Air Iceland Connect-hátíð Hróksins í Nuuk 2018

8.6.2018 11:15:29

Skákfélagið Hrókurinn efnir til Air Iceland Connect-hátíðarinnar 2018 í Nuuk, 8.-13. júní næstkomandi. Haldin verða skákmót og fjöltefli í Nuuk Center, grunnskólar, athvörf, fangelsi og heimili fyrir börn heimsótt. Yfirskrift hátíðarinnar er: Til lífs og til gleði.

Liðsmenn Hróksins fagna því nú, að 15 ár eru liðin síðan félagið hélt fyrsta alþjóðlega skákmótið í sögu Grænlands. Það var í Qaqortoq í júní 2003, og meðal keppenda voru sumir sterkustu skákmenn heims, fjöldi heimamanna, og forsetar grænlenska og íslenska þingsins, Jonathan Motzfeldt og Halldór Blöndal. Síðan hafa Hróksmenn heimsótt Grænland hátt í 70 sinnum, haldið fjölda hátíða og tekið þátt í ótal samfélagsverkefnum til að efla samskipti og vináttu nágrannanna í norðri.

Átta liðsmenn Hróksins lenda í Nuuk 8. júní. Leiðangursstjóri er Hrafn Jökulsson forseti Hróksins, og með í för eru Róbert Lagerman skákmeistari og varaforseti félagsins, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt heiðursforseti Hróksins á Grænlandi, Stefán Herbertsson fv. formaður vinafélags Íslands og Grænlands, Max Furstenberg ljósmyndari, tónlistarmennirnir Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson, og síðast en ekki síst hin 9 ára Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir, sem er lukkutröll hátíðarinnar. Öll hafa þau margoft komið áður til Grænlands.

Hátíðin hefst formlega í Nuuk Center laugardaginn 9. júní klukkan 14 og verður Vivian Motzfeldt, mennta- og utanríkisráðherra heiðursgestur. Flutt verður tónlist og síðan munu Róbert og Hrafn tefla fjöltefli við gesti og gangandi. Öllum er velkomið að spreyta sig gegn meisturunum, og boðið verður upp á góðgæti frá Íslandi.

Sunnudaginn 10. júní klukkan 14 stendur Hrókurinn, ásamt Skákfélagi Nuuk, að Meistaramóti Nuuk 2018. Fyrstu verðlaun eru ferð til Íslands í boði Air Iceland Connect, en auk þess verður fjöldi annarra verðlauna. Öllum er velkomið að taka þátt.

Hrókurinn, skákhátíð, Nuuk, Grænland