki munu félagar nú safna Kortastigum.

Nú eru veittir 1.000 Vildarpunktar við bókun á Fríðinda- og Flugkortsfargjöldum, 500 við bókun á Klassískum og 200 fyrir Létt fargjöld. Þetta gildir fyrir bæði innanlandsflug og flug til Grænlands.

Sjá nánari upplýsingar um söfnun og notkun Vildarpunkta og notkun Punkta og peninga hér.

01.10.2018

Flug milli Akureyrar og Keflavíkur farið af stað aftur

Fyrsta áætlunarflug vetrarins milli Akureyrar og Keflavíkur á vegum Air Iceland Connect fór í morgun frá Akureyri.

Air Iceland Connect tilkynnti fyrir nokkru að flug milli Akureyrar og Keflavíkur, í tengslum við millilandaflug, hefjist að nýju í haust. Nú er þetta flug komið af stað og verður í boði 4 sinnum í viku.

Áætlunin er eftirfarandi:

Frá Akureyri á mánudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum

Frá Keflavík á mánudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og sunnudögum

Flugtímarnir eru:

Frá Akureyri kl. 04:30, lending í Keflavík kl. 05:20

Frá Keflavík kl. 17:15, lending á Akureyri kl. 18:05

Flogið verður á 37 sæta Bombardier Q200 vél og eru því tæplega 300 sæti í boði í hverri viku og samtals tæplega 10 þúsund sæti yfir tímabilið til lok maí.

Eftirspurn Íslendinga eftir þessu flugi hefur verið mikil en einnig verður eftir sem áður lögð áhersla á að ná til erlendra ferðamanna. Fjölgun þeirra á því tímabili sem þetta flug verður í boði hefur verið gífurleg og mikilvægt er fyrir eðlilega þróun ferðaþjónustunnar að þeir ferðist sem víðast um landið. Beint flug frá Keflavík gerir þeim það mun auðveldar en ella.

07.09.2018

Atlantic Airways flýgur um Keflavíkurflugvöll frá 29. október 2018

Air Iceland Connect og færeyska flugfélagið Atlantic Airways eru í nánu og góðu samstarfi og hafa verið í mörg ár. 

Atlantic Airways hefur ákveðið að nota eingöngu Keflavíkurflugvöll í áætlunarflugi sínu til Íslands eftir 29. október 2018 í stað þess að nota Reykjavíkurflugvöll. 

Farþegar þurfa því að vera meðvitaðir um þessa tilhögun þegar þeir bóka flug til Færeyja. Þá þarf að velja Keflavík sem brottfararstað í bókunarvél í stað Reykjavíkur.

Athugið að mætingartími fyrir millilandaflug frá Keflavíkurflugvelli er a.m.k. 2 tímum fyrir brottför, kynnið ykkur nánar upplýsingar um mætingu og innritun með því að smella hér.

08.06.2018

Air Iceland Connect-hátíð Hróksins í Nuuk 2018

Skákfélagið Hrókurinn efnir til Air Iceland Connect-hátíðarinnar 2018 í Nuuk, 8.-13. júní næstkomandi. Haldin verða skákmót og fjöltefli í Nuuk Center, grunnskólar, athvörf, fangelsi og heimili fyrir börn heimsótt. Yfirskrift hátíðarinnar er: Til lífs og til gleði.

Liðsmenn Hróksins fagna því nú, að 15 ár eru liðin síðan félagið hélt fyrsta alþjóðlega skákmótið í sögu Grænlands. Það var í Qaqortoq í júní 2003, og meðal keppenda voru sumir sterkustu skákmenn heims, fjöldi heimamanna, og forsetar grænlenska og íslenska þingsins, Jonathan Motzfeldt og Halldór Blöndal. Síðan hafa Hróksmenn heimsótt Grænland hátt í 70 sinnum, haldið fjölda hátíða og tekið þátt í ótal samfélagsverkefnum til að efla samskipti og vináttu nágrannanna í norðri.

Átta liðsmenn Hróksins lenda í Nuuk 8. júní. Leiðangursstjóri er Hrafn Jökulsson forseti Hróksins, og með í för eru Róbert Lagerman skákmeistari og varaforseti félagsins, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt heiðursforseti Hróksins á Grænlandi, Stefán Herbertsson fv. formaður vinafélags Íslands og Grænlands, Max Furstenberg ljósmyndari, tónlistarmennirnir Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson, og síðast en ekki síst hin 9 ára Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir, sem er lukkutröll hátíðarinnar. Öll hafa þau margoft komið áður til Grænlands.

Hátíðin hefst formlega í Nuuk Center laugardaginn 9. júní klukkan 14 og verður Vivian Motzfeldt, mennta- og utanríkisráðherra heiðursgestur. Flutt verður tónlist og síðan munu Róbert og Hrafn tefla fjöltefli við gesti og gangandi. Öllum er velkomið að spreyta sig gegn meisturunum, og boðið verður upp á góðgæti frá Íslandi.

Sunnudaginn 10. júní klukkan 14 stendur Hrókurinn, ásamt Skákfélagi Nuuk, að Meistaramóti Nuuk 2018. Fyrstu verðlaun eru ferð til Íslands í boði Air Iceland Connect, en auk þess verður fjöldi annarra verðlauna. Öllum er velkomið að taka þátt.

07.06.2018

Flugvélar merktar í tilefni HM

Flugvélar í flugflota Air Iceland Connect hafa verið sérstaklega merktar á tilefni HM í knattspyrnu. Ýmist er sett undir vélarnar Húh! eða Áfram Ísland og fólk er hvatt til að smella mynd þegar vélar sjást á flugi yfir borg og bæi.

Áfram Ísland!

Vél félagsins merkt í flugskýlinu á Reykjavíkurflugvelli

17.01.2018

Air Iceland Connect styrkir Listasafn Akureyrar

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var dagskrá ársins 2018 og komandi starfsár kynnt. Einnig var farið í gegnum þær framkvæmdir sem nú standa yfir á Listasafninu og þær útskýrðar.

Í lok fundarins var undirritaður nýr samstarfssamningur Listasafnsins og Icelandair Hotels Akureyri og Air Iceland Connect. Það var Sigrún Björk Sigurðardóttir, hótelstjóri Icelandair Hotels Akureyri, og Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, sem undirrituðu samninginn. 

Listasafninu verður lokað í maí og fram til 17. júní þegar nýtt safn verður formlega tekið í notkun. Þá verða opnaðar sjö sýningar samdægurs: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Hugleiðing um orku; Sigurður Árni Sigurðsson, Hreyfðir fletir; Aníta Hirlekar, Bleikur og grænn; Svipir – valin verk úr safneign Listasafns ASÍ, Hjördís Frímann og Magnús Helgason; Hugmyndir, Úrval – valin verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri og yfirlitssýningin Frá Kaupfélagsgili til Listagils.

Í frétt á Vikudagur.is kemur fram að Listasafnið muni verða þátttakandi í Iceland Airwaves í ár en Air Iceland Connect er styrktaraðili þeirrar hátíðar að auki.

Tölvuteiknuð mynd af því hvernig Listasafnið mun koma til með að líta út

Tölvuteiknuð mynd af því hvernig Listasafnið mun koma til með að líta út eftir framkvæmdir en m.a. verður kaffihús opnað á safninu.