Fréttir

14.03.2020

Ferðatakmarkanir til Grænlands

Grænlensk yfirvöld hafa tilkynnt um ferðatakmarkanir til Grænlands vegna COVID-19. Allir farþegar mega ferðast frá Grænlandi.

Grænlensk yfirvöld hafa tilkynnt um ferðatakmarkanir til Grænlands vegna COVID-19. Allir farþegar mega ferðast frá Grænlandi. Eftirfarandi gildir fyrir farþega sem ferðast til Grænlands:

• Grænlensk landamæri lokuðu kl.12:00 að staðartíma þann 14. mars 2020
• Landamærin verða lokuð til 13. apríl 2020
• Grænlenskir, danskir og færeyskir ríkisborgarar komast ávallt inn í landið
• Þeir sem búa eða vinna í Grænlandi munu einnig komast inn í landið, en búast má við töfum við landamæraeftirlit
• Öðrum, sem ekki hafa gilda ástæðu fyrir inngöngu, verður vísað frá

Þessar ferðatakmarkanir hafa eftirfarandi áhrif á flugáætlun Air Iceland Connect á þessu tímabili:

Síðasta flug milli Ilulissat og Reykjavíkur er áætlað þann 15.03.2020
Síðasta flug milli Kulusuk og Reykjavíkur er áætlað þann 18.03.2020
Síðasta flug milli Nuuk og Reykjavíkur er áætlað þann 17.03.2020

Öll flug eftir 13. apríl eru á áætlun fyrir utan flug milli Reykjavíkur og Ilulissat þann 14. apríl sem verður fellt niður.

Ef breytingar verða á fluginu þínu, munum við hafa samband við þig í tölvupósti eða sms skilaboðum.

19.12.2019

Stekkjarstaur í Kulusuk: Færði öllum börnum í næsta nágrannaþorpi Íslands gjafir

Miðvikudaginn 18. desember, fór sjálfur Stekkjarstaur til Kulusuk, á vegum Kalak, Hróksins og Air Iceland Connect.

Miðvikudaginn 18. desember, fór sjálfur Stekkjarstaur til Kulusuk, á vegum Kalak, Hróksins og Air Iceland Connect. Jólasveinn okkar fór að vanda klyfjaður gjöfum frá íslenskum velunnurum, jólanammi frá Góu og með spjaldtölvur frá Heiðbjörtu Ingvarsdóttur, Grænlandsfara Hróksins og stjórnarkonu í Kalak, til allra elstu nemendanna.

Stekkjarstaur var vel fagnað á flugvellinum í Kulusuk og flest börnin í bænum töldu ekki eftir sér að keifa gegnum snjóinn, þennan rúmlega hálftíma sem spássitúr úr þorpinu tekur að labba á völlinn. 

Flugfólkið frá Air Iceland Connect, þau Frímann Svavarsson og Ingibjörg Matthíasdóttir, hjálpuðu Stekkjarstaur við bráðskemmtilega athöfn á flugvellinum, þar sem gleðin og vináttan voru í fyrirrúmi.

Þetta var níunda og síðasta ferð liðsmanna Hróksins og Kalak til Grænlands á þessu ári, og hafa umsvifin aldrei verið meiri. Að auki hafa félögin sent mikið af vönduðum fatnaði, skóm og öðrum gjöfum til okkar vina og nágranna.

Árið 2020 er langt komið á teikniborðum íslenskra Grænlandsvina, og áfram verður haldið á fullri ferð að styrkja tengsl landanna og skapa ánægjustundir fyrir börn og fullorðna.

05.12.2019

Auglýst eftir umsóknum um Eyrarrósina 2020

Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir Eyrarrósina 2020 en Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefnum, utan höfuðborgarsvæðisins, sem þegar hafa fest sig

Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir Eyrarrósina 2020 en Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefnum, utan höfuðborgarsvæðisins, sem þegar hafa fest sig í sessi. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005.

Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd, skipuð fulltrúum Air Iceland Connect, Byggðastofnunar og Listahátíðar í Reykjavík ásamt einum menningarfulltrúa á starfssvæði Byggðastofnuna. Nefndin tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina ásamt veglegum peningaverðlaunum. Hin tvö tilnefndu verkin hljóta einnig peningaverðlaun.

Verndari Eyrarrósarinnar er Eliza Reid, forsetafrú.

Umsóknarfrestur vegna Eyrarrósarinnar 2020 er til miðnættis 7. janúar 2020 og hægt er að smella hér til að sækja um.

Hér má sjá nánari upplýsingar um Eyrarrósina

Fréttasafn

27.09.2019

Farþegar Icelandair og Air Iceland Connect geta nú kolefnisjafnað flugið sitt

Icelandair Group tekur frekari skref í átt að umhverfisvænni starfsemi

Farþegar Icelandair og Air Iceland Connect geta frá og með deginum í dag kolefnisjafnað flug sitt. Í kjölfar bókunar flugmiða gefst farþegum kostur á að greiða viðbótar framlag til að jafna kolefnisfótspor sitt. Icelandair og Air Iceland Connect, í samstarfi við Klappir grænar lausnir, hafa reiknað út hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum losna við flug til allra áfangastaða félaganna. Framlagið mun renna óskert til Kolviðar sem hefur umsjón með kolefnisjöfnuninni sem felst í því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi.

„Icelandair Group hefur stigið mörg skref í umhverfisvænni átt í starfsemi sinni og við leitum sífellt frekari leiða til að draga úr losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið. Neytendur eru meðvitaðir um eigin kolefnisfótspor og það er ánægjulegt að koma til móts við farþega okkar sem vilja jafna kolefnislosun sína vegna flugferða. Þetta er mikilvægt skref og í samræmi við stefnu félagsins. Þá geta viðskiptavinir Icelandair Cargo nú þegar jafnað kolefnislosun sína sem myndast vegna flutninga með félaginu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. „Þess má geta að Icelandair er eitt fárra flugfélaga í heiminum sem hefur hlotið umhverfisvottun fyrir alla starfsemi sína. Air Iceland Connect er jafnframt með umhverfisvottun samkvæmt alþjóðlega umhverfisstaðlinum ISO 14001.“

Icelandair Group hefur gripið til ýmissa aðgerða á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum. Vélum fyrirtækisins hefur til dæmis verið breytt með ásetningu svokallaðra vængugga (e. winglets) sem draga úr loftmótstöðu og spara þannig eldsneyti. Einnig hefur félagið innleitt verklag og ýmsar aðferðir til að lágmarka eldsneytisnotkun, svo sem við aðflug og lendingu og með innleiðingu eldsneytisvöktunar til að draga úr losun. Þar að auki nýta flugmenn sérstaka flugtækni með það að markmiði að minnka hávaðamengun og eldsneytisnotkun en flugmenn draga til að mynda úr flughraða og þar með eldsneytisnotkun ef útlit er fyrir að viðkomandi flugvél lendi fyrir áætlun.

Um Kolvið
Kolviður er kolefnisjóður sem var stofnaður af Skógræktafélagi Íslands og Landvernd. Markmið sjóðsins er að auka bindingu kolefnis í jarðvegi með þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Kolviður býður fyrirtækjum og einstaklingum að gerast kolefnishlutlaus. Sjóðurinn fjármagnar aðgerðir til bindingar kolefnis með landgræðslu, skógrækt og öðrum leiðum sem draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Kolviður vinnur jafnframt að því að vernda jarðveg, gróður og vatnsauðlindir.

13.02.2019

List í ljósi á Seyðisfirði handhafi Eyrarrósarinnar 2019

Frú Eliza Reid forsetafrú veitti List í ljósi frá Seyðisfirði Eyrarrósina 2019 við hátíðlega viðhöfn í Garði nú síðdegis. Viðurkenningin er veitt árlega fyrir afburða menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Frá upphafi hafa Air Iceland Connect, Listahátíð í Reykjavík og Byggðastofnun staðið saman að verðlaununum en þau voru nú veitt í fimmtánda sinn.

Sú hefð hefur skapast á undanförnum árum að verðlaunaafhendingin fari fram í sveitarfélagi verðlaunahafa síðasta árs. Að þessu sinni fór afhendingin fram í Garði, Suðurnesjabæ, en myndlistartvíæringurinn Ferskir vindar frá Garði hreppti Eyrarrósina 2018. 

Frú Eliza Reid verndari Eyrarrósarinnar flutti ávarp og afhenti viðurkenninguna. Verðlaunin sem List í ljósi hlýtur er fjárstyrkur; tvær milljónir króna, auk verðlaunagrips sem hannaður er af Friðriki Steini Friðrikssyni vöruhönnuði. 

Að auki hlutu leiklistar- og listahátíðin Act Alone á Suðureyri og stuttmyndahátíðin Northern Wave / Norðanáttin í Snæfellsbæ formlega tilnefningu til Eyrarrósarinnar og 500 þúsund krónu verðlaunafé hvort. 

Úr umsögn valnefndar um List í ljósi, Eyrarrósarhafann 2019:

„Hátíðinni, sem fer nú fram í fjórða sinn, hefur vaxið ásmegin ár frá ári og laðar nú að sér breiðan hóp listafólks og gesta til þátttöku í metnaðarfullri og fjölbreyttri dagskrá.“
...
„Sérstök ljósalistahátíð er nýnæmi í íslensku menningarlandslagi og er List í ljósi þegar farin að hafa áhrif langt út fyrir Seyðisfjörð, til að mynda með áhugaverðu samstarfi við Vetrarhátíð í Reykjavík. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá listaverkefni á landsbyggðinni taka leiðandi hlutverk á landsvísu á sínu sviði. “

Þær Celia Harrison og Sesselja Jónasardóttir stofnendur og stjórnendur List í ljósi veittu viðurkenningunni viðtöku. 

Eyrarrósin 2019


07.01.2019

Aukin söfnun Vildarpunkta Icelandair ef bókað er flug hjá Air Iceland Connect

Frá og með mánudeginum 7. janúar munu félagar í Icelandair Saga Club safna mun fleiri Vildarpunktum við bókun á flugi hjá Air Iceland Connect en áður. Að auki munu félagar nú safna Kortastigum.

Nú eru veittir 1.000 Vildarpunktar við bókun á Fríðinda- og Flugkortsfargjöldum, 500 við bókun á Klassískum og 200 fyrir Létt fargjöld. Þetta gildir fyrir bæði innanlandsflug og flug til Grænlands.

Sjá nánari upplýsingar um söfnun og notkun Vildarpunkta og notkun Punkta og peninga hér.

01.10.2018

Flug milli Akureyrar og Keflavíkur farið af stað aftur

Fyrsta áætlunarflug vetrarins milli Akureyrar og Keflavíkur á vegum Air Iceland Connect fór í morgun frá Akureyri.

Air Iceland Connect tilkynnti fyrir nokkru að flug milli Akureyrar og Keflavíkur, í tengslum við millilandaflug, hefjist að nýju í haust. Nú er þetta flug komið af stað og verður í boði 4 sinnum í viku.

Áætlunin er eftirfarandi:

Frá Akureyri á mánudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum

Frá Keflavík á mánudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og sunnudögum

Flugtímarnir eru:

Frá Akureyri kl. 04:30, lending í Keflavík kl. 05:20

Frá Keflavík kl. 17:15, lending á Akureyri kl. 18:05

Flogið verður á 37 sæta Bombardier Q200 vél og eru því tæplega 300 sæti í boði í hverri viku og samtals tæplega 10 þúsund sæti yfir tímabilið til lok maí.

Eftirspurn Íslendinga eftir þessu flugi hefur verið mikil en einnig verður eftir sem áður lögð áhersla á að ná til erlendra ferðamanna. Fjölgun þeirra á því tímabili sem þetta flug verður í boði hefur verið gífurleg og mikilvægt er fyrir eðlilega þróun ferðaþjónustunnar að þeir ferðist sem víðast um landið. Beint flug frá Keflavík gerir þeim það mun auðveldar en ella.

07.09.2018

Atlantic Airways flýgur um Keflavíkurflugvöll frá 29. október 2018

Air Iceland Connect og færeyska flugfélagið Atlantic Airways eru í nánu og góðu samstarfi og hafa verið í mörg ár. 

Atlantic Airways hefur ákveðið að nota eingöngu Keflavíkurflugvöll í áætlunarflugi sínu til Íslands eftir 29. október 2018 í stað þess að nota Reykjavíkurflugvöll. 

Farþegar þurfa því að vera meðvitaðir um þessa tilhögun þegar þeir bóka flug til Færeyja. Þá þarf að velja Keflavík sem brottfararstað í bókunarvél í stað Reykjavíkur.

Athugið að mætingartími fyrir millilandaflug frá Keflavíkurflugvelli er a.m.k. 2 tímum fyrir brottför, kynnið ykkur nánar upplýsingar um mætingu og innritun með því að smella hér.

08.06.2018

Air Iceland Connect-hátíð Hróksins í Nuuk 2018

Skákfélagið Hrókurinn efnir til Air Iceland Connect-hátíðarinnar 2018 í Nuuk, 8.-13. júní næstkomandi. Haldin verða skákmót og fjöltefli í Nuuk Center, grunnskólar, athvörf, fangelsi og heimili fyrir börn heimsótt. Yfirskrift hátíðarinnar er: Til lífs og til gleði.

Liðsmenn Hróksins fagna því nú, að 15 ár eru liðin síðan félagið hélt fyrsta alþjóðlega skákmótið í sögu Grænlands. Það var í Qaqortoq í júní 2003, og meðal keppenda voru sumir sterkustu skákmenn heims, fjöldi heimamanna, og forsetar grænlenska og íslenska þingsins, Jonathan Motzfeldt og Halldór Blöndal. Síðan hafa Hróksmenn heimsótt Grænland hátt í 70 sinnum, haldið fjölda hátíða og tekið þátt í ótal samfélagsverkefnum til að efla samskipti og vináttu nágrannanna í norðri.

Átta liðsmenn Hróksins lenda í Nuuk 8. júní. Leiðangursstjóri er Hrafn Jökulsson forseti Hróksins, og með í för eru Róbert Lagerman skákmeistari og varaforseti félagsins, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt heiðursforseti Hróksins á Grænlandi, Stefán Herbertsson fv. formaður vinafélags Íslands og Grænlands, Max Furstenberg ljósmyndari, tónlistarmennirnir Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson, og síðast en ekki síst hin 9 ára Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir, sem er lukkutröll hátíðarinnar. Öll hafa þau margoft komið áður til Grænlands.

Hátíðin hefst formlega í Nuuk Center laugardaginn 9. júní klukkan 14 og verður Vivian Motzfeldt, mennta- og utanríkisráðherra heiðursgestur. Flutt verður tónlist og síðan munu Róbert og Hrafn tefla fjöltefli við gesti og gangandi. Öllum er velkomið að spreyta sig gegn meisturunum, og boðið verður upp á góðgæti frá Íslandi.

Sunnudaginn 10. júní klukkan 14 stendur Hrókurinn, ásamt Skákfélagi Nuuk, að Meistaramóti Nuuk 2018. Fyrstu verðlaun eru ferð til Íslands í boði Air Iceland Connect, en auk þess verður fjöldi annarra verðlauna. Öllum er velkomið að taka þátt.

07.06.2018

Flugvélar merktar í tilefni HM

Flugvélar í flugflota Air Iceland Connect hafa verið sérstaklega merktar á tilefni HM í knattspyrnu. Ýmist er sett undir vélarnar Húh! eða Áfram Ísland og fólk er hvatt til að smella mynd þegar vélar sjást á flugi yfir borg og bæi.

Áfram Ísland!

Vél félagsins merkt í flugskýlinu á Reykjavíkurflugvelli

17.01.2018

Air Iceland Connect styrkir Listasafn Akureyrar

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var dagskrá ársins 2018 og komandi starfsár kynnt. Einnig var farið í gegnum þær framkvæmdir sem nú standa yfir á Listasafninu og þær útskýrðar.

Í lok fundarins var undirritaður nýr samstarfssamningur Listasafnsins og Icelandair Hotels Akureyri og Air Iceland Connect. Það var Sigrún Björk Sigurðardóttir, hótelstjóri Icelandair Hotels Akureyri, og Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, sem undirrituðu samninginn. 

Listasafninu verður lokað í maí og fram til 17. júní þegar nýtt safn verður formlega tekið í notkun. Þá verða opnaðar sjö sýningar samdægurs: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Hugleiðing um orku; Sigurður Árni Sigurðsson, Hreyfðir fletir; Aníta Hirlekar, Bleikur og grænn; Svipir – valin verk úr safneign Listasafns ASÍ, Hjördís Frímann og Magnús Helgason; Hugmyndir, Úrval – valin verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri og yfirlitssýningin Frá Kaupfélagsgili til Listagils.

Í frétt á Vikudagur.is kemur fram að Listasafnið muni verða þátttakandi í Iceland Airwaves í ár en Air Iceland Connect er styrktaraðili þeirrar hátíðar að auki.

Tölvuteiknuð mynd af því hvernig Listasafnið mun koma til með að líta út

Tölvuteiknuð mynd af því hvernig Listasafnið mun koma til með að líta út eftir framkvæmdir en m.a. verður kaffihús opnað á safninu.

05.12.2017

Kveikt á Reykjavíkurjólatrénu í miðbæ Nuuk

Kveikt var á Reykjavíkurjólatrénu í miðbæ Nuuk á Grænlandi í gær. Rúmlega þrjú þúsund manns, fimmtungur bæjarbúa, fylgdust með þegar jólasveinn í krana slökkvibíls tendraði ljósin með lýsandi marglitum töfrasprota við mikinn fögnuð viðstaddra barna.

Gert var ráð yfirr að S. Björn Blöndal, formaður borgarstjórnar, héldi ræðu á samkomunni og afhenti tréð. Hann komst ekki til Grænlands í tæka tíð sökum ófærðar. Skafti Jónsson, aðalræðismaður í Nuuk, hljóp í skarðið og flutti Nuuk búum jólakveðjur frá Reykvíkingum. Vinsælir skemmtikraftar tróðu upp og Barnakór Tónlistaskólans í Nuuk söng grænlensk og íslensk jólalög.

Grænlendingar kunna vel að meta þessa gjöf, sem Reykjavíkurborg færir þeim nú í annað sinn. Nú gnæfir jólatréð yfir aðaltorgi bæjarins, Arsiffik-torginu, en í fyrra var það í úthverfi. Stefnt er að því að festa í sessi jólatrjáahefð. fyrirmyndin er Oslóartréð sem á sér orðið áratuga langa sögu í Reykjavík.

Í kveðjunni frá Reykvíkingum var vakin athygl í því, að nú væri Oslóartréð íslenskt, sem væri vitnisburður um að Reykjavík væri orðin sjálfbær í jólatrjáarækt. Þó væri það enn kallað Oslóartréð til að viðhalda hefðinni og minna á þá vináttu sem Norðmenn hefðu sýnt með gjöfinni í áranna rás.

Eimskip tók að sér flutning trésins til Nuuk og Air Iceland Connect færði börnunum gjafir, sælgætispoka og endurskinsmerki, í lok athafnarinnar á Arsiffik-torginu.

22.06.2017

Air Iceland Connect leggur til eina milljón í landssöfnun vegna hamfaranna á Grænlandi.

Air Iceland Connect lagði 1 milljón króna í landssöfnunina ,,Vinátta í verki" sem Hjálparstarf kirkjunnar, í samvinnu við Kalak og Hrókinn, efndi til vegna hamfaranna á Grænlandi um síðustu helgi. Fjórir fórust þegar flóðbylgja sópaði þorpinu Nuugaatsiaq á haf út, og tvö önnur þorp voru rýmd. Þjóðarsorg er á Grænlandi.

 

Hrafn Jökulsson, talsmaður Vináttu í verki, sagði mikilvægt að senda Grænlendingum sterk skilaboð: ,,Grænlenska þjóðin er í áfalli og við Íslendingar eigum að bregðast tafarlaust við og láta okkar góðu granna og vini vita, að þeir standa ekki einir. Við erum mjög þakklát Air Iceland Connect fyrir rausnarskapinn, og vonum að það verði öðrum íslenskum fyrirtækjum hvatning til að sýna rausn."

 

Á fyrstu tveimur sólarhringunum söfnuðust tæpar 7 milljónir og var framlag Air Iceland Connect hið hæsta sem borist hafði. Hrafn segir að söfnunin sé rétt að hefjast, markmiðið sé að gera a.m.k. jafn vel og ríkisstjórn Íslands sem samþykkti að veita 40 millj. kr. til Grænlands vegna hamfaranna.

 

Air Iceland Connect hvetur Íslendinga til að taka höndum saman um þjóðargjöf til Grænlendinga. Reikningsnúmer landssöfnunarinnar er 0334-26-056200, kennitala 450670-0499.  Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til kr. 2.500.

24.05.2017

FLUGFÉLAG ÍSLANDS VERÐUR AIR ICELAND CONNECT

Flugfélag Íslands mun frá og með deginum í dag taka upp nýtt nafn; Air Iceland Connect. Ástæður fyrir nafnbreytingunni eru nokkrar og má þar nefna aukin umsvif á erlendum mörkuðum, umtalsverða fjölgun erlendra ferðamanna, aukið samstarf við Icelandair og einföldun á markaðsstarfi, en tvöfalt nafnakerfi félagsins hefur þýtt talsverðan kostnaðarauka og valdið einhverjum farþegum óþægindum og orsakað misskilning.

Við höfum notað nafnið Air Iceland um árabil en með því að bæta við orðinu Connect, eða tengja, sýnum við tengingu við íslenska náttúru og áfangastaði, tengingu við okkar erlenda áfangastaði á borð við Grænland,  Skotland og Norður-Írland og aðgreinum okkur aðeins frá Icelandair. Þetta er lýsandi nafn, alþjóðlegt og við erum sannfærð um að þetta muni leiða til sterkara vörumerkis á þeim alþjóðamarkaði sem flugsamgöngur vissulega eru “ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

„Félagið hefur verið að vinna í breytingum um nokkurt skeið, endurnýjað flugflotann, aukið samstarfið við Icelandair, tekið á móti sífellt fleiri erlendum ferðamönnum og skilgreint markaðsstefnu okkar enn betur. Það er rökrétt næsta skref að leggja niður þetta tvöfalda nafnakerfi og taka upp eitt lýsandi og alþjóðlegt vörumerki,“ segir Árni.

Nafnbreytingin mun að sjálfsögðu taka einhvern tíma og mun lénið www.flugfelag.is t.a.m. verða virkt en áframsenda notandann á heimasíðu félagsins www.airicelandconnect.is.

Auk algjörrar endurnýjunar á flugflota Air Iceland Connect þar sem Fokker vélum var skipt út fyrir nýrri og betri vélar af gerðinni Bombardier Q-400 og Q-200, hefur félagið á síðustu mánuðum hafið áætlunarflug milli Akureyrar og Keflavíkur, aukið flug til Grænlands og Skotlands og frá og með 1. júní bætist við nýr áfangastaður; Belfast á Norður-Írlandi.

21.04.2017

Flugfélag Íslands selur allar Fokker 50 vélar félagsins. Ein Bombardier Q200 vél keypt til viðbótar

Flugfélag Íslands hefur skrifað undir samninga við kanadíska fyrirtækið Avmax um sölu á fjórum Fokker 50 vélum félagsins, varahreyfli og varahlutum tengdum Fokker vélunum. Með þessum samningum lýkur sögu Fokker 50 véla í eigu Flugfélags Íslands en þær hafa verið hjá félaginu frá 1992 og fyrirrennarar þeirra, Fokker 27 frá því árið 1965.  Í tengslum við þessa sölu kaupir Flugfélag Íslands eina Bombardier Q200, 37 sæta vél af Avmax en fyrir er félagið með tvær slíkar vélar í rekstri. Gert er ráð fyrir að Q200 vélin komi í rekstur félagsins um næstu áramót en afhending Fokker 50 vélanna mun fara fram á næstu vikum.

 

Í kjölfar breytinga á flugflota félagsins á síðasta ári þegar 3 Bombardier Q400  72-76 sæta vélar voru teknar í notkun urðu miklar breytingar á rekstri félagsins. Nýjum áfangastöðum hefur verið bætt við leiðakerfi félagsins, flug til Aberdeen í Skotlandi frá Keflavík hófst í mars 2016, flug til Kangerlussuaq á Grænlandi hófst í júní síðastliðnum og í febrúar á þessu ári hófst heilsársflug milli Keflavíkur og Akureyrar. Í júní næstkomandi mun síðan hefjast flug frá Keflavík til Belfast á Norður-Írlandi.

 

„Með þessum samningum er lokið þeirri endurnýjun sem lagt var upp með í flugflota félagsins og er það mjög mikilvægur áfangi í því að efla félagið til frekari vaxtar. Með því að bæta einni Bombardier Q200 vél í rekstur félagsins mun sveigjanleiki félagsins aukast og ný tækifæri skapast til að efla leiðakerfið enn frekar“ segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri félagsins.

24.02.2017

FLUG MILLI KEFLAVÍKUR OG AKUREYRAR HÓFST Í MORGUN

Beint innanlandsflug Flugfélags Íslands milli Keflavíkur og Akureyrar hófst í morgun en flogið verður allan ársins hring milli þessara áfangastaða. Er það von Flugfélagsins að þetta auðveldi íbúum á Norðurlandi að nýta sér enn frekar millilandaflug til og frá Íslandi og auðveldi að sama skapi erlendum ferðamönnum að komast beint til Norðurlands.

Við kynntum þessa hugmynd síðasta haust og viðbrögðin viðskiptavina okkar og hvatning Norðlendinga sýndu svo sannarlega að áhuginn er mikill á henni. Þetta auðveldar að sjálfsögðu dreifingu ferðamanna sem koma til landsins og að sama skapi auðveldar allt ferðalag fyrir þá sem eru að koma úr eða fara í millilandaflug,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Flogið verður allt að sex sinnum í viku yfir vetrartímann og að lágmarki tvisvar í viku yfir sumartímann og fyrst um sinn verður þessi þjónusta í boði fyrir þá sem eru á leið í eða úr millilandaflugi í Keflavík og geta því ferðast alla leið frá Akureyri til endanlegs áfangastaðar í Evrópu eða Norður Ameríku og heim aftur.

Farþegar sem fljúga frá Akureyri verða bókaðir í áframhaldandi flug með Icelandair en þeir sem fljúga með öðrum flugfélögum nálgast brottfararspjald sitt á þjónustuborði viðkomandi flugfélags í Keflavík eða með netinnritun, farsímainnritun eða sjálfsafgreiðslu. Farangur farþega er innritaður á Akureyri í áframhaldandi flug frá Keflavík.

Það var ánægjulegt að fara í þetta fyrsta flug í nótt og ég er þess fullviss að þessi flugleið á eftir að reynast vel og koma þeim fjölda farþega sem ferðast þarna á milli til góða á komandi árum,“ segir Árni.

 

Fyrsta flug frá Akureyri til Keflavíkur

Á myndinni má sjá þau Hjördísi Þórhallsdóttir flugvallarstjóra á Akureyri, Eirík Björn Björgvinsson bæjarstjóra Akureyrar og Árna Gunnarsson framkvæmdarstjóra Flugfélags Íslands.

17.02.2017

Þungarokkshátíðin Eistnaflug á Neskaupstað er handhafi Eyrarrósarinnar 2017

Eyrarrósin, sem árlega er veitt framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni var afhent við hátíðlega athöfn í Verksmiðjunni á Hjalteyri fimmtudaginn 16. febrúar. Það var tónlistarhátíðin Eistnaflug á Neskaupstað sem hlaut viðurkenninguna að þessu sinni. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar, afhenti verðlaunin.

Að Eyrarrósinni standa í sameiningu Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands og var þetta í 13. sinn sem verðlaunin voru veitt. Við upphaf athafnar í Verksmiðjunni undirrituðu Vigdís Jakobsdóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar, Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar og Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands samninga um áframhaldandi samstarf um Eyrarrósina allt til ársins 2020.

Sú hefð hefur skapast á undanförnum árum að verðlaunaafhendingin fari fram í höfuðstöðvum verðlaunahafa síðasta árs. Sami háttur var hafður á nú og því voru verðlaunin veitt í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Kammerkórinn Hymnodia undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar flutti tónlist við athöfnina sem ómaði líkt og úr öðrum heimi í hljómmiklum salarkynnum Verksmiðjunnar.

Frú Eliza Reid sem hefur nú tekið við sem verndari Eyrarrósarinnar flutti ávarp og afhenti viðurkenningarnar. Verðlaunin sem Eistnaflug hlýtur er fjárstyrkur; tvær milljónir króna, auk nýs verðlaunagrips sem hannaður er af Friðriki Steini Friðrikssyni vöruhönnuði.

Alþýðuhúsið á Siglufirði og Vesturfarasetrið á Hofsósi, sem einnig voru tilnefnd til verðlaunanna hlutu hvort um sig 500 þúsund krónu peningaverðlaun.

Dómnefnd hafði eftirfarandi um tónlistarhátíðina Eistnaflug að segja:

„Eistna­flug er orðin rótgróin og stöndug tón­list­ar­hátíð sem hald­in er í Nes­kaupstað aðra helg­ina í júlí ár hvert. Um er að ræða einu tón­lista­rhátíðina hér á landi þar sem höfuðáhersla er lögð á þung­arokk og aðrar jaðar­tón­list­ar­stefn­ur. Marg­ar af þekkt­ustu þung­arokks­sveit­um heims hafa komið fram á hátíðinni en hátíðin styður líka við bakið á ung­um og upp­renn­andi hljóm­sveit­um og hef­ur rutt veg­inn fyr­ir þó nokkrar ís­lensk­ar sveit­ir á er­lend­um út­gáfu- og tón­leika­markaði. Skipu­leggj­end­ur eru stolt­ir af góðu orðspori Eistna­flugs sem „rokk­hátíðar sem fer fram í bróðerni og sam­stöðu“.  Slagorð hátíðarinnar; ,,Það er bannað að vera fáviti” er lýsandi dæmi um þá áherslu sem lögð hefur verið á að gera útihátíð þar sem ofbeldi og slæm hegðun er einfaldlega ekki í boði, þvert á þá ímynd sem þungarokkshátíðir hafa á sér víða erlendis. Hátíðinni hefur tekist afburða vel að laða að innlenda sem erlenda ferðamenn á Neskaupstað og sýna bæinn í jákvæðu og ekki síður hressilegu ljósi. Eistnaflug er svo sannarlega framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.“

Frá afhendingu Eyrarrósarinnar 2017

Karl Óttar Pétursson og Stefán Magnússon, aðstandendur Eistnaflugs veittu verðlaununum viðtöku. Í þakkarræðu sinni sögðu þeir viðurkenningu af þessum toga vera afar mikilvæga fyrir Eistnaflug og þungarokk almennt, bæði sá heiður sem þeim væri sýndur og fjárstuðningurinn sem honum fylgdi.  

19.01.2017

Úrræði fyrir viðskiptavini vegna mögulegs verkfalls flugfreyja

Uppfært: Verkfalli hefur verið aflýst. Bendum farþegum á upplýsingar um flug undir Komur og brottfarir.

 

Vegna mögulegs verkfalls flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands á tímabilinu klukkan 06:00 þann 27. janúar til klukkan 06.00 þann 30. janúar næstkomandi, bjóðum við viðskiptavinum okkar eftirfarandi úrræði.

Hægt er að hafa samband við Flugfélag Íslands í síma 570 3000, [email protected] eða gegnum vefspjall á vef okkar flugfelag.is

Við biðjum viðskiptavini velvirðingar á öllum óþægindum og munum uppfæra fréttir reglulega.

Endurgreiðsla
Viðskiptavinir sem eiga bókað flug þá daga sem verkfall er boðað, eiga kost á fullri endurgreiðslu fyrir brottför. Viðskiptavinir sem kjósa að fá endurgreiðslu ættu að hafa samband við aðila þar sem ferð var bókuð.

Breyting á dagsetningu
Við bjóðum viðskiptavinum að flytja flugið yfir á aðra dagsetningu allt að sjö daga fram eða aftur í tímann m.v. bókaða dagsetningu. Breytingin er háð sætaframboði. Viðskiptavinur greiðir ekki þjónustu- eða breytingagjald. Viðskiptavinir ættu að hafa samband við aðila þar sem ferð var bókuð.

Breyting á brottfarar- eða áfangastað
Hægt er að breyta flugi og fljúga til/frá öðrum áfangastað í sama landi. Breyting á bókun er háð sætaframboði og ekki þarf að greiða þjónustu- eða breytingagjald. Viðskiptavinir ættu að hafa samband við aðila þar sem ferð var bókuð.

Hótelupplýsingar
Allar fyrirspurnir vegna endurgreiðslu á kostnaði ásamt öðrum athugasemdum er hægt að senda á þjónustueftirlit Flugfélags Íslands í tölvupósti til [email protected]

Flugfélag Íslands bendir viðskiptavinum einnig á aðrar tryggingar sem þeir kunna að hafa.

 

09.01.2017

Flugfélag Íslands fyrst íslenskra flugfélaga með alþjóðlega umhverfisvottun

Flugfélag Íslands hefur lokið umhverfisvottun samkvæmt alþjóðlega umhverfisstaðlinum ISO 14000, fyrst allra flugfélaga á Íslandi. Endurvinnsla hófst árið 2008 hjá Flugfélagi Íslands og síðan þá hafa verið tekin fleiri skref í sömu átt, til dæmis með því að draga úr notkun vatns, eyðslu orku og útblæstri.

„Flugfélag Íslands hefur ávallt lagt mikið upp úr umhverfismálum og litið á það sem hluta af eðlilegri starfsemi fyrirtækisins. Það er ekki eingöngu ábyrgt að lágmarka umhverfisáhrif fyrirtækisins heldur stuðlar það að betri rekstri og bættri afkomu ef rétt er að málum staðið. Við erum stolt af því að vera fyrsta íslenska flugfélagið til að fá þessa alþjóðlegu vottun og er það í samræmi við stefnu félagsins að vera í fararbroddi í þessum málaflokki.“, segir Árni Gunnarsson framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands.

Úttektaraðili frá danska fyrirtækinu DNV GL hefur staðfest þessa alþjóðlegu umhverfisvottun fyrir Flugfélag Íslands. Með vottuninni sýnir fyrirtækið ábyrgð á því að minnka skaðleg áhrif fyrirtækisins með því að nota auðlindir skynsamlega og farga úrgangi á ábyrgan hátt. Þannig lágmarkast áhrifin á umhverfið að eins miklu leyti og því verður við komið.
Umhverfisvottun Flugfélags Íslands er liður í stefnu Icelandair Group samstæðunnar og er tilgangurinn að minnka sem mest áhrif starfseminnar á umhverfið og náttúruna, sem spila stóran þátt í hlutverki fyrirtækjanna.

Alþjóðleg umhverfisvottun

Á myndinni eru: Árni Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands, Christian Hvingel úttektarstjóri hjá DNV GL í Danmörku og Sharon Kerr gæða- og öryggisstjóri Flugfélags Íslands

09.12.2016

Auglýst eftir framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni

EyrarrósinByggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík hafa allt frá árinu 2005 staðið sameiginlega að Eyrarrósinni; viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Markmið viðurkenningarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir fyrir Eyrarrósina 2017. Umsækjendur geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð utan höfuðborgarsvæðisins.

Af umsækjendum verða sex verkefni valin á Eyrarrósarlistann og af þeim hljóta þrjú verkefni tilnefningu til sjálfrar Eyrarrósarinnar. Eitt þeirra hlýtur Eyrarrósina 2017, en henni fylgja 2.000.000 kr. peningaverðlaun. Öðrum tilnefningum fylgja einnig peningaverðlaun.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 15. janúar 2017. Öllum umsóknum verður svarað. Umsóknir skal senda rafrænt til Listahátíðar í Reykjavík á netfangið eyrarros hja artfest.is

Nánari upplýsingar fyrir umsækjendur, þar með talinn listi yfir nauðsynleg fylgigögn umsókna má nálgast á heimasíðu Listahátíðar: www.listahatid.is/eyrarrosin

Nýr verndari
Eliza Reid forsetafrú hefur tekið við hlutverki verndara Eyrarrósarinnar af Dorrit Moussaieff

fyrrverandi forsetafrú. Dorrit eru færðar bestu þakkir fyrir auðsýndan hlýhug og stuðning í gegnum árin, sem hefur skipt afar miklu máli fyrir verkefnið.  Eliza mun afhenda Eyrarrósina 2017 við hátíðlega athöfn í Verksmiðjunni á Hjalteyri í febrúar næstkomandi.

01.12.2016

Iceland Airwaves á Akureyri 2017

Að venju mun hátíðin fara fram á 13 tónleikastöðum í miðbæ Reykjavíkur og bætist nú Akureyri við sem er okkur mikið ánægjuefni. Stefnt er að því að nota tvo til þrjá tónleikastaði á Akureyri og að fram komi á bilinu 20 til 26 innlend og erlend tónlistaratriði. Jafnframt verða utandagskrártónleikar í bænum (off-venue) á völdum stöðum.

Icelandair, stofnaðili hátíðarinnar, í samstarfi við Flugfélag Íslands mun bjóða upp á ferðapakka fyrir erlenda gesti sem geta þannig byrjað dvöl sína á Akureyri og endað í Reykjavík. Flogið verður beint frá Keflavík til Akureyrar. Einnig munu verða í boði ferðapakkar fyrir innlenda gesti. Almenn miðasala hefst miðvikudaginn 1. febrúar og verður boðið upp á þrjár gerðir af miðum: 
1) Almennur miði – eitt armband sem gildir á alla viðburði hátíðarinnar. 
2) Akureyrarmiði – eitt armband sem gildir á alla viðburði hátíðarinnar á Akureyri. 
3) Akureyri plús viðbót – eitt armband sem gildir á alla viðburði hátíðarinnar á Akureyri og alla viðburði hátíðarinnar í Reykjavík dagana 4. og 5. nóvember.

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin verður haldin í 19. skipti dagana 1. til 5. nóvember 2017. Auk Icelandair eru Flugfélag Íslands og Icelandair Hotels helstu styrktaraðilar Iceland Airwaves á Akureyri. 

Frá blaðamannafundi á Græna hattinum

04.10.2016

Flugfélag Íslands hefur beint flug milli Keflavíkur og Akureyrar allan ársins hring

Flugfélag Íslands hefur beint innanlandsflug milli Keflavíkur og Akureyrar í febrúar 2017 í tengslum við millilandaflug í Keflavík.  Flogið verður allan ársins hring milli Keflavíkur og Akureyrar, en auk þess hagræðis sem þetta hefur í för með sér fyrir íbúa á Norðurlandi sem vilja nýta sér millilandaflug, er gert ráð fyrir að þetta verði til þess að fjölga enn frekar ferðamönnum á landsbyggðinni.

 Við höfum verið að skoða þennan möguleika um nokkurt skeið og það er alveg ljóst að þetta auðveldar ferðamönnum enn frekar að ferðast áfram innanlands. Þá hefur hvatning Norðlendinga haft sitt að segja, enda mun þessi nýja flugleið stytta ferðatímann allverulega þegar farið er í utanlandsferðir,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

 Flogið verður sex sinnum í viku milli Akureyrar og Keflavíkur yfir vetrartímann og þrisvar sinnum í viku yfir sumartímann.

 Hin mikla fjölgun ferðamanna til Íslands hefur aukið álagið á vinsælum ferðamannastöðum á suðvesturhorni landsins. Að fullnýta tækifærin á landsbyggðinni er eitt af höfuðverkefnunum sem íslensk ferðaþjónusta stendur frammi fyrir. Þessi nýja flugáætlun á heilsársgrunni mun styðja verulega við þá áskorun. Markmiðið er að þetta  flug tengi við sem flest millilandaflug til og frá Keflavík,“ segir Árni.

 Á þessu stigi verður þetta flug eingöngu í boði fyrir farþega sem eru á leið í eða úr millilandaflugi í Keflavík og geta farþegar sem nýta sér þessa þjónustu ferðast alla leið frá Akureyri til endanlegs áfangastaðar í Evrópu eða Norður Ameríku.  

 Fyrsta flug milli Keflavíkur og Akureyrar verður þann 24. febrúar 2017.

  

Um Flugfélag Íslands

Flugfélag Íslands flýgur frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar og Egilsstaða innanlands, ásamt því að fljúga til Kulusuk, Narsarsuaq, Nuuk, Kangerlussuaq og Ilulissat á Grænlandi.  Auk þess býður Flugfélag Íslands flug til Færeyja og Aberdeen í Skotlandi.  Flogið er til Aberdeen, Kangerlussuaq og Narsarsuaq frá Keflavíkurflugvelli, og frá og með febrúar 2017 verður einnig flogið beint til Akureyrar frá Keflavík. Frekari upplýsingar um Flugfélag Íslands má finna á www.flugfelag.is eða í síma 5703030.  

04.05.2016

Tilkynnt um nöfn á Bombardier flugvélum

Bombardier flugvélar Flugfélags Íslands munu skarta nöfnum þekktra kvenskörunga frá fyrstu árum Íslandsbyggðar. Þetta var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Reykjavíkurflugvelli í dag þegar nafn fyrstu flugvélarinnar var afhjúpað.

Efnt var til nafnasamkeppni meðal almennings í tilefni af komu flugvélanna hingað til lands og bárust tæplega 6.000 tillögur. Sérstök dómnefnd var skipuð til að fara yfir tillögurnar og eftir mikla yfirlegu og vangaveltur var ákveðið að verðlauna tillögu um að nefna fyrstu fimm vélarnar eftir þekktum kvenskörungum frá fyrstu árum Íslandsbyggðar.

„Þátttakan fór fram úr björtustu vonum okkar og ég er sannfærður um að verðlaunatillagan á eftir að falla vel í kramið bæði hjá Íslendingum sem og erlendum ferðamönnum. Vinningshafinn fær að launum flug fyrir tvo til Ilulissat á Grænlandi ásamt gistingu í tvær nætur og er andvirði ferðarinnar hátt í 250.000 krónur,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Það var Ólafía Þ. Stefánsdóttir sem sendi inn tillöguna sem varð fyrir valinu. Ólafía býr á Seyðisfirði, og flaug í boði Flugfélagsins til Reykjavíkur.

Ólafía Þ. Stefánsdóttir og Árni Gunnarsson

Á myndinni má sjá Ólafíu ásamt Árna Gunnarssyni framkvæmdarstjóra, mynd: Árni Sæberg.

Við hátíðlega athöfn á Reykjavíkurflugvelli var nafn fyrstu vélarinnar svo afhjúpað, en það er Auður djúpúðga, líklega frægasta landnámskonan, sem þótti afbragð annarra kvenna, útsjónarsöm og djúpvitur. Hin fjögur nöfnin sem aðrar flugvélar Flugfélags Íslands munu skarta eru Arndís auðga, sem nam land í Hrútafirði, Hallgerður langbrók, frægasta kvenhetja Íslandssögunnar, Þuríður sundafyllir sem nam land í Bolungarvík og Þórunn hyrna, sem nam land í Eyjafirði ásamt manni sínum Helga magra.

„Tvær af þremur Q-400 flugvélum okkar eru nú komnar til landsins og í reglulegt áætlunarflug og sú þriðja er væntanlega í lok mánaðarins. Þessar vélar gefa okkur aukið svigrúm að bregðast við eftirspurn á álagstímum en við leggjum á það höfuðáherslu að farþegar upplifi meiri þægindi með þeim og fyrstu viðbrögð farþega síðustu vikur hafa svo sannarlega sýnt að þeir kunna að meta þægilegri innréttingar, meira pláss, að þær séu hljóðlátari og svo má ekki gleyma að um borð eru tveir flugþjónar svo þjónustan er meiri en áður.“

 

24.02.2016

Fyrsta Bombardier Q-400 flugvélin komin heim - Leysir Fokker af hólmi

Tímamót urðu í innanlandsflugi í dag þegar Flugfélag Íslands tók á móti fyrstu Bombardier Q-400 flugvélinni en með komu þessarar flugvélar er formlega hafin endurnýjun á flugflota Flugfélagsins. Alls verða Q-400 flugvélarnar þrjár og munu þær leysa Fokker flugvélarnar af hólmi, en Fokker hætti framleiðslu á flugvélum fyrir 20 árum. Eftir mikla og ítarlega skoðun var niðurstaða Flugfélagsins að bestu flugvélarnar til að taka við af Fokker í innanlandsflugi væru Bombardier vélarnar, en félagið hefur verið með tvær Q-200 vélar fyrirtækisins í notkun í um áratug.

„Þetta er fyrsta af þremur Q-400 flugvélum sem Flugfélag Íslands tekur í notkun og við áætlum að vera komin með allar þrjár flugvélarnar í fullan rekstur í vor og þar með lýkur 50 ára sögu Fokker hér á landi. Við erum mjög spennt fyrir nýju flugvélunum enda skapast nú allt önnur þægindi fyrir flugfarþega okkar, enda Q-400 bæði stærri, rýmri, nýrri og þægilegri en Fokker vélarnar,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Q-400 flugvélarnar taka allt að 76 farþega og þær eru hljóðlátari og gefa frá sér mun minni útblástur en Fokker flugvélarnar.

„Stærri vélar gefa okkur aukið svigrúm að bregðast við eftirspurn á álagstímum en við leggjum á það höfuðáherslu að farþegar upplifi meiri þægindi með nýrri vélum sem útbúnar eru með þægilegum innréttingum, meira plássi, hljóðlátari og svo má ekki gleyma að um borð verða tveir flugþjónar svo þjónustan verður meiri en áður.“

Smávægilegar breytingar verða gerðar á nokkrum flugleiðum þannig að á álagstímum, á ákveðnum dögum vikunnar og á ákveðnum tímabilum ársins verður sætaframboð mun meira en áður. Aldrei verður flogið sjaldnar en fjórum sinnum á dag til Akureyrar á virkum dögum og þrisvar á Egilsstaði. Og með tilkomu nýju flugvélanna bætast við nýir möguleikar.

„Q-400 flugvélarnar eru hraðfleygari en Fokker og því getum við nú flogið á áfangastaði sem eru lengra í burtu. Þannig verður nú bætt við flugi til Aberdeen í Skotlandi í samstarfi við Icelandair sem og að nýr áfangastaður á Grænlandi, Kangerlussuaq, bætist við og verður þannig fimmti áfangastaður félagsins þar,“ segir Árni.

TF-FXI á lágflugi yfir Reykjavíkurflugvelli í dag. Mynd: Árni Sæberg

06.02.2016

Árni Gunnarsson í Föstudagsþættinum á N4

Árni Gunnarsson framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands var gestur Föstudagsþáttarins á sjónvarpsstöðinni N4. Þarna fjallar Árni um þær breytingar sem framundan eru í rekstri Flugfélagsins með tilkomu Bombardier Q400 vélanna:

28.01.2016

Tæplega 6000 tillögur bárust í nafnasamkeppni

Í tilefni af komu þriggja Bombardier Q400 flugvéla í flugflota Flugfélags Íslands, var ákveðið að efna til nafnasamkeppni meðal almennings og nefna þannig allar vélar félagsins.  Þátttakan í samkeppninni fór fram úr öllum væntingum og alls bárust tæplega 6000 tillögur, fjölmargar afar glæsilegar og nokkrar þó nokkuð sérkennilegar. 

„Við erum að sjálfsögðu í skýjunum yfir þessari frábæru þátttöku, og okkar býður mikið verk að velja bestu nöfnin.  Áhuginn endurspeglar líka áhuga fólks á málinu sem við skynjuðum strax í upphafi. Við ætlum okkur að nefna allar þær fimm flugvélar sem verða í flugflota Flugfélagsins þegar þessar nýju verða komnar heim”, segir Ingi Þór Guðmundsson forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands

Meðal sérkennilegra tillagna að nöfnum á nýjar flugvélar Flugfélags Íslands, má nefna tillögu sem barst um að hver og ein vél yrði nefnd eftir einni Kardashian systur, sem og aðra sem lagði til gælunöfn á borð við Kidda Vídeóflugu, Icehot og svo mætti áfram telja. 

Verðlaunin fyrir bestu nöfnin er heldur ekki af verri endanum, því vinningshafinn fær flug fyrir tvo til Ilulissat á Grænlandi ásamt gistingu í tvær nætur.  Andvirði ferðarinnar er hátt í kr. 250.000.

Tilkynnt verður um vinningshafa og nöfnin á vélunum síðari hluta febrúar mánaðar.

13.01.2016

Og hvað á flugvélin að heita?

Í tilefni af komu þriggja Bombardier Q400 flugvéla í flugflota Flugfélags Íslands á næstu mánuðum hefur verið ákveðið af gefa öllum vélum félagsins nafn. Í dag var sett af stað nafnasamkeppni á Facebook síðu Flugfélags Íslands.

Allir landsmenn eru hvattir til að taka þátt. Hægt er að senda inn fleiri en eina tillögu.

Verðlaunin eru ferð til Ilulissat á Grænlandi ásamt gistingu í tvær nætur.

Kynnið ykkur leikinn og reglurnar með því að smella hér.

Nafnasamkeppni á Facebook

29.12.2015

Flugfloti Flugfélags Íslands fær nýtt útlit

Í byrjun árs 2016 mun Flugfélag Íslands halda áfram endurnýjun flugflota síns þegar þrjár nýjar Bombardier Q400 flugvélar leysa af hólmi síðustu Fokker 50 flugvélar félagsins. Framleiðslu Fokker vélanna lauk fyrir 20 árum og urðu Bombardier Q400 flugvélarnar fyrir valinu sem verðugir arftakar þeirra.

Í tilefni þessara tímamóta fær flugfloti Flugfélags Íslands nýtt útlit, en mikil vinna fór í hönnun og val á því. Starfsfólk Flugfélags Íslands lagði hönd á plóg og valdi úr fjölmörgum góðum tillögum um útlit sem Flugfélagi Íslands bárust með viðamikilli atkvæðagreiðslu. Niðurstaðan var afgerandi og sést nýtt útlit á meðfylgjandi myndum.

Nú um miðjan janúar fer fyrsta Bombardier Q400 flugvélin í málningu í Bretlandi en vélin er svo væntanleg til Íslands í febrúar 2016. Bombardier Q400 flugvélar Flugfélags Íslands eru hljóðlátari, sparneytnari og taka fleiri farþega en Fokker vélarnar. Alltaf er gert ráð fyrir að lágmarki 4 ferðum milli Reykjavíkur og Akureyrar, en suma daga vikunnar og á ákveðnum tímabilum ársins verður sætaframboð enn meira en nú er á flestum áfangastöðum. Þá verða að lágmarki 3 ferðir daglega milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Á álagstímum verður þess jafnframt gætt að auka sætaframboð.

Mikil tilhlökkun er hjá starfsfólki Flugfélags Íslands að kynna nýjar flugvélar með nýju útliti en nýr flugfloti verður nánar kynntur í ársbyrjun 2016.

Bombardier Q400 nýtt útlit flugflota Flugfélags Íslands

23.12.2015

Þúsundir farþega í háloftunum innanlands um jól og áramót

Sem fyrr nýta margir sér innanlandsflugið til að komast sem fyrst á milli staða um jól og áramót.  Flugfélag Íslands flýgur þúsundum farþega til sinna áfangastaða og munu hátt í  5000 farþegar nýta sér innanlandsflugið um hátíðarnar.  Aukningin á flutningi farþega um jól og áramót er 5% milli ára.  Vegna þessa hafa fleiri aukaferðir verið settar upp í áætlun félagsins heldur en á sama tíma á síðasta ári.  Flestir farþeganna eru á leiðinni til Akureyrar en einnig töluvert til Ísafjarðar og Egilsstaða. 

Í ár sem undanfarin ár hefur Flugfélagið boðið öllum farþegum sem fljúga um hátíðarnar upp á piparkökur og kaffi, og í gær og í dag flugu jólasveinar á alla áfangastaði og glöddu börnin með pökkum og skemmtilegheitum.

Fólk hefur nýtt sér flugfraktina og hafa jólapakkar flogið milli landshluta enda liggur oft mikið við þegar jólapakkar þurfa að komast á réttan stað.  

16.12.2015

Eyrarrósin 2016 auglýsir eftir umsóknum

Opnað hefur verið fyrir umsóknir til Eyrarrósarinnar 2016 en Flugfélag Íslands er styrktaraðili viðurkenningarinnar. Markmiðið er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Umsóknarfrestur er til miðnættis 5. janúar 2016. 


Nánari upplýsingar má finna á vefsvæði Eyrarrósarinnar hér

14.12.2015

Fokker vél seld vegna breytinga á flugflota Flugfélags Íslands

Flugfélag Íslands vinnur nú að breytingu á flugflota félagsins en í byrjun næsta árs verður fyrsta Bombardier Q400 flugvél félagsins tekin í notkun. Breytingunum verður lokið á fyrri hluta árs 2016 og lýkur þá 50 ára sögu Fokker flugvéla hjá Flugfélagi Íslands, en Fokker hætti framleiðslu á flugvélum sínum fyrir nokkrum árum. Þær Fokker flugvélar sem Flugfélag Íslands hefur haft í rekstri undanfarin ár verða á næstunni seldar og hefur nú verið gengið frá sölu á einni Fokker 50 vél til Compagnie Africaine d‘Aviation. Afhending vélarinnar hefur farið fram en Flugfélag Íslands aðstoðaði kaupendur með að ferja vélina til Ítalíu. Eftir í flota Flugfélags Íslands eru þá fjórar Fokker 50 sem gert er ráð fyrir að nota þar til Bombardier vélarnar verða komnar í flotann í byrjun næsta árs.

TF-JMM Fokker 50

TF-JMM við brottför frá Reykjavíkurflugvelli í morgun

03.11.2015

Samgöngumál í brennidepli á kaupstefnu á Grænlandi

Fulltrúar íslenskra fyrirtækja sóttu kaupstefnu í Nuuk á Grænlandi dagana 26. og 27. október sl. Tilgangur ferðarinnar var að auka viðskiptatengsl milli landanna, en einnig að kynna íslenskar vörur fyrir grænlenskum almenningi. Þetta er fimmta árið í röð sem viðburðurinn fer fram.

Í dagskrá kaupstefnunnar kenndi ýmissa grasa. Fyrirtækin funduðu með grænlenskum samstarfsaðilum og boðið var upp á kynningar um samstarfsmöguleika landanna. Þannig kynnti Vittus Qujaukitsoq ráðherra utanríkis-, viðskipta og auðlindamála yfirgripsmiklar fyrirætlanir um að gera ferðaþjónustu einn af hornsteinum efnahagslífs á Grænlandi á fundi með hópnum á fimmtudag. Féll það efni vel að hádegisfundi sem haldinn var á föstudag þar sem samgöngumál voru í brennidepli og mörg áhugaverð erindi flutt.

Íslensku aðilarnir sem tóku þátt í ár voru tólf talsins, auk Íslandsstofu. Það voru Áltak, Hafnarfjarðarhöfn, Hampiðjan, Icelandair Cargo, MSC, MS, Rauði kross Íslands, Samhentir, Sláturfélag Suðurlands, Verkís og Vörumerking.

Að kaupstefnunni stóðu Íslandsstofa, ræðisskrifstofa Íslands í Nuuk, Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið og Flugfélag Íslands.

Ráðstefna í Nuuk

Frá vinstri Pétur Ásgeirsson ræðismaður, Ulla Lynge framkvæmdastjóri Sermersoq business council, Árni Gunnarsson formaður GLÍS,  Anders Stenbakken framkvæmdastjóri Visit Greenland, Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, Mikael  Højgard forstjóri Air Greenland og Gunnar Már Sigurfinnsson forstjóri Icelandair Cargo.

 

25.10.2015

Samstarf við Rauða krossinn

Grænlenska dagblaðið Sermitsiaq sagði frá samkomulagi Rauða krossins við Flugfélag Íslands. Samkvæmt því lætur Flugfélag Íslands Rauða krossinum í té fimmtán ferðir á milli Íslands og Grænlands á næstu 14 mánuðum. Tilgangurinn er að liðka fyrir samskiptum milli Rauða kross félaganna tveggja. Fulltrúar Rauða kross félaganna mótuðu á fundum sínum samstarf til þriggja ára, sem beinist einkum að verkefnum til stuðnings ungu fólki á Grænlandi.

Frá undirskrift samningsins við Rauða krossinn í Nuuk fyrir helgi

Á myndinni má sjá, Svein Kristinsson sem er formaður Rauða krossins á Íslandi, Árna Gunnarsson framkvæmdarstjóra Flugfélags Íslands, Kristínu S. Hjálmtýsdóttur stjórnarformaður frá Rauða krossinum í Reykjavik ásamt formanni stjórnar Rauða krossins í Grænlandi, Tove Blidorf.

20.09.2015

Nýr áfangastaður – Kangerlussuaq

Flugfélag Íslands mun hefja áætlunarflug til Kangerlussuaq á Grænlandi í júní 2016. Kangerlussuaq, sem er á vesturströnd Grænlands, verður þá fimmti áfangastaður félagsins en það flýgur einnig til Kulusuk, Nuuk, Narsarsuaq og Ilulissat.

Á næstu mánuðum mun Flugfélag Íslands taka í notkun þrjár Bombardier Q400 flugvélar, og munu þær verða notaðar í flugið til Kangerlussuaq. Flogið verður til og frá Keflavík tvo daga í viku frá júní til loka ágúst og verða tímasetningar þannig að góðar tengingar verða við annað millilandaflug til og frá Keflavík.


“Frá því að við fyrst keyptum Bombardier vélar árið 2006 höfum við markvisst verið að fjölga áfangastöðum og bæta við tíðni ferða til Grænlands. Í Kangerlussuaq er vaxandi ferðaþjónusta og fellur því flug þangað vel að okkar stefnu að taka þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu á Grænlandi” segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.


Náttúran í Kangerlussuaq er magnþrungin, landslagið margbrotið, há og glæsileg fjöll og gott aðgengi er að hinum stórbrotna Grænlandsjökli. Kangerlussuaq verður frábær viðbót við áfangastaði Flugfélags Íslands enda er Grænland mjög vinsæll áfangastaður, sér í lagi hjá erlendum ferðamönnum.

31.08.2015

Flugfélagshátíð Hróksins í Kulusuk: Með gleði og vináttu að leiðarljósi

Hrókurinn efnir til Flugfélagshátíðar í Kulusuk dagana 31. ágúst til 2. september. Þetta er fimmti leiðangur Hróksins til Grænlands á þessu ári, og önnur hátíðin á árinu sem efnt er til í Kulusuk, sem er næsti nágrannabær Íslendinga. Yfirskrift hátíðarinnar er: Með gleði og vináttu að leiðarljósi.

Á hátíðinni hefst dreifing á 300 taflsettum sem Flugfélag Íslands leggur Hróknum til í gjafir handa börnum og ungmennum á Grænlandi og 100 til viðbótar sem einstaklingar gefa. Þar með hefur FÍ lagt til 600 taflsett í skáklandnámið, en alls hefur Hrókurinn dreift vel yfir 2000 skáksettum á Grænlandi. Hróksmenn færðu í vikunni FÍ örlítinn þakklætisvott fyrir órofa stuðning og frábæra samvinnu síðan ævintýrið á Grænlandi hófst árið 2003.

Íbúar í Kulusuk eru um 270 og miðpunktur hátíðarinnar verður í barnaskóla þorpsins. Liðsmenn Hróksins munu kenna skák, efna til fjöltefla og halda meistaramót skólans. Leikskólinn í þorpinu verður líka heimsóttur og börnin þar fá gjafir frá Íslandi. Þá verður haldin sýning á myndum sem stúlkur í 1. bekk Barnaskólans í Reykjavík gerðu af þessu tilefni og samhliða efnt til myndlistarkeppni meðal barnanna í Kulusuk. Í tengslum við hátíðina munu listamenn í Kulusuk svo slá upp stórtónleikum fyrir gesti og heimamenn.

Leiðangursmenn Hróksins eru Róbert Lagerman, Hrafn Jökulsson og Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir. Aðalbakhjarl hátíðarinnar er Flugfélag Íslands, sem stutt hefur skáklandnám Hróksins á Grænlandi frá upphafi, árið 2003. Fjölmörg fyrirtæki gefa vinninga, verðlaun og gjafir: FÍ, Nói Síríus, HENSON, Ísspor, Kjarnafæði, Hjallastefnan, Veitingahúsið Einar Ben og Penninn, og eiga öll börn í Kulusuk von á glaðningi á Flugfélagshátíð Hróksins í Kulusuk 2015.

Hrókurinn þakkar öllum sem lagt hafa lið við undirbúning hátíðarinnar. Hægt verður að fylgjast með á Facebook-síðu Hróksins og heimasíðu félagsins, hrokurinn.is.

Árni Gunnarsson framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands, Hrafn Jökulsson forseti Hróksins og Gróa Ásgeirsdóttir verkefnastjóri Flugfélags Íslands.
Flugfélag Íslands hefur verið aðalbakhjarl skáklandnámsins á Grænlandi frá upphafi árið 2003.

18.08.2015

Samstarf með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Samstarf er hafið á milli Flugfélags Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands en í því felst að meðlimir hljómsveitarinnar munu fljúga á alla áfangastaði þar sem haldnir eru tónleikar undir yfirskriftinni „Landshorna á milli“ 

Um verkefnið:
„Sinfóníuhljómsveitin gegnir mikilvægu starfi sem hljómsveit allra landsmanna og því er það fagnaðarefni að hún haldi nú í ferð landshorna á milli. Það er Flugfélag Íslands sem ljær hljómsveitinni vængi á ferðalaginu. Í för með  Sinfóníuhljómsveitinni verður músin knáa Maxímús Músíkús en sívinsælt ævintýrið um Maxa og hljómsveitina verður á dagskrá á skólatónleikum Sinfóníunnar í
ferðinni. Í þessari fjörugu sögu eru yngstu hlustendurnir leiddir inn í töfraheim klassískrar tónlistar þar sem hljóðfæri hljómsveitarinnar eru kynnt til leiks eitt af öðru. Ævintýrin fjögur um Maxa hafa notið fádæma vinsælda hér heima fyrir og erlendis en bækurnar um músina hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál. Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og Þórarinn Már Baldursson víóluleikari, höfundar ævintýranna um Maxímús Músíkús, eru bæði fastráðnir hljóðfæraleikarar við
Sinfóníuhljómsveit Íslands.“

Tónleikarnir verða:
Mán. 26. okt. » 20:00 – Ísafjörður Íþróttahúsið Torfnesi
Þri. 27. okt. » 18:00 – Akureyri Menningarhúsið Hof
Fim. 29. okt » 18:00 – Egilsstaðir

Dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir veturinn má finna hér


10.07.2015

Samningar undirritaðir

Flugfélag Íslands hefur undirritað samning um kaup á þremur Bombardier Q400 vélum. Eins og tilkynnt var í mars síðastliðnum hefur verið ákveðið að hætta rekstri Fokker 50 véla og taka í staðinn Q400 vélar en áfram verða tvær Q200 vélar í rekstri félagsins.

Afhending vélanna, sem eru af árgerð 2000 og 2001 fer fram á næstu mánuðum en gert er ráð fyrir að þær verði komnar í rekstur Flugfélags Íslands um eða uppúr næstu áramótum. Með undirritun þessa kaupsamnings er stórt skref tekið í breytingu á rekstri Flugfélags Íslands en samhliða þessum kaupum fer fram umfangsmikil þjálfun áhafna, flugvirkja og starfsfólks í farþegaþjónustu á þessa nýju tegund. Heildarfjárfesting Flugfélags Íslands í tengslum við þessa breytingu er rúmlega 3 milljarðar króna.

08.07.2015

Íslandsdagar í Nuuk

Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið skipuleggur kaupstefnu í Nuuk á Grænlandi í samstarfi við ræðisskrifstofu Íslands í Nuuk, Íslandsstofu og Flugfélag Íslands, dagana 22.- 24. október nk. Þar gefst íslenskum fyrirtækjum kostur á að bóka fundi með grænlenskum fyrirtækjum og taka þátt í sýningu í menningarhúsinu Katuaq.

Markmið kaupstefnunar er að auka viðskiptatengsl milli landanna og kynna það vöru- og þjónustuframboð sem íslensk fyrirtæki hafa upp á að bjóða fyrir grænlenskum almenningi. Þetta er einstakt tækifæri til að hitta heimamenn og stofna til viðskiptasambanda fyrir þá sem hafa áhuga á grænlenska markaðnum.

Áhugasamir eru beðnir að taka frá dagana en nánari dagskrá verður kynnt fljótlega.

Nánari upplýsingar veita:
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, kristin(hjá)chamber.is
Þorleifur Þór Jónsson thorleifur(hjá)islandsstofa.is

 

19.06.2015

Flugfélag Íslands gefur rósir í tilefni 100 ára kosningaafmælisins

Í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna þann 19.júní mun Flugfélag Íslands gefa öllum konum rósir, sem ferðast með félaginu þann dag.    Með afhendingu rósanna vill Flugfélag Íslands óska konum á Íslandi til hamingju með daginn og með þessi merkilegu tímamót.

28.05.2015

Frábær Flugfélagshátíð Hróksins í Nuuk

Skákfélagið Hrókurinn stóð fyrir Flugfélagshátíðinni í Nuuk 19.-26. maí og er óhætt að segja að gleðin og vináttan hafi verið í aðalhlutverkum. Hróksmenn lögðu undir sig verslunarmiðstöð höfuðborgarinnar, Nuuk Center, þar sem efnt var til fjöltefla og skákmóta. Hápunkturinn var Flugfélagsmótið 2015, þar sem Ral Fleischer fór með sigur af hólmi.
 
Liðsmenn Hróksins heimsóttu líka athvarf fyrir fólk með geðraskanir, heimili fyrir börn sem ekki geta dvalið hjá foreldrum sínum, grunnskóla og fleiri staði, og komu hvarvetna færandi hendi með gjafir og glaðning frá Íslandi.
 
Í föruneyti Hróksins voru m.a. Margrét Pála Ólafsdóttir og Omar Salama frá Hjallastefnunni en Omar, sem er leikskólakennari og meðal sterkustu skákmanna landsins, hlaut á dögunum samfélagsverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir skákkennslu ungra barna.
 
Hrókurinn hefur á þessu ári efnt til hátíða í fjórum þorpum og bæjum á Grænlandi: Kulusuk, Tasiilaq, Ittoqqortoormiit og Nuuk. Framundan eru ferðir til Ilulissat og í haust verða vinir á austurströndinni aftur heimsóttir.
 
Hrókurinn og Flugfélag Íslands hafa átt frábært samstarf við útbreiðslu skáklistarinnar á Grænlandi síðan fyrsta mótið í sögu Grænlands var haldið í Qaqortoq 2003. Markmið Hróksins er ekki bara að kynna skákina, heldur að stuðla að auknum samskiptum grannþjóðanna á sem flestum sviðum.

20.05.2015

Fokker í 50 ár á Íslandi

Um þessar mundir eru 50 ár síðan fyrsta Fokker flugvélin kom til landsins. Af því tilefni bauð Flugfélag Íslands til veislu sl. miðvikudag í flugskýli 4 á Reykjavíkurflugvelli. Þar komu saman starfsfólk Flugfélagsins til margra ára, áhafnir sem flugu fyrstu Fokker vélunum og fleiri sem unnu til dæmis á Reykjavíkurflugvelli árið 1965 þegar fyrsti Fokkerinn kom.

Forstjóri Fokker Services í Hollandi, Peter Somers, var með ávarp ásamt Árna Gunnarssyni framkvæmdarstjóra Flugfélags Íslands, Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins og Aðalsteini Dalmann en hann var einn af þeim sem störfuðu á Reykjavíkurflugvelli um miðjan maí 1965 þegar fyrsti Fokker lenti þar. 

Karlakórinn Esja tók nokkur vel valin lög, en það var einmitt karlakór sem tók á móti fyrsta Fokkernum í maí 1965. Matseðillinn sem var í boði var grunninn sá sami og var í boði um borð í Fokker50 vélunum þegar þær komu til landsins árið 1992.

Auk þessa var fagnað þeirri ákvörðun Flugfélagsins að taka í notkun Bombardier vélar síðar á þessu ári.

Árni Gunnarsson og Peter Somers

Árni Gunnarsson tók við fagurlega skreyttum diski frá Peter Somers til merkis um gott samstarf síðastliðin 50 ár.

16.03.2015

Flugfélag Íslands tekur í rekstur Q400 flugvélar í stað Fokker 50

Flugfélag Íslands hefur ákveðið að taka Bombardier Q400 vélar í rekstur í stað Fokker 50 flugvéla sem verið hafa í rekstri félagsins allt frá árinu 1992. Q400 vélarnar eru stærri en Fokker 50 og gerir Flugfélag Íslands ráð fyrir að taka þrjár vélar í 74 sæta útgáfu í sinn rekstur í stað þeirra fimm Fokker 50 véla sem félagið hefur í dag en í þeim eru 50 sæti. Auk þess að vera stærri eru Q400 um 30% hraðfleygari en venjulegar skrúfuþotur og bíður því rekstur þessarar tegundar uppá nýja möguleika fyrir félagið.

Q400 vélarnar munu verða notaðar á hefðbundnum stöðum í innanlandsflugi en einnig í stöðugt vaxandi Grænlandsflugi. Með þeim aukna hraða sem þessi tegund flugvéla býður uppá verða einnig nýir áfangastaðir skoðaðir.

Fyrir er Flugfélag Íslands með tvær Bombardier Q200 37 sæta flugvélar í rekstri. Gert er ráð fyrir að fyrsta Q400 vélin verði komin í flota félagsins fyrir árslok en seinni tvær komi í rekstur í upphafi árs 2016.
Töluvert hagræði fylgir því að taka upp þessa tegund flugvéla, ekki einungis stærðar hagkvæmni heldur er þjálfun flugmanna sambærileg á Q400 og Q200 og munu því allir flugmenn félagsins geta flogið öllum flugvélum félagsins án umfangsmikillar viðbótarþjálfunar. Einnig fylgir því hagræði að hafa einungis einn flugvélaframleiðanda sem birgja.

Um 500 Q400 vélar hafa verið framleiddar frá árinu 2000 og eru þær í notkun í öllum heimsálfum og margir stórir flugrekendur í Evrópu hafa valið Q400 í sinn flota, þannig rekur Flybe í Bretlandi um 60 slíkar vélar, Wideroe í Noregi hefur 11 Q400 í sínum flota og þannig mætti lengi telja.

„Með því að taka upp þessa tegund flugvéla erum við ekki einungis að styrkja rekstur Flugfélags Íslands á núverandi markaði þess heldur einnig að skapa möguleika til að bæta nýjum stoðum undir reksturinn. Með þessari ákvörðun hefur verið lagður grunnurinn að öflugri uppbyggingu Flugfélags Íslands til framtíðar“ segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Bombardier Dash Q400

05.03.2015

Maestro debetkort sem greiðslumiðill á vefnum

Greiðsluleiðir á vef Flugfélags ÍslandsNú geta farþegar notað Maestro debetkort sem tegund greiðslu á vef Flugfélags Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem sá möguleiki er í boði. Maestro debetkortin eru frábrugðin Visa Electron á þann hátt að kortanúmer, líkt og á kreditkortum, eru á framhlið kortanna. 

Stefnt er að því að bjóða upp á þann möguleika að nota Visa Electron mjög fljótlega.

Hér til hægri má sjá yfirlit yfir tegundir greiðslu sem eru teknar á vef Flugfélags Íslands.

04.03.2015

Nú er hægt að bóka hótel um leið og flug

Allt frá árinu 2013 hefur Flugfélag Íslands verið í samstarfi við Booking.com með því að hafa sérstakar hótelbókunarsíður á öllum tungumálum.

Nú hefur loks verið opnað fyrir þann möguleika að hægt er að bóka hótel um leið og flug. Ef hótel er bókað á síðunni um leið og flug kemur sérstök bókunarstaðfesting í kjölfar flugbókunarstaðfestingar, skilmálar booking.com gilda varðandi bókanir á hótelum. Ásamt því að bóka hótel geta farþegar valið að bóka bílaleigubíl í gegnum CarTrawler bílaleiguveituna. 

Það er von okkar að þessi nýjung falli í góðan jarðveg hjá farþegum okkar.

booking.com

11.02.2015

Dagur íslenska táknmálsins er í dag 11.febrúar

Dagur íslenska táknmálsins er í dag 11. febrúar. Fyrir ári síðan á þessum degi var íslensku táknmáli bætt við sem tungumáli á vef Flugfélags Íslands þar sem táknmál er móðurmál heyrnarlausra.

Myndböndin má sjá hér

03.02.2015

FRÍTT Gestakort Reykjavíkur sem gildir Vetrarhátíðarhelgina 5. – 8. febrúar með Flugfélagi Íslands!

Í tilefni af Vetrarhátíð Reykjavíkur helgina 5.-8. febrúar, hafa Höfuðborgarstofa og Flugfélag Íslands tekið höndum saman. Allir viðskiptavinir Flugfélags Íslands sem fljúga til Reykjavíkur frá Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði fá gefins Gestakort Reykjavíkur með gildistíma meðan Vetrarhátíð stendur yfir.

Með Gestakorti Reykjavíkur er íbúum borgarinnar og gestum hennar gert enn auðveldara að njóta þess öfluga menningarlífs sem borgin hefur upp á að bjóða. Handhöfum kortsins er veittur aðgangur að helstu söfnum í Reykjavík og öðrum áhugaverðum stöðum. Einnig fá korthafar óheftan aðgang í sundlaugar Reykjavíkur, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, í Viðeyjarferju og síðast en ekki síst gildir Gestakortið ótakmarkað í Strætó á meðan kortið er í gildi.

Gestakortið er fáanlegt sem:  24, 48 og 72 tíma kort, fullorðins- og barnakort fyrir börn á aldrinum 6 – 18 ára. Nánari upplýsingar má finna á vef Höfuðborgarstofu, www.citycard.is

23.01.2015

Útsýnisflug og trúlofun yfir gosstöðvunum

Í vetur hefur Flugfélag Íslands boðið útsýnisflug yfir Holuhraun á laugardögum og hefur þessi magnaða ferð notið mikilla vinsælda.  Bæði erlendir ferðamenn sem og Íslendingar hafa sótt mikið í þetta frábæra flug, þar sem flogið er yfir gosstöðvarnar í 45 mínútur og jarðfræðingur lýsir því sem fyrir augu ber.

Í janúar hafa nú þegar verið farin þrjú útsýnisflug og í einu þeirra var par frá Bretlandi sem trúlofaði sig óvænt yfir gosstöðvunum.  Aðrir farþegar og áhöfn samglöddust með nýtrúlofaða parinu í háloftunum enda gerði þessi óvænta uppákoma ferðalagið enn skemmtilegra. 

Tjarnargatan hefur gert  áhrifamikið myndband fyrir Flugfélag Íslands um útsýnisflugið sem hægt er að skoða  hér:

 

 

Flugið að gosstöðvunum tekur um hálftíma og tekur allt ferðalagið því tæpar tvær klukkustundir.  Brottför er frá Reykjavíkurflugvelli kl. 15:15 alla laugardaga.  Einungis er selt í gluggasæti á Fokker-50 flugvél Flugfélags Íslands og því einungis 25 sæti í boði í hverri ferð.

Smelltu hér til að bóka 

15.01.2015

Ný framsetning á sveigjanlegum dagsetningum

Í dag birtist ný framsetning á sveigjanlegum dagsetningum í bókunarvélinni á vefnum okkar. Nú er mun auðveldara fyrir farþega að sjá yfirlit yfir ódýrustu fargjöldin á völdu tímabili.

Haka verður í „Sveigjanlegar dagsetningar“ í bókunarvél áður en leitað er.

Bókunarvél

 

Sveigjanlegar dagsetningar

14.01.2015

Lækkun á eldsneytisgjaldi

Flugfélag Íslands mun frá og með 16. janúar 2015 lækka eldsneytisgjald um 20%. Þessi 20% lækkun á eldsneytisgjaldinu er sundurliðuð samkvæmt eftirfarandi:

  • Eldsneytisgjald á innanlandsflugi fer úr 1.000 kr. í 800 kr. á hvern fluglegg
  • Eldsneytisgjald á flugi til Grænlands fer úr 2.000 kr. í 1.600 kr. á hvern fluglegg.
12.01.2015

Opnað fyrir umsóknir um Eyrarrósina 2015


Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni í ellefta sinn

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar,  verður veitt í ellefta sinn í mars 2015. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi.

Handhafi Eyrarrósarinnar hlýtur 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Tíu verkefni verða valin á Eyrarrósarlistann en af þeim hljóta þrjú verkefni tilnefningu til Eyrarrósarinnar og fá í sinn hlut bæði peningaverðlaun og flugmiða frá Flugfélagi Íslands. Eitt þeirra hlýtur Eyrarrósina sem Dorrit Moussaieff forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar, afhendir.

Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Verðlaunin eru mikilvæg enda um veglega upphæð að ræða, en tilnefning til Eyrarrósar er einnig mikilsverður gæðastimpill fyrir þau afburða menningarverkefni sem hana hljóta. Umsækjendur geta meðal annars verið stofnanir, tímabundin verkefni, söfn og menningarhátíðir.

Fyrri Eyrarrósarhafar eru: Áhöfnin á Húna, Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, Safnasafnið á Svalbarðsströnd, Sumartónleikar í Skálholtskirkju, tónlistarhátíðin Bræðslan, Landnámssetrið í Borgarnesi, rokkhátíðin Aldrei fór ég suður, Strandagaldur á Hólmavík, LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi og Þjóðlagahátíðin á Siglufirði.

Umsóknarfrestur um Eyrarrósina 2015 er til miðnættis þann 8. febrúar 2015 og skulu umsóknir sendar rafrænt á eyrarros hjá artfest.is.  

Allar nánari upplýsingar eru á vef Listahátíðar í Reykjavík, www.listahatid.is/eyrarrosin

08.12.2014

Vel heppnað útsýnisflug á laugardaginn

Vel heppnað útsýnisflug var farið að gosstöðvunum í Holuhrauni sl. laugardag. Farþegar voru sammála um að flugið hafi verið mögnuð upplifun. Einungis var selt í gluggasæti og því gátu allir farþegar notið útsýnisins.
Blaðamaður Morgunblaðsins, Sigurður Bogi Sævarsson, skrifaði grein um flugið sem birtist í blaðinu í dag, en það eru einmitt 100 dagar í dag síðan að gosið hófst. Næsta flug verður laugardaginn 13. desember.

Umfjöllun Morgunblaðsins

Farþegar njóta útsýnisins

04.12.2014

Stóraukið fé sett í rannsóknir á ferðaþjónustu

Þegar fjárlagafrumvarp næsta árs var afgreitt á dögunum úr fjárlaganefnd var ákveðið að veita sérstaklega 60 milljónum króna í rannsóknir á ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins og hafa Samtök ferðaþjónustunnar lengi barist fyrir því að auknu fé verði veitt í rannsóknir. Það var því ánægjulegt að fjárlaganefnd Alþingis hafi tekið þessa ákvörðun.

Staðreyndin er sú að ferðaþjónustan hefur undanfarin ár fengið innan við 1% af því rannsóknarfé sem stjórnvöld veita til rannsókna á mismunandi atvinnuvegum í landinu. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað mest síðustu ár og tækifæri til áframhaldandi vaxtar og verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið eru fyrir hendi.

Fyrr á árinu veitti Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, 10 milljónum króna til svokallaðra ferðaþjónustureikninga sem Hagstofa Íslands annast.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa talað fyrir því að það er lykilatriði að ákvarðanir séu byggðar á tölfræði í stað tilfinninga. Það er því óhætt að fagna því að auknu fé hafi verið varið til rannsókna á ferðaþjónustunni og þannig hægt að hefja af krafti nauðsynlega vinnu.

Lesa Fréttabréf SAF 10.tbl 2014 

04.12.2014

Útsýnisflug yfir Holuhraun í desember

Flugfélag Íslands býður upp á útsýnisflug yfir Holuhraun næstu laugardaga með jarðfræðing með í för.  Þetta er í annað skiptið sem Flugfélag Íslands býður flug yfir jarðeldana en í september sl. var farið í tvö flug sem tókust með eindæmum vel.  Farþegar voru mjög ánægðir, ólgandi gosið var skoðað úr öruggri fjarlægð í um 45 mínútur og jarðfræðingur lýsti því sem fyrir augu bar. 

Flugið að gosstöðvunum tekur um hálftíma.  Einungis verður selt í gluggasæti á Fokker-50 flugvél Flugfélags Íslands og því einungis 25 sæti í boði í hvorri ferð.  Útsýnisflugið er bókanlegt á vefsíðunni www.flugfelag.is.

„Í september seldist upp í útsýnisflugin á mettíma svo ákveðið var að gefa fólki tækifæri aftur til að sjá þessa einstöku sýn.  Síðast voru það bæði erlendir ferðamenn sem og Íslendingar sem tóku flugið með okkur og við væntum þess að það verði svipað núna“, segir Ingi Þór Guðmundsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands.

Í fyrstu er boðið upp á flug dagana 6. desember og 13. desember 2014 og svo séð hvernig framvinda eldgossins verður.

02.12.2014

Frábærri skákhátíð í Nuuk að ljúka

Hrókurinn og Flugfélag Íslands hafa í fjölda ára unnið saman að skáklandnámi á Grænlandi og að auknum tengslum landanna á sem flestum sviðum. Alls hafa liðsmenn Hróksins farið í um 40 ferðir til Grænlands, og árið 2015 verða farnar 5-6 ferðir til vina okkar í vestri.

Brian Sörensen varð efstur heimamanna á Grænlandsmóti Einars Ben, sem Hróksliðar stóðu fyrir í Nuuk Center um helgina. Mótið var liður í skákhátíð Hróksins sem staðið hefur undanfarna viku, með stuðningi Flugfélags Íslands og fleiri aðila. Grænlandsmótið var kennt við skáldið og skákáhugamanninn Einar Benediktsson (1864-1940) sem lét sig málefni Grænlands miklu varða.

Síðustu daga hafa Hróksmenn heimsótt leikskóla, sjúkrahús, athvörf og barnaheimili, auk þess að efna til viðburða í samvinnu við Skákfélag Nuuk. Mörg íslensk fyrirtæki sendu grænlenskum börnum og ungmennum glaðning, m.a. 66°NORÐUR, Nói Síríus, 12 tónar, Igló og Indí og Varma.

„Hróksmenn vilja nota þetta tækifæri til að koma á framfæri djúpu þakklæti til starfsfólks Flugfélags Íslands fyrir frábæra samvinnu í öll þessi ár, sem skilað hefur frábærum árangri og ótal ánægjustundum.“

Skákhátíð í Nuuk

Skákhátíð í Nuuk

Skákhátíð í Nuuk

13.11.2014

Gestakort Reykjavíkur til sölu á vefnum

Gestakort ReykjavíkurNú geta farþegar sem ferðast til Reykjavíkur keypt Gestakort Reykjavíkur á þjónustusíðunni á vefnum okkar um leið og flug er bókað. Farþegar geta sótt kortin í afgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli við komu gegn framvísun bókunarstaðfestingar.

Með Gestakorti Reykjavíkur er íbúum borgarinnar og gestum hennar gert enn auðveldara að njóta þess öfluga menningarlífs sem borgin hefur upp á að bjóða. Handhöfum kortsins er veittur aðgangur að helstu söfnum í Reykjavík og öðrum áhugaverðum stöðum. Einnig fá korthafar óheftan aðgang í sundlaugar Reykjavíkur, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, í Viðeyjarferju og síðast en ekki síst gildir Gestakortið ótakmarkað í Strætó á meðan kortið er í gildi. 
Gestakortið er fáanlegt sem: 24, 48 og 72 tíma kort, fullorðins- og barnakort fyrir börn á aldrinum 6 – 18 ára. Gestakortin eru í boði á öllum tungumálum á vefnum.

Nánari upplýsingar um kortið má finna á vef Reykjavíkurborgar.

11.11.2014

66.516 ferðamenn í október

Um 66.500 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í október síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 13.600 fleiri en í október á síðasta ári.

Aukningin nemur 25,7% milli ára. Ferðamenn hafa aldrei mælst fleiri í október frá því mælingar hófust. 

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Ferðamálastofu

10.11.2014

Samstarfssamningur SKÍ og Flugfélags Íslands endurnýjaður

Í síðustu viku endurnýjuðu Skíðasamband Íslands og Flugfélag Íslands samstarfssamning sinn til ársins 2016. Flugfélagið hefur verið dyggur styrktaraðili Skíðasambandsins undanfarin ár og eru forsvarsmenn skíðahreyfingarinnar gríðarlega ánægðir með samstarfið.

,,Flugfélagið hefur verið einn af okkar helstu styrktaraðilum undanfarin ár og er mikilvægt að halda því góða samstarfi áfram. Án þeirra væri reksturinn gríðarlega þungbær en Flugfélag Íslands er frábært fyrirtæki til þess að vera í samstarfi við. Þeir bjóða upp á flug frá höfuðborgarsvæðinu í átt að mörgum af bestu skíðasvæðum landsins, t.d. Akureyri og Ísafjörð. Við erum fyrst og fremst þakklátir fyrir þennan samning." sagði Jón Viðar Þorvaldsson, framkvæmdarstjóri Skíðasambands Íslands í stuttu spjalli við heimasíðu SKÍ.

Samningur undirritaður

Á myndinni má sjá Jón Viðar Þorvaldsson framkvæmdarstjóra Skíðasambands Íslands og Inga Þór Guðmundsson Sölu- og markaðsstjóra Flugfélags Íslands.

06.11.2014

Vasaljós og saga fyrir krakka sem ferðast til Egilsstaða

Í tilefni að Dögum myrkurs á Austurlandi gefum við öllum krökkum á leið til Egilsstaða fram til 16. nóvember fallegt vasaljós og söguna um Orminn í Lagarfljóti.

Að auki geta farþegar nýtt sér 99% afslátt fyrir börn sem fljúga til og frá Egilsstöðum fram til 16. nóvember með því að slá inn flugsláttinn MYRKUR í bókunarvélina á vefnum.

Dagar myrkurs er árleg hátíð sem segja má að sé mögnuð menningarveisla á Austurland. Dagskráin fer fram um allt Austurland.


 

13.10.2014

88.300 ferðamenn í september

Um 88 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í september síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 15.100 fleiri en í september á síðasta ári. Aukningin nemur 20,6% milli ára. Ferðamenn hafa aldrei mælst fleiri í september frá því mælingar hófust.

40% frá Bandaríkjunum, Þýskalandi eða Bretlandi
Um 73% ferðamanna í september voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 17,5% af heildarfjölda en næstir komu Þjóðverjar (11,2%) og Bretar (10,6%). Þar á eftir fylgdu síðan Norðmenn (6,7%), Danir (6,0%), Frakkar (5,3%), Kanadamenn (5,0%), Svíar (4,8%), Spánverjar (3,0%) og Hollendingar (2,5%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum, Kanadamönnum og Bretum mest milli ára en 3.782 fleiri Bandaríkjamenn komu í september í ár en í sama mánuði í fyrra, 2.314 fleiri Þjóðverjar, 1.479 fleiri Kanadamenn og 1.297 fleiri Bretar. Þessar fjórar þjóðir báru að stórum hluta uppi aukninguna í september milli ára eða um 58,8% af heildaraukningu.

Þróun á tímabilinu 2002-2014
Ferðamenn voru nærri þrefalt fleiri í september í ár en þeir mældust í sama mánuði árið 2002. Ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2002, eða að jafnaði um 11,7% á milli ára. Fjölgunin hefur þó verið mest afgerandi frá árinu 2010 en þá hefur hún farið yfir 20% milli ára að jafnaði frá öllum markaðssvæðum nema Norðurlöndunum sem hafa staðið í stað síðastliðin þrjú ár.

291 þúsund ferðamenn frá áramótum
Það sem af er ári hafa 788.099 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 148 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 23,1% aukningu ferðamanna milli ára frá áramótum í samanburði við sama tímabil í fyrra. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; N-Ameríkönum hefur fjölgað um 48,3%, Bretum um 41,4%, Mið- og S-Evrópubúum um 17,6%, og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 38,6%. Norðurlandabúum hefur hins vegar ekki fjölgað í sama mæli eða um 10%.

Nánar á vef Ferðamálastofu

30.09.2014

Íslandsferðin uppfyllir væntingar vetrargesta

Ýmsar áhugaverðar niðurstöður er að finna í könnun meðal erlendra ferðamanna sem Maskína sá um að framkvæma fyrir Ferðamálastofu. Niðurstöður úr svörum þeirra gesta sem heimsóttu landið síðastliðinn vetur liggja nú fyrir og í árslok verða birtar niðurstöður úr svörum sumargesta 2014.

Um könnunina

Með könnuninni var aflað upplýsinga um erlenda ferðamenn á Íslandi, aðdragandann að Íslandsferðinni, ferðahegðun þeirra á Íslandi, eyðsluhætti og viðhorf þeirra til ýmissa þátta íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða netkönnun þar sem netföngum var safnað með skipulögðum hætti á komu- og brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á tímabilinu október 2013 til maí 2014. Úrtakið var 4.500 manns og var svarhlutfallið 55,8%. Könnunin var unnin með sambærilegum hætti og síðasta könnun, sem framkvæmd var á tímabilinu september 2011 til maí 2012.

Lesa nánar um könnunina á vef Ferðamálastofu

15.09.2014

Flugfélag Íslands styður fatasöfnun Hróksins fyrir börn á Grænlandi

Hrókurinn, í samvinnu við Flugfélag Íslands og fleiri aðila, stendur nú fyrir söfnun á fötum og skófatnaði fyrir börn á Austur-Grænlandi.

Skólar víða um land, fyrirtæki og einstaklingar taka þátt í söfnuninni sem stendur út september. Verndari söfnunarinnar er frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands.

Til söfnunarinnar var stofnað í samvinnu við skólastjórnendur í Ittoqqortoormiit við Scoresby-sund, sem er á 70. breiddargráðu. Hróksmenn þekkja vel til í þessu 450 manna þorpi, eftir að hafa skipulagt þar veglegar páskaskákhátíðir fyrir börn og ungmenni síðustu átta árin. Óskað er eftir hverskyns nýjum eða óslitnum og hreinum fötum og skóm á börn á aldrinum 0-15 ára.

Söfnunin hófst í síðustu viku og voru undirtektir strax frábærar. Tekið er við fötum hjá Norræna félaginu, Óðinsgötu 7, Reykjavík, milli kl. 9 og 16. Þá er söfnun að hefjast á vegum Rimaskóla og Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Um síðustu helgi stóð Skákfélagið Huginn fyrir mjög vel heppnaðri söfnun á Húsavík, söfnun er hafin á vegum Naustaskóla á Akureyri og Dalvíkurskóla, og á næstu dögum bætast við Þelamerkurskóli, Grunnskólinn á Grenivík, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar og fleiri.

Fyrsta sendingin fór til Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorps Grænlands, í dag miðvikudag. Flugfélag Íslands, Norlandair og Norðursigling hafa tekið að sér að flytja gjafirnar frá Íslandi endurgjaldslaust. Þá leggur Brim hf. til húsnæði fyrir flokkun og pökkun.

Í ljósi þess hve söfnunin gengur vel hafa Hróksmenn ákveðið að önnur þorp á Austur-Grænlandi njóti góðs af. Næst er röðin komin að Kuummiut, sem er í grennd við Tasiilaq, höfuðstað Austur-Grænlands. Íbúar Kuummiut eru um 330, en alls eru íbúar á Austur-Grænlandi um 4000 og búa í sjö þorpum og bæjum. Markmið liðsmanna Hróksins er að börn í öllum þessum þorpum fái á næstu vikum glaðning frá Íslendingum.

Áfram verður tekið við fötum og skóm hjá Norræna félaginu, Óðinsgötu 7, Reykjavík. Hægt er að fylgjast með gangi mála á Facebook-síðu söfnunarinnar.

26.08.2014

Atlantic Airways - Airbus 319 á Reykjavíkurflugvöll

Flugfélag Íslands og Færeyska flugfélagið Atlantic Airways eru í nánu og góðu samstarfi og hafa verið í mörg ár. Flugfélag Íslands er söluaðili Atlantic Airways á Íslandi og mun vera svo áfram. Hægt er að kaupa miða til Færeyja í gegnum heimasíðu Flugfélags Íslands, flugfelag.is. Margir hópar fara árlega til Færeyja og geta þeir áfram haft samband beint við hópadeild Flugfélags Íslands og upplifað þetta magnaða land.

Eins og flestir hafa kannski tekið eftir í fjölmiðlum hefur verið mikil umræða hvort að færeyska flugfélagið Atlantic Airways muni halda áfram að fljúga á Reykjavíkurflugvöll eftir að þau hætta rekstri á British Airospace flugvél og taka í notkun nýja Airbus 319 flugvél. Það vita það líka margir að það hefur fengist leyfi að Airbus 319 megi lenda á Reykjavíkurflugvelli. Þær upplýsingar sem Flugfélag Íslands hefur í dag mun Atlantic Airways fljúga á Reykjavíkurflugvöll yfir sumartímann og Keflavíkurflugvöll um vetrartímann. 

Atlantic Airways ætlar að fljúga á eftirfarandi dagsetningum og tímasetningum í haust um Reykjavíkurflugvöll á Airbus 319 frá 8. september – 17 október (báðir dagar meðtaldir):

• Mánudagar koma til RKV 12:30 Dep RKV: 13:30
• Föstudagar koma til RKV 09:30 Dep RKV: 10:30

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways mun því lenda næst á Reykjavíkurflugvelli þann 8.september á Airbus 319 þotu og nota Reykjavíkurflugvöll fram að 17.október en lenda svo í vetur á Keflavíkurflugvelli. Hingað til hefur Atlantic Airways notað British Aerospace BAe 146 AVRO-RJ100 vélar og fór sú vél í síðasta skipti um flugvöllinn föstudaginn 22.ágúst.

Atlantic Airways stefnir svo á að kaupa minni flugvélar til að sinna farþegaflugi til Íslands og Noregs frá Færeyjum sem gæti þá lent á Reykjavíkurflugvelli allt árið.

FÍ heldur áfram að selja flugsæti og frakt með Atlantic Airways hvort sem þau fljúga á Reykjavíkurflugvöll eða á Keflavíkurflugvöll. Farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll verða innritaðir á Keflavíkurflugvelli.

Allar nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu Atlantic Airways, www.atlantic.fo

BAe vél Atlantic Airways

BAe vél Atlantic Airways á Reykjavíkurflugvelli 22. ágúst.

Airbus 319 vélin sem mun lenda á Reykjavíkurflugvelli

Airbus 319 vél Atlantic Airways sem mun lenda á Reykjavíkurflugvelli 8. september n.k.

24.08.2014

Engin röskun er á flugi vegna gossins

Starfsfólk Flugfélags Íslands fylgist vel með framvindu mála og farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma.

Engin röskun hefur orðið á flugi og ekki er búist við röskunum eins og staðan er núna. Allir flugvellir eru opnir og gosið hefur ekki haft nein áhrif á flug. Ef til lokana kemur á flugvöllum/flugleiðum er unnið samkvæmt reglum um ófærð. Við munum færa farþega á ný flug.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða vilt nálgast okkur, er hægt að hringja í okkur í síma 570-3030, senda okkur fyrirspurn eða hafa samband á Facebook eða Twitter.

Frekari upplýsingar má fá hérna:
www.almannavarnir.is 
www.vedur.is
www.ruv.is

23.08.2014

Engin röskun á flugi vegna jarðhræringa undir Dyngjujökli

Starfsfólk Flugfélags Íslands fylgist vel með framvindu mála og farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma.

Engin röskun hefur orðið á flugi og ekki er búist við röskunum eins og staðan er. Allir flugvellir eru opnir og jarðhræringarnar hafa ekki haft nein áhrif á flug. Ef til lokana kemur á flugvöllum/flugleiðum er unnið samkvæmt reglum um ófærð. Við munum færa farþega á ný flug.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða vilt nálgast okkur, er hægt að hringja í okkur í síma 570-3030, senda okkur fyrirspurn eða hafa samband á Facebook eða Twitter.

Frekari upplýsingar má fá hérna:
www.almannavarnir.is 
www.vedur.is
www.ruv.is

08.08.2014

Frábær vetur hjá íslenskri ferðaþjónustu

Óhætt er að segja að sl. vetur hjá íslenskri ferðaþjónustu hafi verið mjög árangursríkur.
• Seðla- og kortavelta erlendra ferðamanna sem heimsóttu Ísland utan háannar 2013-14 (september – desember, janúar – maí) var 58,2 ma.kr. sem er 27,2% aukning frá sama tímabili árinu áður.

• Yfir 500 þúsund erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland á sama tímabili sem nemur 27,5% aukningu frá sama tímabili árinu á undan.

• Árstíðarsveifla lækkaði að meðaltali um 8% um allt land á síðasta ári en ennþá er töluverð sveifla til staðar á landsbyggðinni.

• Ferðaþjónustan hefur sannarlega skilað sínu til vinnumarkaðarins því á meðan heildarfjöldi starfa á Íslandi fækkaði um 4200 frá 2008 til 2013, fjölgaði um leið störfum um 4100 í hótel- og veitingarekstri og samgöngum og flutningum.

Viðhorf gagnvart Íslandi sem vetraráfangastað á okkar helstu markaðssvæðum hefur einnig batnað um 4,8% að meðaltali frá árinu 2012 skv. viðhorfskönnun sem framkvæmd var í Bretlandi, Frakklandi, Danmörku og Þýskalandi í janúar 2012 og mars 2014. 

(Heimild: Íslandsstofa).

28.07.2014

Nú er hægt að afbóka á vefnum

Frá og með deginum í dag geta farþegar afbókað sjálfir í gegnum vefinn. Þetta er stór áfangi og nokkuð sem hefur verið stefnt að í langan tíma. 

Sem fyrr geta farþegar sparað sér umtalsverðar fjárhæðir með því að breyta bókunum sínum sjálfir á vefnum og á það við um afbókanir eins og aðrar breytingar. Sem dæmi greiða þeir sem ferðast á nettilboðum 20% breytingargjald pr. fluglegg í stað 40% sé breytt með því að hringja. Sjá nánar hér um afbókunarskilmála og fargjaldategundir.

Athugið að eingöngu er hægt að afbóka bókanir á netinu sem eru upphaflega gerðar á netinu.

Ef ætlunin er að breyta bókun er eftirnafn og bókunarnúmer slegið inn í Breyta bókun flipann á forsíðu vefsins. Þá kemur upp sá möguleiki að afbóka og ef það er valið birtist þessi gluggi:

Hakað er í samþykkt á skilmálum og bókunin er endurgreidd (fyrir utan breytingargjöld) og afbókuð. 

Starfsfólk Flugfélags Íslands vonast til að farþegar taki vel í þessa nýjung. 

04.06.2014

Ný greiðsluleið á vefnum - Netgíró

Frá og með deginum í dag er hægt að nota Netgíró á vef Flugfélagi Íslands. Sem fyrr er tekið við okkar eigin Flugkorti, Visa, Mastercard, American Express o.fl. tengdum erlendum kortum. 

Þetta er mjög jákvætt fyrir viðskiptavini okkar sem nú geta átt viðskipti við Flugfélag Íslands á fjölbreyttari hátt en áður og hafa um fleiri leiðir að velja á vefnum en aðeins kreditkort. Með því að nota Netgíró stofnast krafa í heimabanka viðskiptavinar og viðkomandi hefur 14 daga til að greiða kröfuna, einnig er í boði að skipta greiðslu í nokkra mánuði (fer eftir upphæð).

Allar nánari upplýsingar um Netgíró má finna á vef Netgíró.

30.05.2014

Sala um borð í millilandaflugi að hefjast

Flugfélag Íslands er að hefja sölu um borð í sínu millilandaflugi og er stærsti hlutur millilandaflugs hjá FÍ til Grænlands. Fyrsta flugið þar sem veitingar verða seldar um borð fer frá Reykjavík mánudaginn 2. júní til Kulusuk. Þegar salan hefst mun vöruframboð aukast til muna. Kaffi, te og vatn verður áfram í boði endurgjaldslaust

Vöruúrval í innanlandsflugi verður óbreytt þ.e. kaffi, te og vatn verður áfram í boði endurgjaldslaust.

Vonar Flugfélag Íslands að þessi aukna þjónusta við farþega með millilandaflugi félagsins eigi eftir að mælast vel fyrir hjá farþegum.


20.05.2014

Nýr samningur við Mittarfeqarfiit

Skrifað hefur verið undir nýjan frakt samning við Mittarfeqarfiit, fyrirtækið sem hefur umsjón með grænlenskum flugvöllum. Fyrir Flugfélag Íslands hefur þessi samningur þau áhrif að við getum betur en áður nýtt ferðatíðni til Grænlands til hagsbóta fyrir viðskiptavini sem fá vörurnar með fyrsta mögulega flugi.

Einnig er þarna á ferðinni stórt framfaraskref sem felst í ákvæði um kæligeymslur í Kulusuk og Nuuk sem mun stórbæta vörumeðhöndlun á viðkvæmum matvörum. Það er einnig Flugfélagi Íslands mikil ánægja að geta aðstoðað samstarfsaðila okkar í Grænlandi bæði í formi tækjabúnaðar, tölvutenginga og verkþjálfunar til starfsmanna Mittarfeqarfiit. Það eykur öryggi og treystir og bætir samstarf okkar til framtíðar, segir Vigfús Vigfússon deildarstjóri fraktdeildar.

Fréttatilkynning á dönsku:

 

Mittarfeqarfiit indgår fragtaftaler med Air Iceland


Mittarfeqarfiit og Air Iceland Cargo vil i fælleskab gøre det enklere at importere varer til Grønland. To nye samarbejdsaftaler mellem de to selskaber skal give en mere fleksibel fragt og bedre fragtforhold i fire lufthavne i Grønland.

Mittarfeqarfiits Kulusuk Lufthavn får af Air Iceland stillet en de-icer til rådighed, der også kan bruges til at de-ice andre fly end Air Icelands. Det er resultatet af en ny aftale om samarbejde om udstyr i lufthavnene mellem Mittarfeqarfiit og Air Iceland. Det skulle gerne betyde, at færre fly bliver forsinket. Samtidig vil en aftale om ground handling give nye systemer til håndtering af fragt gøre det muligt at distribuere gods mere smidigt ind og ud af Grønland.

Aftalen blev underskrevet på Mittarfeqarfiits hovedkontor i Nuuk af Air Icelands ground operations and security manager Magnús Brimar Magnússon, cargo manager Vigfús Vigfússon og Mittarfeqarfiits business development manager Svend Christiansen.
Vigfús ser store perspektiver i aftalen, ikke blot for Østkysten. Han kan forestille sig, at aftalen på længere sigt vil kunne åbne for fly-eksport af grønlandske friske fisk til udlandet eksempelvis via Nuuk og Ilulissat.

”Det bliver nemmere for os at tilbyde international fragt i flere forskellige størrelser, og det betyder blandt andet, at fragt af fødevarer bliver enklere,” siger Vigfús.
Udover de-iceren, der ankommer til vinter, og et tættere fragtsamarbejde indeholder aftalen bestemmelser om:

• Uddannelse i fragthåndtering af Mittarfeqarfiits medarbejdere leveret af Air Iceland
• Ny prisstruktur med enklere afregning mellem Air Iceland og Mittarfeqarfiit
• Opstilling af kølecontainer til ferskvarer i Nuuk lufthavn
• Levering af diverse teknisk udstyr til Nuuk og Ilulissat lufthavne fra Air Iceland

Aftalen indeholder også et socialt aspekt, idet parterne forpligter sig til at samarbejde om yderligere jobskabelse i samarbejde mellem grønlandske og islandske myndigheder.

”Mittarfeqarfiit har i forvejen en række lignende fragtaftaler, og de står for en væsentlig del af de grønlandske lufthavnes aktiviteter, så denne aftale er ikke i sig selv usædvanlig. Det nye er omfanget af samarbejdet, og at vi indgår et meget nært samarbejde om teknisk udstyr i lufthavnene, som forhåbentligt kan være med til at skabe arbejdspladser,” fortæller kommunikationschef i Mittarfeqarfiit Hans Henrik Lichtenberg.

20.05.2014

Stutt heimildarmynd um Aldrei fór ég suður

Gerð hefur verið stutt heimildarmynd um rokkhátíðina Aldrei fór ég suður. Myndin er gerð af fyrirtækinu Tjarnargatan og sýnir skemmtilega mynd af tilurð og tilvist þessarar sérstöku hátíðar. Smelltu til að horfa á myndina á YouTube:

16.05.2014

Reynir Bjarnason lét af störfum eftir 53 ára starf

Reynir Bjarnason lét af störfum hjá Flugfélagi Íslands í vikunni og á að baki ríflega 53ja ára starf hjá félaginu sem hlaðmaður, flokksstjóri og verkstjóri. Er það ekki einungis lengsti starfsaldur innan Flugfélagsins, heldur einnig innan Icelandair Group.


Af þessu tilefni var haldið kveðjuhóf honum til heiðurs, boðið var upp á glæsilegar veitingar og ræður voru haldnar. Að auki voru honum færðar gjafir og gamlir jafnt sem nýir vinnufélagar rifjuðu upp góða tíma. Takk fyrir samstarfið Reynir!

Morgunblaðið fjallaði um starfslok Reynis á baksíðunni fimmtudaginn 15. maí.

29.04.2014

TILKYNNING VEGNA MÖGULEGRAR VINNUSTÖÐVUNAR STARFSMANNA ISAVIA AÐ MORGNI 30. APRÍL 2014

Enn er ekki ljóst hvort að boðað verkfall starfsmanna Isavia verður á morgun 30. apríl. Flugfélag Íslands er ekki aðili að vinnudeilunni og við vonumst til þess að lausn finnist, og ekki komi til verkfalls.

Við biðjumst velvirðingar á þeirri truflun sem þessi óvissa skapar og farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma.

Flugfélag Íslands hefur ákveðið að koma til móts við farþega ef til verkfalls kemur.

ENDURGREIÐSLA OG ENDURBÓKUN FLUGS

Full endurgreiðsla, fyrir brottför. Farþegar sem óska eftir endurgreiðslu hafa samband við okkur í síma 570 3030. Farþegar sem hafa bókað í gegnum ferðaþjónustuaðila hafa samband við aðilann þar sem ferð var bókuð.

Breyta dagsetningu. Hægt er að breyta flugi en slíkt er þó háð sætaframboði í sömu fargjaldategund. Ferð þarf að hefjast innan fjögurra vikna frá upphaflegri brottfarardagsetningu. Ekki þarf að greiða þjónustu- eða breytingargjald.

Farþegar
Ef farþegi á bókað flug á meðan á verkfalli stendur og ætlar ekki að nýta flug eftir að verkfalli lýkur þarf hann að hafa samband í síma 570 3030 eða með því að senda okkur tölvupóst til að fá endurgreiðslu. Ekki verður endurgreitt ef haft er samband eftir að flug er hafið á ný.
Þegar verður farið að fljúga á ný fá farþegar SMS um brottfarartíma líkt og venja er.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða vilt nálgast okkur, er hægt að hringja í okkur í síma 570-3030, senda okkur fyrirspurn eða nálgast okkur á Facebook eða Twitter.

28.04.2014

Upplýsingar um ferðamenn í Grænlandi væntanlegar

Undanfarin ár hefur lítið verið vitað um raunverulegan fjölda ferðamanna á stærstu eyju í heimi, Grænlandi. Nú hafa grænlenska viðskiptamálaráðuneytið og ferðamálasamtökin Visit Greenland tekið sig saman í samvinnu við Greenland Airports og hagstofu Grænlands um gagnasöfnun til að bæta úr þessu.

Frá og með sumrinu 2014 munu allir farþegar sem fara frá Grænlandi verða spurðir um búsetu.

„Upplýsingarnar verða sendar til hagstofu Grænlands og munu gefa tölfræði um hversu margir ferðamenn koma til Grænlands og frá hvaða löndum“ útskýrir verkefnastjórinn Anders la Cour Vahl frá Visit Greenland

Í mörg ár hafa þeir sem starfa í ferðamannaiðnaðinum kallað eftir slíkum tölum til þess að geta reiknað út meðaleyðslu hvers ferðamanns. En fyrir þá sem starfa í þessum iðnaði er það einnig mjög mikilvægt að vita hvaðan ferðamennirnir eru að koma. Tölurnar munu geta sagt til um útkomu markaðsstarfs á mismunandi mörkuðum, hvort að herferðir skili sér í aukningu ferðamanna og það verður mjög dýrmætt til að geta haldið áfram þróun á markaðsherferðum að sögn Anders la Cour Vahl.

Í apríl 2014 mun nýtt kerfi vera prófað á flugvellinum í Nuuk og seinna á öðrum flugvöllum. Fyrir lok sumars mun kerfið verða innleitt á öllum sex flugvöllunum í Grænlandi sem þjóna millilandaflugi.

Við brottför munu farþegar einfaldlega verða spurðir um búsetuland áður en farið er í öryggiseftirlit. Engum öðrum upplýsingum verður safnað þannig að ekki er um nein persónugreinanleg gögn að ræða. „Við vonum og treystum að þessari nýju skráningu verði vel tekið af farþegum og að þetta verði upplýsingar sem geti stutt yfirvöld í þeim tilgangi að bæta ferðamannaiðnaðinn í Grænlandi um ókomna tíð“ segir  Anders la Cour Vahl að lokum.

24.04.2014

Tilkynning vegna verkfallsaðgerða starfsmanna Isavia að morgni 25. apríl 2014

Boðuð vinnustöðvun starfsmanna Isavia verður á morgun föstudaginn 25. apríl.

Flugvöllum innanlands mun verða lokað frá kl. 04:00 til kl. 09:00 að morgni föstudagsins 25. apríl með þeim afleiðingum að öllu flugi Flugfélags Íslands til og frá Reykjavíkurflugvelli á þessum tíma verður seinkað þar til eftir kl. 09:00 en engu flugi verður aflýst.

Við biðjumst velvirðingar á þeirri truflun sem þetta skapar og farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma.

Farþegar
Allir farþegar sem eiga bókað flug fá sent SMS um nýjan brottfarartíma og mætingu fyrir flug.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða vilt nálgast okkur varðandi breytingar á bókun eða annað, er hægt að hringja í okkur í síma 570-3030, senda okkur fyrirspurn eða heimsækja okkur á Facebook eða Twitter.

22.04.2014

Tilkynning vegna verkfallsaðgerða starfsmanna Isavia að morgni 23. apríl 2014

Boðuð vinnustöðvun starfsmanna Isavia verður á morgun 23. apríl. Flugfélag Íslands er ekki aðili að vinnudeilunni og við vonumst til þess að lausn finnist, og ekki komi til vinnustöðvunar.

Flugvöllum innanlands mun verða lokað frá kl. 04:00 til kl. 09:00 að morgni miðvikudagsins 23. apríl með þeim afleiðingum að öllu flugi Flugfélags Íslands til og frá Reykjavíkurflugvelli á þessum tíma verður seinkað þar til eftir kl. 09:00 en engu flugi verður aflýst.

Við biðjumst velvirðingar á þeirri truflun sem þetta skapar og farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma.

Farþegar
Allir farþegar sem eiga bókað flug fá sent SMS um nýjan brottfarartíma og mætingu fyrir flug.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða vilt nálgast okkur varðandi breytingar á bókun eða annað, er hægt að hringja í okkur í síma 570-3030, senda okkur fyrirspurn eða heimsækja okkur á Facebook eða Twitter.

16.04.2014

Íslandsdagurinn í Nuuk - taktu daginn frá!

Íslandsstofa og Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið, í samvinnu við ræðisskrifstofu Íslands í Nuuk og Flugfélag Íslands, gangast fyrir Íslandsdegi í Nuuk á föstudaginn 24. október nk.

Markmiðið með Íslandsdeginum er einkum að auka viðskiptaleg tengsl milli landanna, en einnig að kynna Íslenskar vörur fyrir grænlenskum almenningi. Þetta er því einstakt tækifæri fyrir fyrirtæki sem hafa áhuga á grænlenska markaðnum til að hitta heimamenn og stofna til viðskiptasambanda.

Skipulagðir verða fyrirtækjafundir, vöru- og þjónustusýning á neytendamarkaði auk þess sem haldin verður ráðstefna sem fjalla mun um hin ýmsu tækifæri í samstarfi landanna.

Þetta er fimmta árið í röð sem viðburðurinn fer fram, en metþátttaka var frá Íslandi á síðasta ári þegar 30 fyrirtæki sóttu Nuuk heim.

Áhugasamir um þátttöku hafi samband við Kristínu S. Hjálmtýsdóttur eða Þorleif Þór Jónsson.

08.04.2014

Samstarfssamningur við Golfklúbb Akureyrar undirritaður

Golfklúbbur Akureyrar og Flugfélag Íslands hafa undirritað samstarfssamning sín á milli til næstu tveggja ára.
Í tilkynningu frá GA segir:
Flugfélagið hefur staðið veglega við bakið á GA undanfarin ár og er það mikið gleðiefni að samstarfið haldi áfram næstu árin. Í þessum samning er lögð sérstök áhersla á aðkomu Flugfélagsins að Arctic open og er sá stuðningur ómetanlegur og hjálpar okkur að efla og styrkja þetta glæsilega mót ennfrekar á komandi árum.

Þökkum við Flugfélaginu kærlega fyrir veittan stuðning og hlökkum til samstarfsins næstu árin.

Sjá frétt á heimasíðu GA

Frá undirritun samningsins
Ágúst Jensson og Gróa Ásgeirsdóttir

07.04.2014

Tilkynning vegna verkfallsaðgerða starfsmanna Isavia að morgni 08. apríl 2014

Boðuð vinnustöðvun starfsmanna Isavia verður á morgun 8. apríl. Flugfélag Íslands er ekki aðili að vinnudeilunni og við vonumst til þess að lausn finnist, og ekki komi til vinnustöðvunar.

Flugvöllum innanlands mun verða lokað frá kl. 04:00 til kl. 09:00 að morgni þriðjudagsins 8. apríl með þeim afleiðingum að öllu flugi Flugfélags Íslands til og frá Reykjavíkurflugvelli á þessum tíma verður seinkað þar til eftir kl. 09:00 en engu flugi verður aflýst.

Við biðjumst velvirðingar á þeirri truflun sem þetta skapar og farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma.

Farþegar
Allir farþegar sem eiga bókað flug fá sent SMS um nýjan brottfarartíma og mætingu fyrir flug.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða vilt nálgast okkur varðandi breytingar á bókun eða annað, er hægt að hringja í okkur í síma 570-3030, senda okkur fyrirspurn eða heimsækja okkur á Facebook eða Twitter.

07.04.2014

Tilkynning vegna mögulegrar vinnustöðvunar starfsmanna Isavia að morgni 08. apríl 2014

Enn er ekki ljóst hvort að boðuð vinnustöðvun starfsmanna Isavia verður á morgun 8. apríl. Flugfélag Íslands er ekki aðili að vinnudeilunni og við vonumst til þess að lausn finnist, og ekki komi til vinnustöðvunar.

Komi til verkfallsins mun flugvöllum innanlands verða lokað frá kl. 04:00 til kl. 09:00 að morgni þriðjudagsins 8. apríl með þeim afleiðingum að öllu flugi Flugfélags Íslands til og frá Reykjavíkurflugvelli á þessum tíma yrði seinkað þar til eftir kl. 09:00 en engu flugi yrði aflýst.

Við biðjumst velvirðingar á þeirri truflun sem þessi óvissa skapar og farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma.

Farþegar
Allir farþegar sem eiga bókað flug fá sent SMS um nýjan brottfarartíma og mætingu fyrir flug.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða vilt nálgast okkur, er hægt að hringja í okkur í síma 570-3030, senda okkur fyrirspurn eða heimsækja okkur á Facebook eða Twitter.

01.04.2014

Grænlendingar í starfsþjálfun hjá Flugfélagi Íslands

Nokkur þeirra íslensku fyrirtækja sem starfað hafa mest á Grænlandi og í samstarfi við Grænlendinga hafa lýst því í samtölum við aðalræðisskrifstofu Íslands í Nuuk að þau vilji gjarnan stuðla að því að ungir Grænlendingar fái tækifæri til að kynnast Íslandi og starfsháttum þar með því að starfa tímabundið hjá fyrirtækjum eða stofnunum á Íslandi. Flugfélag Íslands er eitt af þessum fyrirtækjum.

Markmið starfsþjálfunar er annars vegar að gefa ungu fólki frá Grænlandi tækifæri á að kynnast starfsemi íslenskra fyrirtækja af eigin raun og hins vegar að auka samskipti á milli Ísland og Grænlands í gegnum starfsnámið.

Með því að bjóða upp á starfsþjálfun eiga fyrirtækin þess jafnframt kost að fá áhugasamt og hæft fólk til starfa á Íslandi, fólk sem þekkir til aðstæðna í Grænlandi.

Starfsnámið er opið fyrir alla Grænlendinga. Skilyrði er að viðkomandi sé á aldrinum frá 18 til 35 ára og að starfsnámið sé hugsað sem hluti af undirbúningi fyrir framtíðarstörf viðkomandi. Ráðningin er tímabundin í 6 mánuði og munu tveir Grænlendingar koma í starfsþjálfun til Flugfélags Íslands næsta vetur.

Aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk auglýsir starfsnámið á Facebook síðu sinni.

20.03.2014

Ferðaþjónustan stærsta útflutningsgrein landsins

Í nýjum gögnum frá Hagstofu Íslands um útflutning á vörum og þjónustu fyrir árið 2013 kemur fram að tekjur af erlendum ferðamönnum eru stærsta útflutningsafurðin. Er þetta í fyrsta sinn sem ferðaþjónustan er efst á blaði.

Alls námu tekjur af erlendum ferðamönnum tæplega 275 milljörðum króna á árinu 2013, eða 26,8% af heildarverðmæti útflutnings vöru og þjónustu. Ásamt ferðaþjónustunni er útflutningur sjávarafurða og áls og álafurða þrír stærstu liðirnir, en útflutningur sjávarafurða nam 25,5% og áls og álafurða 21,0%.

Gífurlegur vöxtur hefur verið í tekjum af erlendum ferðamönnum á síðustu árum. Árið 2009 námu tekjurnar 156 milljörðum eða 19,6% af heildarverðmæti útflutnings vöru og þjónustu. Má gera ráð fyrir áframhaldandi vexti á þessi ári. Samkvæmt spám um fjölda erlendra ferðamanna kann að vera að í fyrsta skiptið fari fjöldi þeirra yfir eina milljón á einu ári, en á síðasta ári komu 781 þúsund erlendir ferðamenn til landsins.

Á meðfylgjandi mynd má sjá tekjur og hlutfall erlendra ferðamanna af heildarverðmæti útflutnings vöru og þjónustu frá árinu 2009 (Fréttabréf SAF, 20 mars 2014).

 

20.03.2014

Flugfélag Íslands vinnur verðlaun Fokker flugrekenda

Fokker Services sem er hluti af Fokker Technologies veitti nýlega afkastaverðlaun til flugrekenda Fokker flugvéla í fimm flokkum á meðan ráðstefna flugrekenda stóð í Hoofddorp í Hollandi. 

Flugfélag Íslands var tilnefnt í tveimur flokkum:

  • Meðhöndlun og framkvæmd varahlutainnkaupa og viðhalds flugvéla.
  • Hæsta gildi í tæknilegu öryggi flugrekenda Fokker flugvéla.

Flugfélag Ísland fékk viðurkenningu í flokknum:

  • Hæsta gildi í tæknilegu öryggi flugrekenda Fokker flugvéla.

 Flugfélag Íslands fékk afhenta eina viðurkenningu fyrir “hæsta gildi í tæknilegu öryggi flugrekenda Fokker flugvéla”.  Þessi verðlaun sýna þann frábæra árangur sem hefur náðst í að stýra öllum viðhaldsþáttum til að auka öryggi í rekstri og áreiðanleika í áætlun félagsins.  Verðlaunin voru afhent á ráðstefnu flugrekenda í Hoofddorp í Hollandi þann 6. mars sl.

Við afhendingu þessara viðurkenninga sagði framkvæmdarstjóri Fokker,  Frans van de Pol: “Þessir vinningshafar eru fulltrúar þeirra bestu í hverjum flokki og eru verðugir fulltrúar til að halda Fokker flugvélunum sem ákjósanlegum kosti og halda áfram samkeppnishæfum flugrekstri á fjölda flugleiða um allan heim”.

Á myndinni má sjá þá Eirík Frey Blumenstein deildarstjóra tæknideildar, Guðbjart I. Torfason tæknistjóra og Birgi Örn Sveinsson flugvirkja með verðlaunagripinn.

 

12.03.2014

Dagsferðir í Be Iceland appi

Be IcelandFlugfélag Íslands hefur verið skráð sem ferðaþjónustuaðili í Be Iceland appið. Be Iceland er einstakt ferðamanna app. Appið er búið að vera í notkun í rúm tvö ár núna og hefur fengið frábærar móttökur. Be Iceland gerir ferðamönnum kleift að skoða náttúruperlur, kynnast sögu Íslands og sækja upplýsingar um ýmsa þjónustu í grennd við það. Um 65% notenda sækja sér appið í heimalandi, áður en farið er af stað til Íslands og því augljóst að áhugi er fyrir appi af þessari gerð. Markmiðið með þessari skráningu er að ná betur til erlendra ferðamanna og fá þá til að nýta sér innanlandsflugið í meira mæli.

Appið kostar ekkert fyrir notendur og er hægt að sækja það á Google Play og App Store. Einnig er síðuna að finna á vefnum, smelltu hér

07.03.2014

Flugfélag Íslands er styrktaraðili Íþróttafélags fatlaðra

Í dag fer fram opnunarhátíð Vetrarólympíumóts fatlaðra í Sochi. Flugfélag Íslands er stoltur stuðningsaðili Íþróttasambands fatlaðra. Við óskum þeim Ernu Friðriksdóttur og Jóhanni Þór Hólmgrímssyni góðs gengis á leikunum en hér eru þau að lokinni móttökuathöfninni í ólympíumótsþorpinu í Sochi. Með þeim á myndinni eru aðstoðarmenn við leikana.

20.02.2014

Skýrsla um félagshagfræðilega greiningu á framtíð innanlandsflugs

Skýrsla um félagsfræðilega greiningu á framtíð innanlandsflugsInnanríkisráðuneytið kynnti í dag fimmtudag 20.febrúar 2014 nýja skýrslu um félagshagfræðilega greiningu á framtíð áætlunarflugs innanlands.

Markmið félagshagfræðilegrar greiningar er að meta þjóðhagslegan ávinning eða tap með kostnaðar/ábatagreiningu en huga jafnframt að samfélagslegum ávinningi sem ekki verður mældur í krónum og aurum svo sem búsetugæðum. Með þessari aðferð má greina á milli arðsemi mismunandi valkosta.

Allt áhugafólk um framtíð innanlandsflugs ætti að kynna sér þessa áhugaverðu skýrslu.

Skýrslan er aðgengileg á vef Innanríkisráðuneytisins http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28846

17.02.2014

Áhöfnin á Húna hlýtur Eyrarrósina 2014

EyrarrósinFlugfélag Íslands er stoltur styrktaraðili Eyrarrósarinnar, sem er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarstarfsemi á starfssvæði Byggðarstofnunnar. Eyrarrósin var afhent í tíunda sinn við hátíðlega athöfn í Skaftfelli á Seyðisfirði um helgina að viðstöddum forseta Íslands og forsetafrú. Það var Dorrit Moussaief forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar sem afhenti viðurkenninguna í Skaftfelli á Seyðisfirði en Skaftfell er handhafi Eyrarrósarinnar 2013. Þrjú menningarverkefni voru tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár:

Verksmiðjan á Hjalteyri, Skrímslasetrið á Bíldudal og Áhöfnin á Húna.

Verksmiðjan og Skrímslasetrið hlutu hvort um sig 300.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands og Áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina, 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Áhöfnin á Húna er samstarfsverkefni tónlistarmanna og Hollvina Húna II. Áhöfnin á Húna vakti mikla athygli í sumar þegar Húni II sigldi hringinn í kringum landið. Haldnir voru 16 tónleikar í sjávarbyggðum landsins. Ríkisútvarpið fylgdi siglingunni eftir með beinum útsendingum frá tónleikum áhafnarinnar sem og sjónvarps– og útvarpsþáttargerð þar sem landsmönnum öllum gafst tækifæri til að fylgjast með ævintýrum áhafnarinnar. Húni II hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir áhugavert starf í menningartengdri ferðaþjónustu og er samstarf hans við tónlistarfólkið í Áhöfninni á Húna liður í að efla það enn frekar.

Áhöfnin á Húna

11.02.2014

Íslenskt táknmál á flugfelag.is

Íslenskt táknmálDagur íslenska táknmálsins er í dag 11. febrúar en íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi.
Flugfélag Íslands hefur í samstarfi við Táknsmiðjuna ehf. útbúið táknmálsviðmót fyrir heimasíðu sína flugfelag.is. Táknmálsviðmótið varð gert aðgengilegt í dag 11. febrúar í tilefni að degi íslenska táknmálsins. Tákn hins íslenska táknmáls er nú birt við fána sem tákna önnur tungumál á forsíðu vefsins.

Smelltu hér til að fara á síðu íslensks táknmáls hér á vefnum

Það er mjög ánægjulegt að geta komið til móts við þá sem eiga íslenskt táknmál að móðurmáli og við vonumst til þess að öll þjónusta Flugfélags Íslands eigi eftir að komast betur til skila til þessa hóps.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að heyrnarlausir kjósa táknmál yfir texta. Að nálgast upplýsingar á íslensku er eins og að rannsaka eitthvað á öðru tungumáli, málfræðin er algjörlega öðruvísi, orðamyndanir koma frá öðrum stofni og í mörgum tilvikum eru til orð á táknmáli sem ekki eru til á íslensku og öfugt. Stór meirihluti heyrnarlausra á Íslandi fékk aldrei almennilega íslenskukennslu í grunnskóla þar sem að aðaláherslurnar voru að kenna þeim að tala eða „óralismi“ eins og það kallast, hugsun sem er í dag talin úreld.

Þrátt fyrir betri íslenskukennslu nú til dags reynist það samt erfitt fyrir marga heyrnarlausa að lesa. Það er aldrei fallbeygt á táknmáli, ekkert kyn á orðum og aldrei notað samtengingarorð eins og „og“ eða „til“ „sem“ o.fl. Svo öðlast börn málþroska út frá umhverfinu, í leikskólum, í sjónvarpinu, í gegnum tónlist og annað slíkt. Heyrandi fólk er undir stöðugu „áreiti“ og við komumst ekki hjá því að heyra íslensku, og því öðlumst við tilfinningu fyrir málinu. Heyrnarlausir þurfa að leggja á minnið málfarsreglur og undantekningar án þess að geta æft hana nema í skrifum.
Því er það miklu meiri vinna hjá heyrnarlausum einstaklingi að læra íslensku heldur en hjá öðrum.

Með því að bjóða upp á táknmál er líka verið að staðfesta að það sé jafnt íslenskunni og þar með alvöru tungumál eins og samþykkt var árið 2011.

24.01.2014

Samstarf Flugfélags Íslands, Icelandair Hotel Akureyri og LA

Leikfélag Akureyrar, Flugfélag Íslands og Icelandair Hotel Akureyri hafa gert með sér samstarfssamninga.
Flugfélag Íslands hefur verið einn af öflugustu bakhjörlum LA um árabil og hafa félögin endurnýjað samstarf sitt. Með stuðningi flugfélagsins hefur leikfélaginu reynst mögulegt að vinna með listamönnum hvaðanæva af landinu. Einnig hafa félögin boðið upp á leikhúsferðir til Akureyrar í tengslum við uppsetningar LA nú síðast Gullna hliðið sem fengið hefur fádæma góðar viðtökur.
Icelandair Hotel Akureyri og leikfélagið efla nú samstarf sitt enn frekar. Með því að gista á Icelandair Hotel Akureyri geta gestir nýtt sér gisti- og leikhústilboð. Auk þess munu listamenn frá Leikfélagi Akureyrar koma fram reglulega í anddyri hótelsins gestum og gangandi til upplífgunar og yndisauka.
Öllum þessum aðilum er umhugað að stuðla að fjölgun ferðamanna og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu á Akureyri yfir vetrartímann og taka nú höndum saman í þeim tilgangi.

Samstarf við LA og Icelandair Hótel Akureyri
Á myndinni eru: Sigrún Björk Jakobsdóttir, hótelstjóri Icelandair Hótel Akureyri, Ragnheiður Skúladóttir, leikhússtjóri LA, Gróa Ásgeirsdóttir verkefnastjóri hjá Flugfélagi Íslands.

16.01.2014

Ferðamönnum fjölgaði um 134 þúsund árið 2013

Um 781 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll á nýliðnu ári samkvæmt talningum Ferðamálastofu. Um er að ræða 20,7% aukningu frá 2012 þegar erlendir ferðamenn voru 647 þúsund. Vart þarf að taka fram að ferðamenn hafa aldrei verið fleiri.

Tæplega þrír fjórðu ferðamanna árið 2013 voru af tíu þjóðernum. Bretar og Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir en þar á eftir komu ferðamenn frá Þýskalandi, Noregi, Frakklandi, Danmörku, Svíþjóð, Kanada, Hollandi og Kína. Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum mest árið 2013. Þannig komu 42.500 fleiri Bretar árið 2013 en árið 2012, 24.700 fleiri N-Ameríkanar og 10.600 fleiri Þjóðverjar.

Talningar Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ná til um 96% erlendra ferðamanna sem koma til landsins. Unnið er að því að fá tölur fyrir flugvellina í Reykjavík, á Egilsstöðum og Akureyri, sem og skipafarþega með Norrænu. Þær tölur er þó ekki hægt að greina eftir þjóðernum, líkt og hægt er með farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll.

Lesa nánar á vef Ferðamálastofu.

16.01.2014

Flugvirkjar Flugfélags Íslands aðstoða Landhelgisgæsluna

Óvenju fjölmennur hópur er þessa dagana við vinnu í flugskýli Landhelgisgæslunnar. Flugvélin TF-SIF er í reglubundinni C-skoðun sem er nokkuð umfangsmikil og er hún í umsjón flugvirkja Landhelgisgæslunnar sem hafa fengið flugvirkja frá Flugfélagi Íslands til aðstoðar. Einnig er Lynx þyrla dönsku varðskipanna í skoðun og fylgir henni um 20 manna hópur flugvirkja.

Lynx þyrla er að venju staðsett um borð í varðskipi því sem sinnir leit, björgun og eftirliti við Grænland. Þyrlan flýgur að skoðun lokinni um borð í HDMS Hvidbjörnen sem kom til Reykjavíkurhafnar fyrir helgina.

Samstarf Landhelgisgæslunnar og danska sjóhersins byggir á áratuga góðri samvinnu sem meðal annars felst í samæfingum, starfsmannaskiptum og samstarfi við leit og björgun í Norður Atlantshafi. Lynx þyrlur þeirra hafa verið í viðbragðsstöðu fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar þegar upp koma lengri sjúkra- eða björgunarflug.

Úr flugskýli Landhelgisgæslunnar

14.01.2014

Gjafabréf til stéttar- og verkalýðsfélaga

Það er góð eftirspurn frá félagsmönnum stéttar- og verkalýðsfélaga að geta keypt gjafabréf hjá Flugfélagi Íslands. Þess vegna hefur Flugfélag Íslands þróað nýja vöru í samstarfi við stéttar- og verkalýðsfélög. Nýja varan felst í því að bjóða félagsmönnum stéttar- og verkalýðsfélaga að kaupa gjafabréf með 10% afslætti. Stéttar- og verkalýðsfélög selja svo félagsmönnum gjafabréfin og í flestum tilfellum niðurgreiða þau bréfin enn frekar þannig að félagsmaðurinn fær meiri afslátt. Félagsmenn kaupa bréfin hjá sínu eigin stéttar- og verkalýðsfélagi.

Eitt það besta við þessa nýju lausn er að hún er bókanleg allan sólarhringinn og þess vegna eru gjafabréfin einungis hægt að nota á vefnum flugfelag.is. Hægt er að nota þessi gjafabréf sem greiðslu upp í öll almenn fargjöld sem eru í boði hverju sinni (Fríðindasæti, Ferðasæti og Nettilboð). Gjafabréfin gilda í 2 ár frá útgáfu.

Félagsmenn stéttar- og verkalýðsfélagi vilja líka geta fylgst með stöðu sinni allan sólarhringinn. Því er hægt að sjá stöðu gjafabréfa hér á heimasíðu Flugfélags Íslands.

Þökkum góðar viðtökur við þessari nýju vöru, við hjá Flugfélagi Íslands HLUSTUM og viljum endilega fá góðar ábendingar en þær er hægt að senda í tölvupósti á netfangið: gjafabref hjá flugfelag.is

10.01.2014

Samstarf Flugfélags Íslands og Hofs

Menningarhúsið Hof og Flugfélag Íslands hafa gert með sér samstarfssamning en Flugfélagið hefur verið einn af bakhjörlum Menningarhússins Hofs frá því að húsið var opnað fyrir rúmum þremur árum. Framkvæmdarstjóri Hofs segir samstarfið við Flugfélagið gríðarlega mikilvægt og að félagið þjóni oft lykilhlutverki þegar kemur að því að gestir Hofs heimsæki Akureyri.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Menningarhússins Hofs segir samstarfið við Flugfélagið sérstaklega ánægjulegt enda um að ræða öflugt fyrirtæki þar sem unnið er af mikilli fagmennsku og metnaði. „Það er mikið af listamönnum og aðstandendum viðburða sem fram fara í Hofi sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og góðar og þægilegar samgöngur ásamt stuttum ferðatíma er oft lykilatriði fyrir aðstandendur viðburða þegar kemur að skipulagningu. Við sjáum auðvitað líka að gestir sem heimsækja Akureyri og Hof vilja gjarnan nýta sér þennan ferðamáta og undanfarin ár höfum við séð að helgarferðir til Akureyrar eru að verða vinsælli hjá fjölskyldum, vinahópum og vinnustöðum.”

Gróa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri sölu og markaðssviðs segir forsvarsmenn Flugfélagsins stolta að fá að koma með þessum hætti að því frábæra starfi sem fram fer í Hofi. „Við höfum starfað með forsvarsmönnum Hofs frá því að húsið opnaði og það er ánægjulegt að finna þann mikla meðbyr sem starfsemin þar hefur fengið. Akureyri er svo sannarlega einn eftirsóttasti áfangastaður bæði innlendra og erlendra ferðamanna utan Reykjavíkur og fjölbreytt menningarlíf á meðal annars þátt í því.“

Ingibjörg segir Flugfélagið og góðar flugsamgöngur gríðarlega mikilvægar fyrir starfssemi Hofs eins og svo margra annarra fyrirtækja víðsvegar um landið sem sækja bæði starfsfólk og viðskiptavini frá höfuðborgarsvæðinu. Hún segist óttast neikvæð áhrif á bæði menningar og atvinnulíf á landsbyggðinni verði flugvöllurinn í Reykjavík fluttur úr miðborginni og ferðatími til og frá vellinum lengist. Hún segir það muni meðal annars hafa áhrif á þróun ráðstefnu og fundahalda á Akureyri. „Við fáum töluvert af fyrirtækjum og stofnunum frá Reykjavík hingað norður sem halda hér ráðstefnur, fundi og aðra viðburði. Frá því að Hof opnaði höfum við fundið fyrir talsverðri aukningu á þessu sviði á milli ára.“

Ingibjörg segir fyrirtæki á Norðurlandi hafa unnið vel saman að því undanfarin ár að gera Akureyri og í raun Norðurland allt að aðlaðandi kosti fyrir ráðstefnu og fundahald. „Öll aðstaða og þjónusta fyrir fundi og ráðstefnur af öllum stærðum og gerðum er hér til staðar en það er fyrirsjáanlegt að ef að flugvöllurinn verður fluttur þannig að ferðatíminn lengist og ferðakostnaður eykst þá mun þetta hafa verulega neikvæð áhrif á þessi fyrirtæki og tækifæri til að byggja upp enn frekari þjónustu á Norðurlandi sem snúa að ráðstefnu og fundahaldi munu minnka í kjölfarið.“

Frá undirritun samstarfssamnings

Ingi Þór Guðmundsson forstöðumaður sölu og markaðssviðs FÍ og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Menningarhússins Hofs við undirritun samstarfssamningsins.

20.12.2013

Ný Airbus Atlantic Airways á Reykjavíkurflugvöll?

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er ósk færeyska Flugfélagsins Atlantic Airways að fá leyfi til að fá að lenda nýjum Airbus vélum sínum í áætlunarflugi milli Færeyja og Reykjavíkur á Reykjavíkurflugvelli. Atlantic Airways fær í dag eingöngu leyfi til að lenda núverandi Avro vél á Reykjavíkurflugvelli vegna þyngdar vélar og er Avro vél því stærsta flugvél sem lendir í áætlunarflugi á Reykjavíkurflugvelli.
Sjá nánar um frétt í fjölmiðlum 

Atlantic Airways flýgur til Reykjavíkur tvisvar í viku á veturna, mánudögum og föstudögum. Svo bætir flugfélagið við þriðju brottför á sumrin, miðvikudögum.

Atlantic Airways mun fljúga til Keflavíkur 10. – 17. febrúar (á mánudögum og föstudögum) í stað Reykjavíkur þar sem núverandi Avro vélin Atlantic Airways verður í viðhaldsskoðun. Flugin eru bókanleg á vef FÍ, flugfelag.is undir Keflavík (KEF).

Atlantic Airways mun áfram fljúga til Reykjavíkur á mánudögum og föstudögum í sumar. Hins vegar mun Atlantic Airways fljúga á miðvikudögum til Keflavíkur um sumarið 2014 á tímabilinu 2. júlí – 13. ágúst 2014. Þessi flug eru einnig bókanleg á vefnum. Fargjöldin hjá Flugfélagi Íslands eru þau sömu og áður og frá Reykjavíkurflugvelli en skattar frá Keflavíkurflugvelli(KEF) eru hærri. Ef farþegar ætla að bóka flugmiða fram og tilbaka þar sem flogið er í gegnum Keflavíkurflugvöll(KEF) og Reykjavíkurflugvöll(RKV) verður að gera tvær bókanir.

12.12.2013

Jólafrakt í desember

Flugfraktin með hið sívinsæla jólapakkatilboð fyrir jólin. Tilboðið hljóðar uppá að senda 1 - 10 kg. pakka á tímabilinu frá 06. - 20. des að báðum dögum meðtöldum fyrir kr. 1.300.-

Tilboðið er ætlað einstaklingum sem eru að senda jólapakka en ekki fyrirtækjum eða fyrir venjulegar fraktsendingar.  Mælst er til þess að þessar sendingar séu greiddar af sendanda.

Sjá nánari upplýsingar um opnunartíma 

09.12.2013

26% aukning ferðamanna í nóvember

FerðamálastofaUm 46 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nóvember í ár samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 9.500 fleiri en í nóvember á síðasta ári. Um 25,7% aukningu ferðamanna er að ræða milli ára.

Frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2002 hefur árleg aukning í nóvember verið að jafnaði 14,3% milli ára. Sveiflur hafa þó verið miklar í brottförum milli ára, sjá nánar á vef Ferðamálastofu.

05.12.2013

Bókun Vildarsæta á vefnum

Nú er hægt að bóka Vildarsæti með Vildarpunktum Icelandair hér á heimasíðunni með því að velja „Saga Club“ sem tegund fargjalds á upphafssíðu bókunarvélar.

Tvenns konar fargjaldategundir eru í boði (14.000 eða 17.500 punktar pr. fluglegg) og er takmarkaður sætafjöldi á báðum fargjaldategundum. Með því að bóka í gegnum vefinn þarf ekki að greiða nein þjónustugjöld eins og verið hefur og einnig er nýtt að nú ávinnur fólk sér Vildarpunkta með bókunum til Grænlands.

Áfram verður hægt að bóka Vildarsæti í gegnum síma en þá gegn þjónustugjaldi Flugfélags Íslands og Saga Club.

Börn 5-11 ára sem ferðast ein er einungis hægt að bóka í gegnum síma 570 3030 en ekkert þjónustugjald er tekið fyrir þær bókanir.

Allar nánari upplýsingar má finna hér

 SagaClub í bókunarvél

08.11.2013

53 þúsund ferðamenn í október

Um 53 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í október í ár samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 7.900 fleiri en í október í fyrra. Um er að ræða 17,6% aukningu ferðamanna milli ára.Frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2002 hefur árleg aukning í október verið að jafnaði 10,9% milli ára. Sveiflur hafa þó verið miklar í brottförum milli ára eins og myndir hér til hliðar gefa til kynna.

Fjórðungur ferðamanna frá Bretlandi

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í október frá Bretlandi (24,6%) og Bandaríkjunum (13,5%). Þar á eftir komu Norðmenn (8,9%), Danir (7,5%), Þjóðverjar (6,0%), Svíar (4,8%), Kanadamenn (3,7%) og Frakkar (3,2%). Samtals voru þessar átta þjóðir 72,2% ferðamanna í október.

Af einstaka markaðssvæðum fjölgaði Bretum, N-Ameríkönum og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum mest. Þannig komu 3.542 fleiri Bretar í október ár, 1.526 fleiri N-Ameríkanar og 2.581 fleiri ferðamenn frá öðrum markaðssvæðum. Norðurlöndin og Mið- og S- Evrópa standa hins vegar í stað.

Tæp 700 þúsund ferðamenn frá áramótum

Frá áramótum hafa 692.877 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 111 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 19,1% milli ára. Um 40% fleiri Bretar hafa heimsótt landið, fjórðungi fleiri N-Ameríkanar, ríflega fjórðungi fleiri frá löndum sem flokkast undir annað og um 14% fleiri Mið- og S-Evrópubúar. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað mun minna eða um 3,0%.

Ferðir Íslendinga utan

Um 38 þúsund Íslendingar fóru utan í október eða um 2.300 fleiri en í fyrra. Frá áramótum hafa um 312 þúsund Íslendingar farið utan eða svipaður fjöldi og árið 2012.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum

01.11.2013

Metþátttaka íslenskra fyrirtækja á kaupstefnu í Nuuk

Íslensk fyrirtæki fjölmenntu til Nuuk á Grænlandi í síðustu viku þar sem þau sóttu kaupstefnu sem Íslandsstofa, ásamt Grænlensk-íslenska viðskiptaráðinu og Flugfélagi Íslands stóðu fyrir. Kaupstefnan stóð yfir í þrjá daga og gengu fundir íslensku og grænlensku fyrirtækjanna vel fyrir sig.

Lesa nánar hér

Frá Grænlandi

24.10.2013

Flugfélagshátíðin í Nuuk

Flugfélagshátíðin í Nuuk hefst á morgun en hátíðin er eitt metnaðarfyllsta verkefni Hróksins á Grænlandi til þessa. Hátíðin er haldin í samvinnu við Grænlensk-íslenska verslunarráðið og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands.
Við hátíðlega athöfn í Katuaq, norræna húsinu í Nuuk, munu tugir barna fá taflsett að gjöf frá Flugfélagi Íslands, en alls munu FÍ og Hrókurinn gefa 300 grænlenskum börnum taflsett á næstunni. Börnin munu líka fá skákkver á grænlensku, sem skákfrömuðurinn Siguringi Sigurjónsson stendur að ásamt fleiri gjöfum. Hægt er að fylgjast með hátíðinni á Facebook síðunni Skák á Grænlandi

Heimasíða Hróksins

FÍ taflborð

02.10.2013

Flugfélag Íslands styrkir Eyrarrósina

EyrarrósinByggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík veita viðurkenningu til framúrskarandi menningarverkefna í tíunda sinn. Eyrarrósin, viðurkenning til framúrskarandi menningarverkefna á starfssvæði Byggðastofnunar, verður veitt í tíunda sinn í febrúar 2014. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi.
Handhafi Eyrarrósarinnar hlýtur 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Aðrir tilnefndir hljóta 300.000 krónur auk flugferða. Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina. Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar.

Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Viðurkenningin er mikilvæg enda um veglega upphæð að ræða, og tilnefning til Eyrarrósar er einnig mikilsverður gæðastimpill fyrir þau afburða menningarverkefni sem hana hljóta.
Fyrri Eyrarrósarhafar eru: Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, Safnasafnið á Svalbarðsströnd, Sumartónleikar í Skálholtskirkju, Bræðslan, Landnámssetrið í Borgarnesi, Aldrei fór ég suður, Strandagaldur á Hólmavík, LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi og Þjóðlagahátíðin á Siglufirði.

Umsóknarfrestur um Eyrarrósina 2013 er til 15. nóvember 2013.
Nánari upplýsingar eru á vef Listahátíðar í Reykjavík.

Frá undirskrift samnings um Eyrarrósina

Frá afhendingu Eyrarrósarinnar 2012

16.09.2013

Varaflugvöllurinn í Vatnsmýrinni grein úr Fréttablaðinu

Áhugaverð grein eftir Vigni Örn Guðnason flugstjóra sem birtist í Fréttablaðinu 16. september sl.: 
Varaflugvöllurinn í Vatnsmýri 

16.09.2013

Um lengd og fjölda flugbrauta, grein úr Morgunblaðinu

Vekjum athygli á grein eftir Leif Magnússon verkfræðing sem birtist í Morgunblaðinu 13. september sl.:
 Um lengd og fjölda flugbrauta

12.09.2013

Mesti fjöldi ferðamanna frá upphafi

Um 132 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nýliðnum ágústmánuði eða 16.500 fleiri ferðamenn en í ágúst í fyrra. Aukningin nemur 14,4% milli ára og er þetta metfjöldi ferðamanna í einum mánuði.

Tölur frá Ferðamálastofu Íslands


Ef litið er til fjölda ferðamanna í ágúst á því tólf ára tímabili (2002-2013) sem Ferðamálastofa hefur haldið úti talningum má sjá umtalsverða fjölgun ferðamanna. Þannig hefur ferðamönnum fjölgað um 81 þúsund á tímabilinu, farið úr 50 þúsundum árið 2002 í 132 þúsund árið 2013. Aukningin hefur verið að jafnaði 9,3% milli ára en sveiflur hafa hins vegar verið talsvert miklar milli ára sbr. myndir hér til hliðar gefa til kynna. Hér má annars vegar sjá fjölda ferðamanna hvert ár og hins vegar hlutfallslega breytingu á milli ára.

Sjá nánar á vef Ferðamálastofu Íslands

06.09.2013

Norðurljósaflug

Flugfélag Íslands hefur í samstarfi við Viking Inc. í Japan búið til nýja vöru - Norðurljósaflug. Viking Inc. hefur þróað vöruna í samstarfi við sinn viðskiptavin Club Tourism International Inc (CTI). Að þeirra sögn er þessi nýja vara einstök í heiminum. Viðskiptavinir CTI koma til Íslands í október 2013 og febrúar 2014 til að skoða norðurljósin. Farþegar koma seint að kvöldi á Reykjavíkurflugvöll og fljúga 60 mínútna leiguflug fyrir ofan skýin til að skoða norðurljósin. Það verður gaman að fylgjast með þessari nýju vöru en salan í Japan gengur víst vel.

Frá undirskrift samningsins

Á myndinni eru Ingi Þór Guðmundsson forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands, Ms. Ami Hisamatsu frá CTI, Bergþóra Ragnarsdóttir í leiguflugsdeild Flugfélags Íslands og Mr. Yasuaki Yokokawa, framkvæmdastjóri Viking Inc.,GSA í Japan.

26.08.2013

Flugvöllurinn á Þórshöfn (THO) verður lokaður 28. - 30. ágúst

Flugvöllurinn á Þórshöfn (THO) verður lokaður frá 28. – 30. ágúst n.k. Norlandair mun þar af leiðandi ekki fljúga á Þórshöfn þessa daga.

Flogið verður á Vopnafjörð og þaðan beint til Akureyrar. 

16.08.2013

Undirskriftasöfnun um land allt til stuðnings Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri

Félagið Hjartað í Vatnsmýri hefur hafið undirskriftasöfnun á vefslóðinni www.lending.is þar sem skorað er á borgarstjórn Reykjavíkur og Alþingi að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri.
Undirskriftir verða afhentar borgarstjórn áður en frestur til að gera athugasemdir við tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur rennur út þann 20. september nk., en sem kunnugt er gerir skipulagstillagan ráð fyrir að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri innan skamms.

Auk vefsíðunnar verða undirskriftalistar aðgengilegir um land allt, jafnframt því sem miklir hagsmunir landsmanna allra af óbreyttri flugstarfsemi í Vatnsmýri verða kynntir víða um land með áberandi hætti á næstunni.

Lesa alla fréttatilkynninguna frá félaginu Hjartað í Vatnsmýrinni

Frá upphafi undirskriftasöfnunarinnar
Frá blaðamannafundi sem haldinn var í Flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli föstudaginn 16. ágúst. Á myndinni má sjá formenn Hjartað í Vatnsmýrinni t.v. Friðrik Pálsson hótelhaldara og Njál Trausta Friðbertsson flugumferðarstjóra og loks Hallgrím F. Sigurðsson íbúa á Akureyri sem skrifaði fyrstur undir áskorunina.

26.07.2013

Flugfélag Íslands býður uppá húðflúr

Ég hef oft hugsað um að fá mér eitthvað töff á ökklann

Gróa Ásgeirsdóttir hjá Flugfélagi Íslands skartar nú þessu flotta húðflúri með lógói flugfélagsins. Þegar ég hafði samband við hana kom í ljós að hún var alls ekki búin að láta húðflúra sig í alvöru heldur er flúrið álímt.

„Ég er ekki sjálf með húðflúr, en hef stundum hugsað það að fá mér eitthvað töff á ökklann. Hef samt ekki látið verða af því ennþá, en veit ekki alveg hvort lógó Flugfélagsins yrði þá fyrir valinu,“ segir Gróa og hlær. „Það er svo sem aldrei að vita. Álímda húðflúrið hefur vakið lukku og finnst öllum það geggjað. Ég á von á að þau rjúki út. Við eigum takmarkað magn af þeim, svo það er um að gera að taka flugið út á land um verslunarmannahelgina og fá sér tattú í leiðinni,“ segir hún.

Það kom í ljós að álímdu húðflúrin eru hluti af nýjustu sjónvarpsauglýsingaherferð Flugfélagsins.

„Við ákváðum að taka auglýsinguna aðeins lengra og láta gera álímd húðflúr sem við ætlum okkur að gefa farþegum fyrir verslunarmannahelgina. Fólk getur svo sent okkur myndir af húðflúrunum sem við setjum á Facebook-síðu félagsins,“ segir Gróa. 

17.07.2013

90 þúsund ferðamenn í júní

Um 90 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í júnímánuði eða um 15.500 fleiri en í júní 2012. Um er að ræða 20,9% aukningu milli ára.

Smellið á myndina til að sjá hana stærri.
 

Nærri þreföld aukning á 12 ára tímabili

Þegar litið er til fjölda ferðamanna í júní mánuði á því tólf ára tímabili (2002-21013) sem Ferðamálastofa hefur haldið úti talningum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar má sjá umtalsverða aukningu ferðamanna en þeim hefur fjölgað úr 32 þús. árið 2002 í 90 þús. árið 2013 eða um 59 þús. ferðamenn. Aukningin milli ára hefur verið að jafnaði 10,1% en sveiflur milli ára hafa verið miklar.

Þriðjungur ferðamanna frá Bandaríkjunum og Þýskalandi

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í júní frá Bandaríkjunum (19,6%) og Þýskalandi (13,5%). Þar á eftir komu Bretar (7,8%), Norðmenn (7,1%), Frakkar (7,0%), Svíar (5,0%), Danir (4,8%) og Kanadamenn (3,7%). Samtals voru þessar átta þjóðir um tveir þriðju (68,5%) ferðamanna í júní.

Af einstaka þjóðum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum, Frökkum og Bretum mest milli ára í júní. Þannig komu 3.323 fleiri Bandaríkjamenn en í júní í fyrra, 2.480 fleiri Þjóðverjar, 1.856 fleiri Frakkar og 1.091 fleiri Bretar.

Aukning frá öllum markaðssvæðum í júní

Þegar aukning milli ára er skoðuð eftir einstaka markaðssvæðum má sjá 28,6% aukningu Breta í júní, 23,3% aukningu N-Ameríkana, 18,6% aukningu Breta og 23,9% aukningu þeirra sem koma frá löndum sem flokkuð eru undir annað. Aukning Norðurlandabúa er hins vegar nokkuð minni eða 6,6%.

Um 311 þúsund ferðamenn frá áramótum

Frá áramótum hafa 311.409 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 66 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 27,2% milli ára. 47,4% fleiri Bretar hafa heimsótt landið, 29,8% fleiri N-Ameríkanar, 26,5% fleiri Mið- og S-Evrópubúar og 28,6% fleiri ferðamenn frá löndum sem flokkast undir ,,annað“. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 8,7%.

Utanferðir Íslendinga

Um 36 þúsund Íslendingar fóru utan í júní eða þrjú þúsund færri en í júní í fyrra. Frá áramótum hafa um 170 þúsund Íslendingar farið utan, um 500 færri en á sama tímabili árið 2012. Fækkunin nemur 0,3% milli ára.

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Nánari upplýsingar veitir Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknastjóri oddny(hjá)ferdamalastofa.is

Fjöldi ferðamanna í júní

Upplýsingar fengnar frá ferðamálastofu: http://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/90-thusund-ferdamenn-i-juni-1 

10.07.2013

Nýr aðalræðismaður Íslands í Nuuk

Pétur Ásgeirsson er nýr aðalræðismaður Íslands í Nuuk. Starfsfólk Flugfélags Íslands óskar Pétri til hamingju með nýja starfið og fagnar því að Utanríkisráðuneytið opnar útibú á Grænlandi þar sem aukin tækifæri liggja í samskiptum Íslands og Grænlands í viðskiptum og menningu.

Pétur Ásgeirsson á flugvellinum í Nuuk 

03.06.2013

Hljóðfæri og skákkver til Kulusuk

Íslenskir velunnarar Grænlands hafa fært íbúum Kulusuk hátt í 10 milljónir króna til að endurbyggja tónlistarhús sem brann til grunna í mars. Þá voru einnig fjölmörg hljóðfæri gefin Kulusuk-búum.

Í gærmorgun var hljóðfærunum, gítörum, hljómborðum og fleiru, komið fyrir um borð í vél Flugfélags Íslands sem flaug sérstakt flug af þessu tilefni og var það framlag þess til íbúa Kulusuk. Um hádegisbil lagði svo fjölmenn sendinefnd í hann. Þegar glitta tók í Grænland var ljóst að veturinn hafði ekki losað tök sín á hinu 400 manna bæjarfélagi í Kulusuk. Fréttamaður RÚV og myndatökumaður, Guðmundur Bergkvist, slógust í för með liðsmönnum skákfélagsins Hróksins og var stefnan tekin á skólann í þorpinu sem er nokkurn vegspotta frá flugvellinum.

Í skólanum biðu börnin spennt eftir gestunum. Þau fengu öll eintak af fyrsta skákkverinu sem þýtt hefur verið á grænlensku, stuttermaboli og sælgæti og svo var slegið upp fjöltefli.

Tónlistarmennirnir í Kulusuk tóku vel á móti íslensku sendinefndinni og svo voru hljóðfærin og peningagjafirnar formlega afhent með viðhöfn á hóteli bæjarins. Kulusuk tilheyrir sveitarfélaginu Sermersooq og sendiherra þess flutti verk sem hann samdi sérstaklega af þessu tilefni (Fyrir frekari upplýsingar, heimsækið vef ruv.is). 

Starfsfólk Flugfélags Íslands er stolt af því að hafa stutt þetta frábæra framtak og óskar íbúum Kulusuk áframhaldandi góðs gengis við það uppbyggingarstarf sem framundan er. 
 

31.05.2013

Dagsferðir komnar í sölu á vefnum

Flugfélag Íslands býður upp á dagsferðir frá Reykjavík til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Flogið er frá Reykjavík að morgni og komið til baka seinnipartinn. Þessar ferðir hafa notið vaxandi vinsælda og eru nú bókanlegar hér á vefnum.

Ferðin Leiðsögn um Ísafjörð sameinar menningu, sögu og náttúruna í Ísafjarðardjúpi. Tvenns konar dagsferðir eru í boði þegar flogið er til Egilsstaða. Önnur ber yfirskriftina Náttúra Seyðisfjarðar og Skálaness og hin er Höfuðborg Álfa og lunda. Flestar ferðir eru í boði út frá Akureyri en þar má nefna hvalaskoðunarferð á Húsavík, ferð í Mývatnssveit og Grímseyjarferð. Svo er vinsæl ferð sem heitir Hápunktar Norðursins en hún sameinar alla helstu hápunkta Norðurlands, Mývatnsferð og hvalaskoðun á Skjálfanda.

Flugfélag Íslands hefur undanfarin sumur boðið upp á dagsferð til Kulusuk á Grænlandi. Ferðir til Kulusuk verða í boði alla daga vikunnar í júlí og ágúst og þegar eru margir dagar uppseldir. Flugið tekur tæpar 2 klukkustundir. 

Nánar er hægt að kynna sér úrval dagsferða með því að smella hér.
 

17.05.2013

Nýir farsímavefir í loftið!

Nýir farsímavefir (eða mobile vefir) eru komnir í loftið. Á þeim er hægt að bóka flug (en aðeins til að byrja með Fríðindasæti – Ferðasæti og Nettilboð) og svo er hægt að Sækja bókun, skoða Komur og brottfarir og Flugáætlun ásamt því að nálgast Upplýsingar (sjá meðfylgjandi skjámynd).

Þegar farið er inn á flugfelag.is úr farsímum og spjaldtölvum opnast farsímavefurinn en hægt er að fara á fulla útgáfu á vefs sé það valið, þetta eru slóðirnar:

m.flugfelag.is
m.airiceland.is/ (enska)
m.airiceland.dk (danska)

Bætt verður við möguleikum jafnt og þétt, fleiri fargjaldategundir verða í boði og ýmsar þjónustuleiðir virkjaðar líkt og í fullri vefútgáfu.

Skjámynd af farsímavef

03.05.2013

Fylgdarflug

Flugfélag Íslands er að selja Fylgdarflug (sjúkrarúm) fyrir fólk sem þarf að flytjast milli heilbrigðisstofnana. Margir vilja gista á heilbrigðisstofnun í sinni heimabyggð eða komast fyrr heim til sín og því er Fylgdarflug góður kostur.

Allar nánari upplýsingar er hægt að fá með því að smella hérna.

Sjúkrarúm í vél Flugfélags Íslands

15.04.2013

Erlent lesefni um borð

Þjónusta við viðskiptavini Flugfélag Íslands er í stöðugri þróun. Erlendir ferðamenn eru sífellt stærri hópur farþega Flugfélags Íslands. Því verður Flugfélag Íslands að svara með aukinni þjónustu við erlenda ferðamenn. Einn liður í því er að auka erlent lesefni. Flugfélag Íslands mun því dreifa Grapevine í blaðastanda við farþegahlið í hverri flugstöð. Dreifing mun hefjast í byrjun maí.

Ský er „inflight magazine“ Flugfélags Íslands og Ský mun einnig þróast í takt við aukið magn erlendra ferðamanna um borð. Á næstu misserum munu birtast sérblöð á ensku inn í Ský til að erlendir ferðamenn geti lesið sig til um land og þjóð.

Kær kveðja
Starfsfólk Flugfélags Íslands

12.04.2013

Hugsaðu um umhverfið áður en þú prentar út þennan póst

Föstudaginn 23.nóvember 2012, hlaut Flugfélag Íslands viðurkenningu fyrir að hafa lokið innleiðingu á Vakanum, nýju gæða- og umhverfiskerfi fyrir aðila í ferðaþjónustu (smelltu hér til að skoða frétt). Í þessari úttekt hlaut Flugfélag Íslands Gull umhverfismerkið. Þau fyrirtæki sem taka í VAKANUM þurfa að uppfylla auknar kröfur um gæði og öryggi, jafnt fyrir starfsfólk sem og viðskiptavini. Auk þess tekur Vakinn meðal annars til aðbúnaðar, þjónustu við ferðamenn, þjálfun starfsfólks og umgengni við náttúruna svo fátt eitt sé nefnt.

Nú hefur Flugfélag Íslands tekið enn eitt skrefið í átt að fá viðskiptavini sína í lið með sér með því að setja eftirfarandi texta neðst í allan tölvupóst.

Hugsaðu um umhverfið áður en þú prentar út þennan póst
Think about the environment before you print

Það er markmið Flugfélags Íslands að vinna stöðugt í gæða- og umhverfismálum og starfsfólk Flugfélags Íslands er stolt af því að vera á meðal fyrstu fyrirtækjanna á Íslandi til þess að hljóta þessa vottun.

Nánari upplýsingar um Vakann

Með kveðju,
Starfsfólk Flugfélags Íslands

11.04.2013

Netklúbbur Flugfélags Íslands fær nýtt útlit

Netklúbbur Flugfélags Íslands hefur fengið andlitslyftingu. Útlitið er nú meira í stíl við annað markaðsefni og nýjan vef Flugfélags Íslands. Einnig eru helstu breytingar að nú er auðvelt að „senda á vin“ og smella á samfélagsvefi.

Margir Íslendingar eru í Netklúbbi Flugfélags Íslands og hefur meðlimatala farið ört vaxandi undanfarið. Þeir sem eru meðlimir í Netklúbbnum fá ávallt fyrstir sendan tölvupóst með nýjustu nettilboðum og öðrum upplýsingum. Kjarabót fyrir þá sem ferðast mikið innanlands.

Fyrsti pósturinn með nýja útlitinu:
Nýtt útlit Netklúbbs 

10.04.2013

Þjóðhátíðarflug til Vestmannaeyja

Flugfélag Íslands hefur sett upp flug til Vestmannaeyja(VEY) í kringum Þjóðhátíð í ár. Flugin eru þegar komin í sölu og verða eingöngu bókanleg á vefnum. Skilmálar Nettilboða gilda (farangursheimild er t.d. ekki innifalin).

22.03.2013

Nýr vefur er kominn í loftið!

Í dag föstudaginn 22.mars fór nýr vefur og bókunarvél í loftið hjá Flugfélagi Íslands. Margar nýjungar líta dagsins ljós og meðal annars verður í boði:

• Breytingar á fargjöldum. Í boði verða þrjár fargjaldafjölskyldur; Netfargjöld, Ferðasæti og Fríðindasæti. Netfargjöldin munu lækka, og nú verður enn hagstæðara að bóka ferðir fram í tímann.

• Flugsláttur(Promo Codes) gefur afslátt af flugi og er kynntur með auglýsingum. Viðskiptavinir geta þannig fylgst með auglýsingum Flugfélags Íslands og slegið inn viðeigandi kóða í Flugsláttarreitinn. Fyrsti Flugslátturinn verður kynntur í auglýsingum mánudaginn 25. mars nk.

• Hægt verður að breyta bókun, afbóka, bæta við farþegum á sömu flug og bóka eða kaupa aukaþjónustur s.s. séraðstoð, yfirvigt, sms staðfestingu o.fl. Breytingargjöld verða mun ódýrari séu þau gerð á netinu.

• Farþegar geta valið og bókað sitt uppáhaldssæti gegn vægu gjaldi.

• Hægt verður að kaupa og bóka gjafabréf

• Greiða fyrir farangur og yfirvigt. Um leið og Flugfélag Íslands lækkar lægstu fargjöldin og fjölgar þeim sætum sem í boði verða, mun nú verða tekið vægt gjald fyrir þá sem vilja ferðast með farangur. Engin farangursheimild verður á netfargjöldum og hoppfargjöldum en farangursheimild að 20 kg. mun kosta kr. 990 aðra leiðina ef bókuð á netinu og spara þannig 50%.

• Í samstarfi við bookings.com og Cartrawler verður möguleiki að bóka hótel og bílaleigubíl á www.flugfelag.is Strax verður hægt að bóka bílaleigubíl í sömu bókun og flugið, og innan skamms verður einnig hægt að bóka hótel um leið og flug.

• Einfalt að ferðast með hjól, skíði, golfsett o.fl. því nú verður hægt að bóka fyrirfram alls kyns búnað. Farþegar sem bóka á netinu fá jafnframt 50% afslátt af öðrum þjónustuleiðum eins og t.d. bókun gæludýra, hjóla, skíða, hljóðfæra eða golfbúnaðar.

Aðrar nýjungar væntanlegar:
Á næstu dögum og vikum munu bætast við nýjar þjónustuleiðir á vefnum sem spennandi verður að fylgjast með.
• Fyrsta flugfélagið á Íslandi með öpp. Væntanleg á allra næstu dögum eru öpp fyrir iPhone og Android síma.
• Hægt verður að kaupa inneignir fyrir vörur Flugfélags Íslands s.s. Flugfrelsi,SMU og Flugkappa.
• Netinnritun er á næsta leiti
• „Mínar síður“ þar sem farþegar geta haldið til haga öllum viðskiptum við Flugfélag Íslands.
• Hægt verður að bóka vildarbókanir í bókunarvél

Undirbúningur að þessum nýjungum hefur tekið nokkur ár og árangur af þeirri vinnu að skila sér í þessum nýja vef/bókunarvél. Með þessum nýja vef að þá eru flestar vörur og þjónustur sem snúa að farþegaflugi Flugfélags Íslands komnar á vefinn.

Frekari upplýsingar veitir:
Ingi Þór Guðmundsson
Forstöðumaður sölu- og markaðsdeildar

20.03.2013

Flugvél Flugfélags Íslands snýr við á Akureyri

Flugvél Flugfélags Íslands sem var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur í kvöld sneri við vegna bilunar í öðrum mótor vélarinnar. Vélin fór í loftið frá Akureyri rétt fyrir kl. 21 en lenti aftur um 6 mínútum síðar vegna bilunarinnar. Engin hætta var á ferðum.
37 farþegar voru um borð ásamt þremur í áhöfn vélarinnar. Farþegum var boðin áfallahjálp en enginn þáði hana. Önnur vél frá Flugfélagi Íslands var send frá Reykjavík til að ná í farþegana og er gert ráð fyrir að hún fari í loftið frá Akureyri kl. 23 í kvöld.

28.02.2013

Hraðamet milli Reykjavíkur og Egilsstaða

Nýtt hraðamet var sett í áætlunarflugi hjá Flugfélagi Íslands milli Reykjavíkur og Egilsstaða í gær. Þá var Fokker vél félagsins 41 mínútu að fljúga þessa leið.

Fokker 50 yfir Reykjavík. Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir ekki vitað til að flugvél á vegum félagsins hafi áður verið jafn fljót austur. Hún fór frá Reykjavík klukkan 18:00 í gær en sterkur vestan vindur var í lofti. Að meðaltali sé flugtíminn á milli Reykjavíkur og Egilsstaða 60 mínútur með akstri að og frá flugbraut (heimild: ruv.is).

28.02.2013

Spikfeitt fjör fyrir vestan

Aldrei fór ég suðurÍslendingar eru byrjaðir að bóka sig á fullu í flug fyrir páskana. Heitasta hátíðin um páskana er Aldrei fór ég suður sem haldin er á Ísafirði og hefur Aldrei fór ég suður vaxið með hverju árinu. Virðast færri komast að en vilja því gistirými var nánast uppbókað á norðanverðum Vestfjörðum um síðustu páska. Margir voru líka í gistingu í heimahúsum með viðeigandi rómantík og stemningu.

Flugfélag Íslands er stoltur samstarfsaðili að Aldrei fór ég suður hátíðarinnar. Til að kynna Aldrei fór ég suður betur fyrir alþjóð fékk Flugfélag Íslands hina geysivinsælu og öflugu Fjallabræður í málið og þetta er útkoman. Niðurstaðan er spikfeitt fjör fyrir vestan páskana 2013.

Njótið - smelltu hér til að hlusta.

21.02.2013

Rúnar í Flugteríunni í Morgunblaðinu

Á dögunum birtist frétt á baksíðu Morgunblaðsins um Rúnar okkar Árnason sem staðið hefur vaktina í Flugteríunni á Reykjavíkurflugvelli í 26 ár! Rúnar hefur ákveðið að hætta rekstrinum á vormánuðum en Rúnar hættir í góðu samráði við Flugfélag Íslands. Hérna má sjá fréttina:

Rúnar í Flugteríunni

06.02.2013

Umfjöllun um Dash 8 vélar Flugfélags Íslands í Aviation Week

Tímaritið Aviation Week heimsótti okkur í desember og skrifaði grein um Dash 8 vélarnar okkar. Við vorum fyrst flugfélaga í heiminum til að uppfæra flugstjórnarklefa vélanna sem auka flugöryggi og þægindi flugmanna.

Flugstjórnarklefi í Dash 8 fyrir og eftir breytingu 

Smelltu hér til að lesa greinina í Aviation Week (slóð óvirk)
Hér má sjá myndband sem gefið var út í kjölfar heimsóknarinnar. 


06.02.2013

Sigurður Aðalsteins tekur við sölu eldri borgara af Emil Guðmunds

Emil Guðmundsson, sem verður áttræður á árinu, hætti starfi sínu sem umboðsmaður við sölu eldri borgara fyrir Flugfélag Íslands nú um áramótin. Emil hefur unnið hjá fyrirtækjum innan Icelandair Group síðan 1956 og á því að baki langan og farsælan feril að baki. Emil fór á eftirlaun árið 2000 og kom þá til Íslands og var þá beðinn um að byrja með ferðir fyrir eldri borgara fyrir Flugfélag Íslands og þá aðallega til Færeyja og Grænlands.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir störf Emils Guðmundssonar:

1954-1956 Flugmálastjórn, flugafgreiðsla Keflavíkurflugvelli.
1956-1957 Loftleiðir, vaktstjóri flugafgreiðslu Reykjavíkurflugvelli.
1957-1958 Loftleiðir, skrifstofustjóri söluskrifstofu Lækjargötu 2.
1959 Loftleiðir, vaktstjóri flugafgreiðslu Reykjavíkurflugvelli.
1959-1966 Loftleiðir, stöðvarstjóri Kastrup flugvelli, Kaupmannahöfn.
1966-1974 Hótel Loftleiðir, aðstoðarhótelstjóri.
1974-1986 Hótel Loftleiðir, hótelstjóri.
1986-1990 Icelandair, svæðisstjóri Danmörk, Færeyjar og Grænland.
1990-1991 Icelandair, svæðisstjóri Færeyjar og Grænland (Manager Nordic Routes).
1991-1995 Icelandair, svæðisstjóri Holland.
1995-2000 Icelandair, svæðisstjóri Luxembourg.

Flugfélag Íslands þakkar Emil fyrir að hafa byggt upp og unnið með sölu eldri borgaraferða síðustu árin með glæsibrag.

Sigurður Aðalsteinsson sem lét af störfum sem yfirflugstjóri hjá Flugfélagi Íslands í desember sökum aldurs hefur tekið við keflinu af Emil við sölu hinu sívinsælu eldri borgaraferða.
Flugfélag Íslands er ánægt með að hafa tækifæri til að vinna meira með Sigurði. Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar um eldri borgaraferðir Flugfélags Íslands geta náð í Sigurð í síma 8965664 eða með því að senda honum í tölvupóst

Emil og Sigurður

Emil t.v. og Sigurður


28.01.2013

Nýtt áætlunarflug á Sauðárkrók á vegum Eyjaflugs afgreitt í flugstöð Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli

Air ArcticEyjaflug (Air Arctic) ætlar að hefja áætlunarflug milli Reykjavíkur og Sauðárkróks. Eyjaflug hefur óskað eftir að Flugfélag Íslands sjái um afgreiðslu á vélum Eyjaflugs. Því mun Flugfélag Íslands sjá um afgreiðslu véla, farangurs, fraktar og farþega fyrir Eyjaflug á Reykjavíkurflugvelli. Eyjaflug munu sjálf sjá um bókanir í flugið.

Samkvæmt upplýsingum Flugfélags Íslands mun Eyjaflug hefja fyrsta flug þriðjudaginn 29.janúar 2013.

Nánar um brottfarir/flugáætlun:
Mánudagar: Farin ein ferð. Brottför 7:45 úr REK lending á SAK 9:30. Brottför frá SAK 9:00 lending í REK 9:45.
Þriðjudagar: Farnar tvær ferðir. Brottför úr REK 7:45 lending á SAK 9:30. Brottför frá SAK 9:00 lending í REK 9:45. Seinni ferðin er með brottför úr REK 17:00 lending á SAK 17:45. Brottför frá SAK 18:15 lending í REK 19:00.
Miðvikudagar: Engin ferð
Fimmtudagar: Farnar tvær ferðir. Brottför úr REK 7:45 lending á SAK 9:30. Brottför frá SAK 9:00 lending í REK 9:45. Seinni ferðin er með brottför úr REK 17:00 lending á SAK 17:45. Brottför frá SAK 18:15 lending í REK 19:00.
Föstudagar: Ein ferð. Brottför REK 17:00 lending á SAK 17:45. Brottför frá SAK 18:15 lending í REK 19:00.
Laugardagar: Engin ferð
Sunnudagar: Ein ferð seinnipartinn. Brottför úr REK 17:00 lending SAK 17:45. Brottför frá SAK 18:15 lending í REK 19:00.

Viðskiptavinum Eyjaflugs stendur til boða að koma með og sækja frakt (pakkasendingar) í fraktafgreiðslu Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli.

Allar nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu Eyjaflugs: www.airarctic.is (Sími: 571 4500. Tölvupóstur: info(hjá)airarctic.is).

Flugfélag Íslands óskar Eyjaflugi góðs gengis með nýtt áætlunarflug milli Reykjavíkur og Sauðárkróks.

Lesa frétt um málið á mbl.is 

28.11.2012

Samgöngustefna

Samgöngustefna Flugfélags ÍslandsFlugfélag Íslands styrkir starfsmenn sína í starfi og leik. Einn liður í því er ný samgöngustefna starfsfólks. Með vistvænni samgöngustefnu vill Flugfélag Íslands sýna samfélagslega ábyrgð og stuðla að heilbrigðari lífsháttum. 

Við mótun stefnunnar voru umhverfismál og heilsuefling höfð að leiðarljósi, þannig styður stefnan vel við umhverfisstefnu félagsins.
Til þess að njóta þess sem samgöngustefnan býður er gerður sérstakur samningur milli starfsmanns og Flugfélags Íslands. Samningurinn gerir ráð fyrir því að starfsmaður mæti til vinnu að jafnaði þrisvar í viku með vistvænum hætti, td. á hjóli, með strætó eða gangandi.

Samgöngustefna
Með vistvænni samgöngustefnu sinni vill Flugfélag Íslands sýna samfélagslega ábyrgð og stuðla að heilbrigðari lífsháttum.

Starfsfólk er hvatt til að hagræðis í akstri og ferðum á vegum fyrirtækisins þannig að umhverfisáhrif verði sem minnst.

Félagið hvetur starfsfólk til að nýta sér vistvænan, hagkvæman og heilsusamlegan ferðamáta til og frá vinnu og kemur til móts við starfsmenn sem það velja.

Það er gert með:
• Samgöngusamningi milli Flugfélagsins og starfsmanns
• Veitingu líkamsræktar- eða samgöngustyrks
• Samningi við Strætó b.s.
• Hvatningu og fræðslu
• Greiðslu fyrir leigubíl í neyðartilvikum á vinnutíma

Samgöngustefna þessi er kynnt fyrir starfsfólki og öllum aðgengileg. Hún styður við umhverfisstefnu félagsins og er endurskoðuð árlega.
 

 

28.11.2012

Flugfélag Íslands hlýtur gullið

Föstudaginn 23.nóvember 2012, hlaut Flugfélag Íslands viðurkenningu fyrir að hafa lokið innleiðingu á Vakanum, nýju gæða- og umhverfiskerfi fyrir aðila í ferðaþjónustu. Í þessari úttekt hlut Flugfélag Íslands Gull umhverfismerkið.

Gæða- og umhverfiskerfinu er ætlað að auka öryggi og efla gæði og fagmennsku á sviði ferðaþjónustu. Þau fyrirtæki sem taka í VAKANUM þurfa að uppfylla auknar kröfur um gæði og öryggi, jafnt fyrir starfsfólk sem og viðskiptavini. Auk þess tekur Vakinn meðal annars til aðbúnaðar, þjónustu við ferðamenn, þjálfun starfsfólks og umgengni við náttúruna svo fátt eitt sé nefnt.

Gæðakerfið byggir á tvennskonar viðmiðum fyrir þann hluta Vakans sem snýr að allri annari þjónustu við ferðamenn en gistingu:
1. Almenn viðmið, sem gilda fyrir allar tegundir rekstrar fyrir utan gistingu.
2. Sértæk viðmið, fyrir hverja tegund rekstrar sem eru alls 23 talsins.

Almennum viðmiðum er skipt upp í sjö kafla:
1. Sala og kaup á vöru eða þjónustu
2. Þjónusta og ánægja viðskiptavina
3. Aðstaða, búnaður og nánasta umhverfi
4. Stjórnendur og starfsfólk
5. Menning og saga
6. Öryggi, velferð og ábyrgð
7. Stjórnun fyrirtækisins og heildarárangur

Vakinn býður upp á þrjú stig umhverfisviðmiða en þau eru notuð til að meta hvar fyrirtæki er statt með tilliti til umhverfismála og tengingar við samfélagið. Sjálfbærni felur einmitt þetta tvennt í sér, auk efnahagslegra þátta. Í framhaldi af úttekt fær fyrirtæki Brons, Silfur eða Gull. Það er markmið Flugfélags Íslands að vinna stöðugt í gæða- og umhverfismálum og starfsfólk Flugfélags Íslands er stolt af því að vera á meðal fyrstu fyrirtækjanna á Íslandi til þess að hljóta þessa vottun.

Nánari upplýsingar um Vakann

Frá afhendingu viðurkenningarinnar

Mynd: Frá vinstri: Gunnlaug D. Pálsdóttir, Sharon Jeannine Kerr og Árni Gunnarsson frá Flugfélagi Íslands, með þeim Áslaugu Briem og Elíasi Gíslasyni frá Ferðamálastofu.

13.11.2012

Nýr afísingarbíll kominn í fulla notkun á Akureyri


Veðurguðirnir hafa verið iðnir við að senda lægðir á landið undanfarið og hefur Norðurland ekki farið varhluta af því. Því hefur nýi afísingarbíllinn komið að góðum notum á flugvellinum á Akureyri. Nýr afísingarbíll leysir af hólmi eldra tæki sem notað var við afísingar.

Afísingarbíll á Akureyri

20.09.2012

Kaupstefna í Nuuk í fullum gangi


Kaupstefna stendur nú yfir í Nuuk í Grænlandi á vegum alþjóðasviðs Viðskiptaráðs Íslands og Flugfélags Íslands. Sýningin er staðsett í menningarhúsinu Katuaq og var sett upp í þeim tilgangi að gefa heimamönnum og Íslendingum tækifæri til að stofna til viðskiptasambanda.
Kaupstefna stendur nú yfir í Nuuk í Grænlandi á vegum alþjóðasviðs Viðskiptaráðs Íslands og Flugfélags Íslands. Sýningin er staðsett í menningarhúsinu Katuaq og var sett upp í þeim tilgangi að gefa heimamönnum og Íslendingum tækifæri til að stofna til viðskiptasambanda. Eins og sést var nóg að gera á bási Flugfélags Íslands og starfsmenn höfðu í nóg að snúast.

Ráðstefna í Nuuk