Kulusuk dagsferð

Kulusuk dagsferð

Ferð á slóðir nágranna okkar í norðri er engu lík. Á aðeins 100 mínútum er hægt að komast til Grænlands frá Íslandi og heimsækja bæinn Kulusuk.

Flogið er frá Reykjavíkurflugvelli og leiðsögumaður frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum tekur á móti farþegum í Kulusuk.

Stoppað er í fjórar klukkustundir í Kulusuk. Gengið er að þorpinu (alls 3 km) og fræðst er um íbúa og menningu staðarins og m.a. er sýning á grænlenskum trommudansi.   

Flug 100 mín.Ganga 6 km.Mælum með góðum skóm

 


 Dagsferð til Kulusuk

Dagsferð til Kulusuk er ógleymanleg upplifun.

Í Kulusuk sem er í Ammassalik héraði, má enn sjá leifar af gamla grænlenska veiðisamfélaginu. Tröllauknir borgarísjakar lóna úti fyrir þorpinu, þar sem húsin eru litskrúðug og virðast mega sín lítils í ógnvekjandi náttúrunni. Elstu íbúarnir eru fæddir inn í aldagamlar hefðir, þar sem verklag og lífhættir höfðu verið þeir sömu um aldaraðir. Nútíminn með sinni vestrænu menningu hóf ekki innreið sína í Kulusuk fyrr en árið 1958 þegar Bandaríkjamenn komu þangað til að byggja þar herstöð. Enn eimir þó eftir af þessu gamla, og enn veiða menn seli, hvali og ísbirni. Gangan að bænum
Grænlendingar eru miklir gestgjafar og mjög skemmtilegir að heimsækja. Gangan milli flugvallarins og þorpsins tekur um 40 mínútur og er um 3 km (nauðsynlegt að vera í góðum skóm). Meðfram stígnum milli flugvallarins og þorpsins eru hlaðnir haugar, sem þegar betur er að gáð, eru grafir forfeðranna. Skortur á jarðvegi gerir það að verkum að grjóti er hlaðið utan um hina látnu til að halda rándýru, fuglum og öðrum óvinsælum gestum frá.


 
Gangur lífsins
Nýi kirkjugarðurinn sem stendur eilítið frá þorpinu er ótrúleg sjón í þessu hörkulega landslagi. Plastblóm skreyta leiðin, en engin nöfn eru á hvítum krossunum. Trú Grænlendinga er sú að sálin lifi áfram og því fá nýfædd börn nöfn hinna látnu.Menningararfurinn
Í Kulusuk bjóða heimamenn upp á skemmtidagskrá fyrir ferðamenn og sungnir eru ævagamlir veiðimannasöngvar, sem varðveist hafa í munnlegri geymd. Að sýningu lokinni má ganga upp að Stórasteini þar sem veiðimenn hafa í aldanna rás farið til að skima eftir bráð sinni. Þar er útsýni gott. Ótrúlega fallegt handverk er hluti af menningararfinum og því ekki úr vegi að skoða hvað er á boðstólnum, áður en haldið er heim að nýju.

 

Ferðin er í boði á sumrin (sjá nánar í bókunarvél hér fyrir ofan).

Einnig er boðið uppá flug og hótel í Kulusuk og í Tasilaq. Vinsamlegast hafðu samband við söludeild fyrir frekari upplýsingar í síma 570 3030 eða með því að senda póst.

Ath. að ef fresta þarf flugi um meira en eina klukkustund þarf að fella niður dagsferðina þar sem tími verður ekki nægur. Ferðin er þá endurgreidd að fullu.