Air Iceland Connect styrkir Listasafn Akureyrar

17.1.2018 10:30:40

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var dagskrá ársins 2018 og komandi starfsár kynnt. Einnig var farið í gegnum þær framkvæmdir sem nú standa yfir á Listasafninu og þær útskýrðar.

Í lok fundarins var undirritaður nýr samstarfssamningur Listasafnsins og Icelandair Hotels Akureyri og Air Iceland Connect. Það var Sigrún Björk Sigurðardóttir, hótelstjóri Icelandair Hotels Akureyri, og Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, sem undirrituðu samninginn. 

Listasafninu verður lokað í maí og fram til 17. júní þegar nýtt safn verður formlega tekið í notkun. Þá verða opnaðar sjö sýningar samdægurs: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Hugleiðing um orku; Sigurður Árni Sigurðsson, Hreyfðir fletir; Aníta Hirlekar, Bleikur og grænn; Svipir – valin verk úr safneign Listasafns ASÍ, Hjördís Frímann og Magnús Helgason; Hugmyndir, Úrval – valin verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri og yfirlitssýningin Frá Kaupfélagsgili til Listagils.

Í frétt á Vikudagur.is kemur fram að Listasafnið muni verða þátttakandi í Iceland Airwaves í ár en Air Iceland Connect er styrktaraðili þeirrar hátíðar að auki.

Tölvuteiknuð mynd af því hvernig Listasafnið mun koma til með að líta út

Tölvuteiknuð mynd af því hvernig Listasafnið mun koma til með að líta út eftir framkvæmdir en m.a. verður kaffihús opnað á safninu.

Listasafn Akureyrar, styrkur